Skipulagsnefnd - 58
Málsnúmer 2409016F
Vakta málsnúmerSveitarstjórn Skagafjarðar - 31. fundur - 23.10.2024
Fundargerð 58. fundar skipulagsnefndar frá 18. september 2024 lögð fram til afgreiðslu á 31. fundi sveitarstjórnar eins og einstök erindi bera með sér. Einar E. Einarsson kynnti fundargerð. Enginn kvaddi sér hljóðs.
-
Skipulagsnefnd - 58 Fyrir liggur bréf frá Vegagerðinni dags. 17.09. 2024 þar sem afturkölluð er fyrri umsókn Vegagerðarinnar um framkvæmdaleyfi fyrir byggingu sjóvarnar á Hofsósi dags. 01.08. síðastliðinn. Skipulagsnefnd skilur framangreinda afturköllun svo að hún feli í sér ósk um að sveitarstjórn afturkalli ákvörðun Byggðarráðs dags. 15.08. 2024 um að veita umrætt framkvæmdaleyfi, en Byggðarráð sinnti þá verkefnum sveitarstjórnar í sumarfríi hennar. Skipulagsnefnd samþykkir samhljóða að leggja til við Sveitarstjórn að afturkalla þá ákvörðun Byggðarráðs. Ástæða afturköllunar er breytt tillaga að aðkomuleið að framkvæmdarsvæðinu; Í stað þess að efnisflutningar til framkvæmdarsvæðis verði norður og niður Suðurbraut í átt að hafnarsvæði er ráðgert að aka efni um Norðurbraut og Hafnarbraut í gegnum hafnarsvæðið, skarð gert í brimvörn, ræsi sett í Hofsá á meðan á framkvæmdum stendur og malarefni þar yfir. Í verklok verður ræsi fjarlægt og grjóti í brimvarnargarði endurraðað.
Fyrir liggur einnig bréf Vegagerðarinnar dags. 17.09. 2024 þar sem Vegagerðin sækir með endurbættri umsókn um framkvæmdarleyfi skv. 13. gr. l. 123/2010, sbr. reglugerð nr. 772/2012 fyrir sömu framkvæmd. Sú framkvæmd sem sótt er um leyfi fyrir felur í sér byggingu sjóvarnar á Hofsósi á grundvelli samgönguáætlunar, og var hún sett á áætlun á grundvelli erindis frá sveitarfélaginu Skagafirði. Um er að ræða um 150 m nýja sjóvörn neðan við Suðurbraut en Vegagerðin hefur unnið að útfærslu sjóvarnargarðsins í samráði við sveitarfélagið. Kort og teikningar, merkt B-10389-95, eru fylgiskjal 1 með umsókninni. Framangreind gögn lýsa framkvæmdinni og efnisflutningaleið að henni.
Fram kemur í áðurgreindri umsókn að fornleifaskráning hafi farið fram á svæðinu og að Vegagerðin hafi haft samráð við minjavörð Norðurlands vestra og að aðkoma að framkvæmdasvæði liggi ekki yfir þekktar fornminjar eða nærri þeim. Jafnframt kemur fram í beiðninni að aðkoma að sjóvörninni sé um verndarsvæði í byggð en framkvæmdin sjálf sé utan þess svæðis. Framkvæmdin sé því ekki tilkynningarskyld á grundvelli laga nr. 111/2021, um umhverfismat framkvæmda og áætlana og að áætlað sé að framkvæmdir hefjist haustið 2024 og verði lokið 15. júní 2025.
Skipulagsnefnd telur að fyrirhuguð framkvæmd sé í samræmi við aðalskipulag sveitarfélagsins og sé í samræmi við landnotkun, byggðamynstur og þéttleika byggðar í þegar byggðu hverfi, sbr. gr. 5.9.1. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013. Skipulagsnefnd samþykkir samhljóða að leggja til við sveitarstjórn að framkvæmdarleyfisumsókn Vegagerðarinnar dags. 17.09.2024 verði grenndarkynnt skv. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.
Skipulagsnefnd felur skipulagsfulltrúa að vinna að skilmálum væntanlegs framkvæmdaleyfis svo það verði tilbúið til útgáfu i kjölfar ákvörðunar um veitingu þess verði afgreiðslan jákvæð. Nefndin leggur áherslu á að framkvæmdin og fyrirhugaðir efnisflutningar að henni verði samræmd stöðu verndarsvæðis í byggð á svæðinu. Aðkoma hafnarstjórnar að verkefninu skal einnig tryggð. Bókun fundar Málið var tekið fyrir með afbrigðum á 30. fundi sveitarstjórnar Skagafjarðar þann 18. september 2024.