Fara í efni

Áskorun frá grásleppusjómönnum í Skagafirði

Málsnúmer 2203054

Vakta málsnúmer

Byggðarráð Svf. Skagafjarðar - 1006. fundur - 09.03.2022

Tekið fyrir erindi frá útgerðarmönnum sem stundað hafa grásleppuveiðar síðustu ár og áratugi frá Skagafirði en áhersla þeirra er sú að veiðistýring á grásleppu fari fram með úthlutun aflahlutdeildar. Málið er jafnframt tengt frumvarpi til laga um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða (veiðistjórn sandkola og hryggleysingja), 349. mál á 152. löggjafarþingi 2021-2022, sem atvinnuveganefnd Alþingis hefur sent út til umsagnar.
Byggðarráð Sveitarfélagsins Skagafjarðar leggur áherslu á að sú stýring sem verið hefur á grásleppuveiðum, með heildarafla og stöðvun veiða þegar þeim afla er náð, hefur ekki reynst farsæl og leitt til mikillar samkeppni um að ná sem mestum afla sem fyrst á veiðitímabili af ótta við stöðvun veiða. Þess konar stýring kann einnig að leiða til að ekki sé gætt fyllsta öryggis við veiðar og jafnframt er meiri hætta en ella á veiðarfæratjóni vegna veðurskilyrða.
Byggðarráð Sveitarfélagsins Skagafjarðar leggur áherslu á að hvers kyns stýring á veiðum grásleppu verði byggð á vönduðum rannsóknum og áreiðanlegum gögnum um stofnstærð og að haft verði að leiðarljósi að sjálfbær nýting til framtíðar verði tryggð. Það er einnig mikilvægt að stýring stuðli að hagkvæmni veiða og að sjómenn geti skipulagt veiðar með tilliti til aðstæðna og hagkvæmni. Jafnframt er mikilvægt að veiðistýring verði með þeim hætti að hún hafi ekki óeðlileg áhrif á verðmyndun afurða.