Fara í efni

Byggingarnefnd menningarhúss á Sauðárkróki

Málsnúmer 2401295

Vakta málsnúmer

Byggðarráð Skagafjarðar - 82. fundur - 31.01.2024

Lögð fram tillaga um stofnun byggingarnefndar um menningarhús á Sauðárkróki:
Byggðarráð Sveitarfélagsins Skagafjarðar samþykkir að setja á fót sérstaka byggingarnefnd fyrir menningarhús á Sauðárkróki. Nefndin skal hafa yfirumsjón með fyrirhuguðum framkvæmdum við menningarhús á Sauðárkróki, endurbótum eldra húsnæðis og nýbyggingu, ásamt hönnun. Byggingarnefndin skal skipuð oddvitum allra flokka sem sæti eiga í sveitarstjórn Sveitarfélagsins Skagafjarðar. Formaður eignasjóðs er jafnframt formaður bygginganefndarinnar og hefur hann tvöfalt atkvæðavægi.
Með nefndinni skulu eftir atvikum vinna sveitarstjóri, sviðsstjóri veitu- og framkvæmdasviðs, safnstjórar Byggðasafns Skagfirðinga, Héraðsbókasafns Skagfirðinga og Héraðsskjalasafns Skagfirðinga, auk eftir atvikum annarra starfsmanna og hagsmunaaðila.

Jóhanna Ey Harðardóttir fulltrúi Byggðalistans leggur fram eftirfarandi tillögu:
Byggðarráð Skagafjarðar samþykkir að fresta stofnun byggingarnefndar menningarhúss á Sauðárkróki þar til framkvæmdir á leikskóla í Varmahlíð og íþróttahúsi á Hofsósi hafa verið boðnar út og einnig að tryggt sé að ríkissjóður muni taka þátt í því að greiða sinn hlut til móts við sveitarfélagið af þeim umframkostnaði sem hljótast muni af framkvæmdinni vegna hækkunar byggingarvísitölu framkvæmda frá því að kostnaðarmat var gert.
Greinargerð.
Samkomulag um byggingu menningarhúss í Skagafirði var undirritað í maí síðastliðinn, í samkomulaginu er kveðið á um framkvæmd á 1.252 fermetra nýbyggingu og endurbótum á núverandi húsi. Þar kemur fram að ríkissjóður greiði 60% eða sem nemur 910 m.kr. og Skagafjörður 40% og allan þann umframkostnað sem fellur til við framkvæmdina. Heildarkostnaður við framkvæmdina er talin nema 1.517 m.kr. og er þar stuðst við kostnaðaráætlun frá því í nóvember 2021. Samkvæmt Hagstofu Íslands þá hefur byggingarvísitala hækkað um 17,5% frá nóvember 2021 þar til í janúar 2024. Því teljum við mikilvægt að áður lengra er haldið sé það tryggt að ríkissjóður muni taka þátt í umframkostnaði sem hljótast muni af framkvæmdinni.
Sveitarstjórn Skagafjarðar samþykkti fjárhagsáætlun fyrir árið 2024 og í framkvæmdaáætlun kemur það skýrt fram að mikil þörf er á uppbyggingu og endurbótum við leik- og grunnskóla í Skagafirði. Við teljum þær framkvæmdir eiga að hljóta forgang en ekki þurfa að seinka eða víkja vegna umframkostnaðar sem að öllum líkindum muni hljótast vegna framkvæmda við menningarhús á Sauðárkróki.

Tillaga fulltrúa Byggðalistans felld með 2 atkvæðum meirihluta gegn 1 atkvæði fulltrúa Vinstri grænna og óháðra.

