Fara í efni

Málefni fatlaðs fólks á Norðurlandi vestra

Málsnúmer 2111124

Vakta málsnúmer

Byggðarráð Svf. Skagafjarðar - 990. fundur - 17.11.2021

Lagt fram bréf dagsett 11. nóvember 2021 frá Húnaþingi vestra varðandi málefni fatlaðs fólks á Norðurlandi vestra, þar sem Sveitarfélagið Skagafjörður er leiðandi sveitarfélag.
Byggðarráð Sveitarfélagsins Skagafjarðar lýsir yfir áhyggjum af mjög vaxandi halla á rekstri málaflokks fatlaðs fólks á Norðurlandi vestra. Er sá halli tilkominn vegna aukins rekstrarkostnaðar við málaflokkinn, m.a. vegna styttingar vinnutíma hjá vaktavinnufólki, en einnig vegna þess að framlög Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga dragast saman um tæplega 120 m.kr. á milli ársins 2020 og þeirrar áætlunar sjóðsins sem liggur fyrir varðandi árið 2021. Að óbreyttu vex kostnaður vegna viðbótarframlaga sveitarfélaga á Norðurlandi vestra sem þau þurfa að leggja til með málaflokknum umfram það útsvarshlutfall sem ætlað er að standa undir rekstri hans, því um 450% á milli áranna 2020 og 2021 og ber Sveitarfélagið Skagafjörður mestan þunga aukningarinnar, bæði hlutfallslega og eins hvað hreina fjárupphæð varðar.

Í úttekt á málefnum fatlaðs fólks á Norðurlandi vestra sem HLH rágjöf vann fyrir Sveitarfélagið Skagafjörð og kom út í ágúst 2020, kom fram að sterkar vísbendingar væru um að skipulag þjónustu og verkefna í málaflokknum samræmdust gildandi lögum, grunnur starfseminnar væri góður, ánægja ríkti á meðal starfsfólks og að mikil þekking og reynsla væri til staðar. Tækifæri væru þó til að styrkja rekstur málaflokksins og hefur verið unnið að því þótt tveir stórir þættir hafi sett strik í reikninginn hvað rekstur liðinna mánaða varðar, þ.e. afleiðingar Covid-19 faraldursins og stytting vinnutíma hjá vaktavinnufólki.

Byggðarráð vill árétta að Sveitarfélagið Skagafjörður hefur metnað og fagmennsku að leiðarljósi í allri umgjörð þjónustu við fatlað fólk á Norðurlandi vestra. Áherslur í þjónustu eru í samræmi við lög og reglugerðir og alþjóðlegar skuldbindingar sem íslensk stjórnvöld hafa gengist undir, einkum samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks

Byggðarráð Sveitarfélagsins Skagafjarðar bindur vonir við að vinna starfshópa á vegum félags- og barnamálaráðherra varðandi þjónustu við fatlað fólk, sem m.a. var kynnt á fjármálaráðstefnu Sambands íslenskra sveitarfélaga í liðnum mánuði, muni leiða í ljós að verulega fjármuni þarf að leggja fram af hálfu ríkisins til sveitarfélaga landsins, eigi sveitarfélögin að standa undir þeirri þjónustu við málaflokkinn sem þeim er ætlað að gera lögum samkvæmt. Er þar annars vegar um að ræða starfshóp sem ætlað er að greina kostnaðarþróun í þjónustu við fatlað fólk á árunum 2018-2020 og hins vegar starfshóp um heildarendurskoðun á lögum nr. 38/2018 um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir. Síðarnefnda hópnum er ætlað að meta hvaða lög, reglugerðir eða reglugerðabreytingar og stjórnvaldsfyrirmæli kunna að hafa áhrif á rekstrarkostnað sveitafélaga ? í samræmi við samkomulag um markmið um afkomu og efnahag sveitarfélaga 2021-2025.

Minnt er á að málefni fatlaðs fólks og tilfærsla málaflokksins frá ríki til sveitarfélaga, ásamt breytingum á laga- og reglugerðarumhverfi málaflokksins í kjölfarið, er ein stærsta áskorunin sem sveitarfélög landsins standa frammi fyrir þessi misserin. Komi ekki til aukið fjármagn frá ríkinu til málaflokksins er hætt við að vaxandi útgjöld ógni fjárhagslegri sjálfbærni margra sveitarfélaga, svo sem kom fram í máli sviðstjóra hag- og upplýsingasviðs Sambands íslenskra sveitarfélaga á fyrrgreindri fjármálaráðstefnu sveitarfélaganna.

Byggðarráð Sveitarfélagsins Skagafjarðar tekur undir áhyggjur Húnaþings vestra og skorar á ríkisstjórn Íslands að bregðast nú þegar við vanda sveitarfélaganna og veita viðbótarframlagi til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga til stuðnings reksturs málaflokksins.