Fara í efni

Umsagnarbeiðni; Frumvarp til laga um tekjustofna sveitarfélaga (gjaldfrjálsar skólamáltíðir)

Málsnúmer 2405575

Vakta málsnúmer

Byggðarráð Skagafjarðar - 99. fundur - 29.05.2024

Umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis sendir til umsagnar frumvarp til laga um tekjustofna sveitarfélaga (gjaldfrjálsar skólamáltíðir), 1114. mál. Umsagnarfrestur er til og með 31. maí 2024.
Byggðarráð samþykkir með 2 atkvæðum eftirfarandi umsögn:
Þann 17. maí sl. barst sveitarfélaginu Skagafirði beiðni um umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum um tekjustofna sveitarfélaga (gjaldfrjálsar skólamáltíðir), 1114. mál. Byggðarráð Skagafjarðar hefur tekið framangreint frumvarp til skoðunar og vill koma á framfæri eftirfarandi sjónarmiðum og breytingartillögum:
Greiða ætti sama hlutfall kostnaðar við aðgerðina í öllum sveitarfélögum, til samræmis við hlutverk Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga
Flest sveitarfélög niðurgreiða nú þegar með óformlegum hætti skólamáltíðir fyrir þær fjölskyldur sem standa höllustum fæti í samfélaginu.
Mikilvægt er að foreldrar hafi val um að þiggja niðurgreiðslur ríkisins annars vegar og sveitarfélaga hins vegar.

Greinargerð:

Ríkið á ekki að mismuna börnum eftir búsetu

Í frumvarpinu er lagt til að ríkið veiti fjármagn í Jöfnunarsjóð á árunum 2024-2027 til þess að úthluta til þeirra sveitarfélaga sem bjóða öllum nemendum upp á gjaldfrjálsar skólamáltíðir í grunnskólum. Framlagið skal skiptast hlutfallslega milli sveitarfélaga eftir heildarnemendafjölda í grunnskólum í hverju sveitarfélagi 1. janúar skólaárið á undan. Þýðir það einfaldlega að ríkið mun borga sama gjald fyrir hvern nemenda óháð kostnaði við að veita honum gjaldfrjálsar skólamáltíðir. Gera verður verulegar athugasemdir við þessa útfærslu. Einingarkostnaður við skólamáltíðir er ekki sá sami í hverjum skóla og getur verið misjafn, jafnvel á milli skólahverfa. Stærðarhagkvæmnin sem næst í stærstu sveitarfélögum landsins er ekki til staðar í minni sveitarfélögum og því er einingarkostnaður þar hærri en annars staðar. Þannig er ljóst að ríkið mun líklega ekki greiða 75% af kostnaði forráðamanna í flestum sveitarfélögum landsins, en jafnvel meira en 75% í þeim stærstu. Eðlilegast væri að ríkið tæki á sig sama hlutfall kostnaðar í hverju sveitarfélagi fyrir sig. Þá er það ekki hlutverk Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga að dreifa fjármunum miðað við höfðatölu. Í 1. mgr. 8. gr. laga um tekjustofna sveitarfélaga nr. 4/1995 er hlutverk Jöfnunarsjóðs skilgreint:
“Hlutverk Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga er að jafna mismunandi útgjaldaþörf og skatttekjur sveitarfélaga með framlögum úr sjóðnum á grundvelli ákvæða laga, reglugerða og vinnureglna sem settar eru um starfsemi sjóðsins.?
Meirihluti byggðarráðs Skagafjarðar leggur til að gerðar verði nauðsynlegar breytingar til þess að framlagið fari í gegnum Jöfnunarsjóð sveitarfélaga í samræmi við hlutverk sjóðsins að jafna mismunandi útgjaldaþörf.

Kostnaðarvitund, val foreldra og sjálfsákvörðunarréttur sveitarfélaga

Meirihluti byggðarráðs Skagafjarðar tekur undir tillögur samráðshóps sveitarfélaga um að til þess að stuðla að kostnaðarvitund vegna niðurgreiðslunnar gætu sveitarfélög farið þá leið að óska eftir því að forráðamenn virkjuðu annars vegar niðurgreiðslu sveitarfélags og hins vegar ríkis um leið og barn væri skráð fyrir skólamáltíð. Rík ástæða er til þess að heimila sveitarfélögum sérstaklega í lögum að viðhalda gjaldskrá en skylda þau til að bjóða öllum foreldrum að virkja niðurgreiðslur ríkisins annars vegar og sveitarfélagsins hins vegar. Aðgerðin er tímabundin og verði hún ekki framlengd er mikilvægt að foreldrar hafi ekki tapað kostnaðarvitund, en einnig munu foreldrar sem aldrei hafa þurft að greiða fyrir skólamáltíðir bætast við þann hóp sem hefur börn í grunnskóla á tímabilinu. Þá er ekki öruggt að öll sveitarfélög hafi fjárhagslega burði til að viðhalda aðgerðinni að tímabilinu loknu ef ríkið hættir sínum niðurgreiðslum. Þá munu sveitarfélögin ein sitja eftir með kostnaðinn en ljóst er að mjög erfitt verður að fara þá til baka í gjaldtöku.
Einnig er mikilvægt að foreldrar sjái hversu stóran hluta ríkið greiðir annars vegar og sveitarfélagið hins vegar, sér í lagi ef því verður haldið til streitu að niðurgreiða sömu fjárhæð fyrir hvert grunnskólabarn óháð einingarkostnaði.
Meirihluti byggðarráðs Skagafjarðar leggur til að frumvarpinu verði breytt á þann hátt að sveitarfélögum sé skylt að bjóða upp á niðurgreiðslur frá ríki annars vegar og sveitarfélagi hins vegar en foreldrum sé ekki skylt að þiggja niðurgreiðslurnar. Jafnframt að sveitarfélög skuli skila gögnum til Jöfnunarsjóðs um hversu margir nýttu sér niðurgreiðslu ríkisins og endurgreiða Jöfnunarsjóði þá fjárhæð sem úthlutað var vegna þess fjölda nemenda sem foreldrar afþökkuðu niðurgreiðslu ríkisins. Yrði sú útfærsla jafnframt betur í samræmi við sjálfsákvörðunarrétt sveitarfélaga, en verði frumvarpið óbreytt að lögum eru sveitarfélög sett upp við vegg þar sem aukin útgjöld þeirra eru forsenda þess að niðurgreiðslur komi frá ríkinu.
Meirihluti byggðarráðs Skagafjarðar telur að frumvarpið ætti ekki að ná fram að ganga í óbreyttri mynd og hvetur velferðarnefnd til þess að taka alvarlega til skoðunar þær athugasemdir og breytingartillögur sem lagðar hafa verið til í umsögn þessari. Meirihluti byggðarráðs er jafnframt tilbúinn að fylgja umsögn þessari eftir á fundi með nefndinni.