Fulltrúar meirihluta óska bókað:
Fulltrúar meirihluta vilja árétta að framkvæmdir við byggingu menningarhúss á Sauðárkróki eiga sér langa sögu sem margoft er búið að ræða og bóka um í byggðarráði og sveitarstjórn. Með undirritun samnings, sem áður var samþykktur af sveitarstjórn, við menntamálaráðherra 20. maí 2023, var málið sett í ákveðinn farveg og ákveðið að framkvæmdum skyldi lokið árið 2027. Jafnframt að framkvæmdin skyldi byggð á fyrirliggjandi þarfagreiningu. Einnig var samþykkt í fjárhagsáætlun Skagafjarðar fyrir árið 2024 að verja 20 m.kr í hönnun og undirbúning framkvæmda árið 2024. Það að hefja þetta ferli núna er því eðlilegt skref í ljósi þess sem ákveðið hefur verið áður og hefur ekki áhrif á aðrar framkvæmdir sem sveitarfélagið er að vinna að eða komnar eru í gang.

Tillaga um stofnun byggingarnefndar um menningarhús á Sauðárkróki samþykkt með 2 atkvæðum meirihluta byggðarráðs. Fulltrúi Vinstri grænna og óháðra situr hjá við afgreiðslu málsins.

Sveitarstjórn Skagafjarðar - 23. fundur - 21.02.2024

Vísað frá 82. fundi byggðarráðs frá 31. janúar sl. til afgreiðslu sveitarstjórnar, þannig bókað:
"Lögð fram tillaga um stofnun byggingarnefndar um menningarhús á Sauðárkróki:
Byggðarráð Sveitarfélagsins Skagafjarðar samþykkir að setja á fót sérstaka byggingarnefnd fyrir menningarhús á Sauðárkróki. Nefndin skal hafa yfirumsjón með fyrirhuguðum framkvæmdum við menningarhús á Sauðárkróki, endurbótum eldra húsnæðis og nýbyggingu, ásamt hönnun. Byggingarnefndin skal skipuð oddvitum allra flokka sem sæti eiga í sveitarstjórn Sveitarfélagsins Skagafjarðar. Formaður eignasjóðs er jafnframt formaður bygginganefndarinnar og hefur hann tvöfalt atkvæðavægi.
Með nefndinni skulu eftir atvikum vinna sveitarstjóri, sviðsstjóri veitu- og framkvæmdasviðs, safnstjórar Byggðasafns Skagfirðinga, Héraðsbókasafns Skagfirðinga og Héraðsskjalasafns Skagfirðinga, auk eftir atvikum annarra starfsmanna og hagsmunaaðila.
Tillaga um stofnun byggingarnefndar um menningarhús á Sauðárkróki samþykkt með 2 atkvæðum meirihluta byggðarráðs. Fulltrúi Vinstri grænna og óháðra situr hjá við afgreiðslu málsins."

Sveinn Þ. Finster Úlfarsson kvaddi sér hljóðs og lagði fram eftirfarandi bókun Byggðalista.
Samkomulag um byggingu menningarhúss í Skagafirði var undirritað í maí síðastliðinn, í samkomulaginu er kveðið á um framkvæmd á 1.252 fermetra nýbyggingu og endurbótum á núverandi húsi. Þar kemur fram að ríkissjóður greiði 60% eða sem nemur 910 m.kr. og Skagafjörður 40% og allan þann umframkostnað sem fellur til við framkvæmdina. Heildarkostnaður við framkvæmdina er talin nema 1.517 m.kr. og er þar stuðst við kostnaðaráætlun frá því í nóvember 2021. Samkvæmt Hagstofu Íslands þá hefur byggingarvísitala hækkað um 17,5% frá nóvember 2021 þar til í janúar 2024. Því teljum við mikilvægt að áður lengra er haldið sé það tryggt að ríkissjóður muni taka þátt í umframkostnaði sem hljótast muni af framkvæmdinni.
Sveitarstjórn Skagafjarðar samþykkti fjárhagsáætlun fyrir árið 2024 og í framkvæmdaáætlun kemur það skýrt fram að mikil þörf er á uppbyggingu og endurbótum við leik- og grunnskóla í Skagafirði. Við teljum þær framkvæmdir eiga að hljóta forgang en ekki þurfa að seinka eða víkja vegna umframkostnaðar sem að öllum líkindum muni hljótast vegna framkvæmda við menningarhús á Sauðárkróki. Að því sögðu teljum við fulltrúar Byggðalista ekki tímabært að stofna Byggingarnefnd menningarhúss á Sauðárkróki og sitjum hjá við atkvæðagreiðslu.

