Fara í efni

Aðstæður til knattspyrnuiðkunar á Íslandi

Málsnúmer 2304176

Vakta málsnúmer

Byggðarráð Skagafjarðar - 46. fundur - 03.05.2023

Lögð fram svohljóðandi áskorun til formanns og stjórnar KSÍ:
Byggðarráð Skagafjarðar skorar á formann og stjórn KSÍ að grípa til markvissra og tafarlausra aðgerða til að koma í veg fyrir mismunun á milli karla og kvenna sem iðka knattspyrnu og spila í deildakeppni hér á landi.
Eins og kemur svo glögglega fram á heimasíðu Knattspyrnusambands Íslands (KSÍ) þá er þriðjungur skráðra knattspyrnuiðkenda á Íslandi kvenkyns. Samt sem áður virðist sem samtökin Íslenskur toppfótbolti (ÍTF), sem eru hagsmunasamtök þeirra félaga sem reka lið í efstu deildum karla og kvenna í knattspyrnu, miði hagsmunagæslu sína, markaðsefni og skili fjárhagslegum ávinningi af starfi samtakanna einkum til knattspyrnu karla. Á heimasíðu ÍTF er á meðal markmiða samtakanna að stuðla að samvinnu ÍTF og KSÍ að öllum málum er snúa að félögunum og hagsmunum þeirra. Einnig að hagnýta réttindi, svo sem sjónvarpsréttindi, markaðsréttindi, nafnaréttindi deilda, sölu auglýsinga og markaðssetningu fyrir þær deildir sem eiga aðild að ÍTF og ráðstafa þeim réttindum. Því vekur mikla furðu að ekki skuli gæta meira jafnræðis á milli karla og kvenna þegar kemur að því að skila fjárhagslegum ávinningi af starfi samtakanna til aðildarfélaga ÍTF.
Byggðarráð Skagafjarðar hvetur formann og stjórn KSÍ og formann og stjórn ÍTF til að vinna saman að uppbyggingu og framgangi íslenskrar knattspyrnu, bæði á meðal karla og kvenna, og að gæta að jafnræði kynjanna í öllu starfi, hagsmunagæslu og fjárhagslegum úthlutunum á vegum beggja sambanda/samtaka.
Byggðarráð Skagafjarðar beinir því einnig til stjórnar KSÍ að það er með öllu óeðlilegt að sambandið setji einhliða reglur og geri ítarlegar og mjög fjárfrekar kröfur til mannvirkja svo knattspyrnulið megi spila í efstu deildum karla og kvenna á Íslandi. Um er að ræða kröfur sem geta hljóðað upp á tugi og hundruð milljóna króna. Í mörgum tilfellum er um að ræða slíkar kröfur að óraunhæft er að íþróttafélög eða sveitarfélög kosti alla uppbyggingu og rekstur slíkra mannvirkja. Íslenska þjóðin telur innan við 400 þúsund manns og ljóst að óraunhæft er með öllu að gera sömu kröfur til fámennra samfélaga hér á landi líkt og gerist á meðal milljónaþjóða erlendis. Eðlilegt er að fram fari samtal á milli stjórnar KSÍ og Sambands íslenskra sveitarfélaga um raunhæfar og eðlilegar kröfur til knattspyrnumannvirkja hér á landi.