Fara í efni

Umsagnarbeiðni; Þingsályktunartillaga um matvælastefnu til ársins 2040

Málsnúmer 2304010

Vakta málsnúmer

Byggðarráð Skagafjarðar - 42. fundur - 05.04.2023

Lagður fram tölvupóstur frá Atvinnuveganefnd Alþingis, dags. 31. mars 2023, þar sem send er til umsagnar tillaga til þingsályktunar um matvælastefnu til ársins 2040, 915. mál. Óskað er eftir að undirrituð umsögn berist eigi síðar en 17. apríl.
Byggðarráð Skagafjarðar fagnar að unnin hafi verið tillaga til þingsályktunar um matvælastefnu til ársins 2040 en leggur áherslu á að nokkur atriði verði skýrð betur. Tillagan byggir á 6 þáttum sem allir hafa mikilvægar fyrirsagnir. Í flestum þeirra eru samt útþynntar eða loðnar lýsingar á því sem ætlað er að gera. Sem dæmi má nefna lið nr. 4 en þar stendur „4.1. Stuðlað verði að því að matvæli sem framleidd eru hér á landi sem og aðflutt matvæli séu örugg og heilnæm“. Byggðarráð telur að hér eigi að kveða mun fastar að orði og segja að matvæli sem hér eru framleidd skuli vera örugg og heilnæm og það sama skal eiga við um öll innflutt matvæli. Öryggi og heilnæmi matvælanna snýr meðal annars að kröfum um aðbúnað dýra, lyfjanotkun í framleiðslu og staðfestum uppruna þeirrar vöru sem seld er. Sömu kröfur verða að vera til vara sem fluttar eru til landsins og þess sem framleitt er hér á landi.
Eins má nefna lið nr. 5 en í línu 5.1 stendur „Stuðlað verði að því að neytendur séu vel upplýstir um uppruna, innihald og kolefnisspor matvæla“. Byggðarráð telur þetta allt of veikt til orða tekið og krefst þess að neytendur verði upplýstir með skýrum og greinilegum hætti um uppruna, innihald og kolefnisspor allra þeirra matvæla sem boðin eru til sölu í verslunum á Íslandi, hvort sem þau eru innlend framleiðsla eða innflutt. Við útreikning á kolefnisspori matvælanna er einnig mikilvægt að stuðst sé við sömu forsendur og reikniaðferðir. Eins þurfa merkingar á matvælum sem flutt eru óunnin til landsins og síðan meðhöndluð lítillega og endurpökkuð að vera skýr um uppruna hrávörunnar og þá hvers vegna hún sé kominn í innlendar neytendaumbúðir.
Varðandi allar merkingar á vörum þá er eðlilegt í matvælastefnu til ársins 2040 að tekið sé fyrir að vörur sem eru innfluttar megi ekki pakka í umbúðir sem á einhvern hátt gefa til kynna að þær séu íslenskar að megin uppistöðu, samanber notkun fánalitanna á innfluttum landbúnaðarvörum í dag.
Undir lið nr. 6 er fjallað um rannsóknir, nýsköpun og menntun. Í lið 6.4 stendur „Hlúð verði að grunn rannsóknum og vöktun lifandi auðlinda og matvæla“. Byggðarráð telur að þessi liður og fleiri sambærilegir með álíka loðið orðalag í framlagðri stefnu þurfi að vera skýrari um að ætlunin sé að fara í raunverulegar aðgerðir til að tryggja örugga matvælaframleiðslu á Íslandi og sanngjarnar og eðlilegar kröfur til innfluttra matvæla með bæði hagsmuni neytenda og innlendra framleiðenda að leiðarljósi.
Byggðarráð er einnig sammála um að skýra þurfi betur markmið og meiningu nokkurra liða. Má þar nefna t.d. lið nr 2.4 en þar stendur: „Stuðlað verði að uppbyggingu innviða um allt land sem geri fyrirtækjum í matvælaframleiðslu og nýtingu náttúruauðlinda kleift að fjárfesta og þróast óháð staðsetningu“.
Einnig þarf umfjöllun um stefnuna í framkvæmd að vera skýrari. Það þarf að vera skýrt að þær áætlanir sem gerðar verða til 5 ára um framfylgd matvælastefnunnar hafi hver um sig bæði ábyrgðaraðila og fjármögnun svo hún nái markmiðum sínum.