Þá tóku til máls Sigfús Ingi Sigfússon sveitarstjóri og Sigurlaug Vordís Eysteinsdóttir og Einar E Einarsson.

Einar E Einarsson kvaddi sér hljóðs og lagði fram eftirfarandi bókun:
Fulltrúar meirihluta óska bókað:
Fulltrúar meirihluta sveitastjórnar vilja árétta að fyrirætlanir við byggingu menningarhúss á Sauðárkróki eiga sér langa sögu sem margoft er búið að ræða og bóka um í byggðarráði og sveitarstjórn. Með undirritun samnings, sem áður var samþykktur af sveitarstjórn, við menntamálaráðherra 20. maí 2023, var málið sett í ákveðinn farveg og ákveðið að framkvæmdum skyldi lokið árið 2027. Jafnframt að framkvæmdin skyldi byggð á fyrirliggjandi þarfagreiningu. Einnig var samþykkt í fjárhagsáætlun Skagafjarðar fyrir árið 2024 að verja 20 m.kr í hönnun og undirbúning framkvæmda árið 2024. Það að hefja þetta ferli núna er því eðlilegt skref í ljósi þess sem ákveðið hefur verið áður og hefur ekki áhrif á aðrar framkvæmdir sem sveitarfélagið er að vinna að eða komnar eru í gang. Verkefnið framundan er því að hefja hönnunferli á grundvelli fyrirliggjandi þarfagreiningar og það verður hlutverk bygginganefndar að tryggja að ferlið fram undan takist vel enda markmiðið ljóst að fá út úr þessu verkefni bæði gott og glæsilegt hús sem samræmist bæði áætluðum kostnaði og fyrirliggjandi þarfagreiningu.

Þá tóku til máls, Jóhanna Ey Harðardóttir, Sigfús Ingi Sigfússon sveitarstjóri.

Sigurlaug Vordís Eysteinsdóttir fulltrúi Vg og óháðra kvaddi sér hljóðs og lagði fram eftirfarandi bókun:
Það hefur verið áratuga bið eftir Menningarhúsi á Sauðárkrók, ýmsar þarfagreiningar gerðar á tugi ára fresti því þörfin fyrir menningarhúsi hefur verið mikil og er það enn. Skagafjörður er nefnilega afar ríkur a og Sif listafólki og listhópum sem standa að list viðburðum sem efla og prýða menningu samfélagsins okkar. Bygging þessa mannvirkis hefur verið eitt stærsta kosningaloforð meirhlutans. Þegar svo loks á að fara að hrinda loforðinu í framkvæmd, menningarhúsið á Sauðárkróki á loks að fara að rísa, þá er áætlunin að það þurfi einungis 20% rými fyrir listmenningu og Skagafjörður borgi hundruði milljóna fyrir ímyndina eina af glæsilegu menningarhúsi. Samkvæmt fundargögnum er staðreyndin nefnilega sú að 1801 fermetrar skiptast í varðveislurými, fundarsali, vinnurými,veitingarými og lesrými á meðan 440 fermetrar munu rýma aðstöðu fyrir leiklist og sviðslistarsal sem samt einnig á að vera ráðstefnusalur. Miðað við þessa rýmisgreiningu verður þetta dýr geymsla byggð á þeim fölsku forsendum að hægt sé að kalla þetta Menningarhús.

Einar E Einarsson tók til máls.

Tillaga um stofnun byggingarnefndar um menningarhús á Sauðárkróki borin upp til afgreiðslu sveitarstjórnar og samþykkt með fimm atkvæðum. Fulltrúar Vg og óháðra og Byggðalista óska bókað að þau sitji hjá.