Fara í efni

Reynistaður L145992 - Umsókn um stofnun byggingarreits

Málsnúmer 2404256

Vakta málsnúmer

Skipulagsnefnd - 49. fundur - 02.05.2024

Helgi Jóhann Sigurðsson þinglýstur eigandi jarðarinnar Reynistaður, landnr. 145992, óskar eftir heimild til að stofna 980,5 m² byggingarreit á landi jarðarinnar, skv. meðfylgjandi, hnitsettum afstöðuuppdrætti nr. S01 í verki 77980000 útg. 25. apríl 2024. Afstöðuppdráttur var unnin á Stoð ehf. verkfræðistofu af Birni Magnúsi Árnasyni.
Um er að ræða byggingarreit fyrir viðbyggingu núverandi fjósbyggingar sem byggð var árið 1980. Áformað er að viðbygging verði 0,5 m breiðari en núverandi fjósbygging og nái 0,25 m lengra til norðurs og 0,25 m lengra til suðurs. Þá verður hún 0,5 m hærri en núverandi bygging til að ná fram betri loftun og koma fyrir um 9 m breiðu og 2,7 m löngu útskoti fyrir mótorhús á norðausturhorni viðbyggingar, þannig að þakhalli haldist óbreyttur. Hámarksbyggingarmagn verður 900 m² og hámarksbyggingarhæð verður 5,6 m frá gólfi í mæni. Meðfylgjandi afstöðuuppdráttur gerir grein fyrir staðsetningu og áætluðu útliti fyrirhugaðrar viðbyggingar.
Byggingarreitur, sem sótt er um, er á skilgreindu landbúnaðarsvæði nr. L-1 í aðalskipulag sveitarfélagsins Skagafjarðar 2020-2035 og er í samræmi við ákvæði aðalskipulags um uppbyggingu á landbúnaðarsvæðum. Reiturinn gengur ekki á ræktað land. Byggingaráform eru í samræmi við almenn ákvæði um landnotkun á landbúnaðarsvæðum sem talin eru upp í kafla 12.4 í greinargerð aðalskipulags þar sem um er að ræða byggingu í tengslum við aðra byggingu, þ.e.a.s. viðbyggingu, núverandi innviðir nýtast áfram, ekki er verið að fjölga byggingum og um er að ræða byggingu fyrir landbúnaðarstarfsemi sem er ekki líkleg til að hafa veruleg áhrif á mengun eða aðgengi. Jafnframt segir í sama kafla:
Sveitarstjórn getur ákveðið að veita megi leyfi til byggingar á stökum byggingum sem tengjast starfsemi bújarðar án deiliskipulags, ef umfang og/eða aðstæður gefi tilefni til. Á það við þegar byggingaráform varða ekki hagsmuni annarra en umsækjandans, samrýmast landnotkun og yfirbragði svæðisins og hafa ekki neikvæð umhverfisáhrif.

Hér er sótt um viðbyggingu fjósbyggingar sem er grundvöllur starfsemi bújarðarinnar. Byggingaráform stuðla að aukinni velferð dýra á búinu með auknu rými og samrýmast núverandi landnotkun. Lögð verður áhersla á að áformuð viðbygging samrýmist einnig yfirbragði og ásýnd svæðisins og hafi ekki neikvæð umhverfisáhrif. Áformin skerða ekki aðgengi að Reynistaðakirkju né hafa þau veruleg ásýndaráhrif af Sauðárkróksbraut (75). Byggingaráform kunna að varða hagsmuni eigenda nærliggjandi landeigna og er erindið því einnig áritað af eigendum Klausturbrekku, L192387, Reynistaðar 2, L226342, ásamt formanni, varaformanni, ritara og gjaldkera sóknarnefndar Reynistaðakirkju til staðfestingar um að þeim hafi verið kynnt byggingaráformin og geri ekki athugasemdir við fyrirhugaða uppbyggingu.
Meðfylgjandi er umsögn minjavarðar, dags. 26. apríl 2024.

Skipulagsnefnd samþykkir samhljóða umbeðinn byggingarreit.