Fara í efni

Samráð; Drög að þingsályktunartillögu um landbúnaðarstefnu

Málsnúmer 2302155

Vakta málsnúmer

Byggðarráð Skagafjarðar - 35. fundur - 15.02.2023

Lagður fram til kynningar tölvupóstur dagsettur 10. febrúar 2023 þar sem matvælaráðuneytið kynnir til samráðs mál nr. 30/2023, "Drög að þingsályktunartillögu um landbúnaðarstefnu". Umsagnarfrestur er til og með 24.02. 2023.
Byggðarráð Skagafjarðar fagnar framkominni tillögu til þingsályktunar um landbúnaðarstefnu til ársins 2040 og leggur áherslu á að staðinn sé vörður um innlenda búvöruframleiðslu, mikilvægi hennar er óumdeilt. Í tillögunni koma fram mörg mikilvæg og góð markmið sem öll lúta meira og minna í þá átt að efla enn frekar innlenda framleiðslu landbúnaðarvara en um leið að það verði gert á sem umhverfisvænastan hátt með bæði hagsmuni neytenda, dýra og framleiðenda að leiðarljósi. Byggðarráð vill minna á að í heiminum er hörð samkeppni um framleiðslu á matvælum. Jafnframt er hið alþjóðlega regluverk flókið samhliða þeirri staðreynd að framleiðsluskilyrði, umhverfi og regluverk í löndum eru mismunandi. Til að stefna sem þessi nái markmiðum sínum verður tvennt að gerast. Annars vegar er nauðsynlegt að fyrir liggi samþykkt og fjármögnuð aðgerðaáætlun um hvernig stjórnvöld ætli að ná settum markmiðum í landbúnaðaráætluninni. Hitt sem einnig er mikilvægt er að stjórnvöld hverju sinni að hafi kjark til að taka mið af íslenskum aðstæðum við setningu laga og reglugerða þannig að innlend framleiðsla líði ekki fyrir legu landsins, vegalengdir og þær litlu framleiðslueiningar sem hér eru í samanburði við öll okkar helstu nágrannalönd. Í þessu samhengi er einnig mikilvægt að stjórnvöld vandi sig betur en gert hefur verið þegar lög og reglugerðir erlendis frá eru innleidd fyrir íslenskar aðstæður en þá virðist oft skorta að horft sé til íslenskra staðhátta. Það að framleiða heilbrigðar og góðar landbúnaðarvörur með jafn heilbrigðum framleiðsluaðferðum og hér eru notaðar, og stefnt er að gera ennþá betri, kostar líka bæði rannsóknir og vinnu sem verður að fjármagna af hálfu hins opinbera. Byggðarráð styður einnig aukna aðkomu hins opinbera að aukinni framleiðslu korns, grænmetis og fleiri vöruflokka sem ekki hafa hlotið tilhlýðilegan stuðning til jafns við það sem gert er erlendis. Það er mikilvægt að efla þessa framleiðslu en það má ekki gerast á kostnað þeirra greina sem fyrir eru í framleiðslu búvara en standa þarf vörð um grundvöll þeirra. Gerum Ísland sjálfbært í sem allra flestum vöruflokkum.