Fara í efni

Samráð; Opinber stuðningur við vísindi og nýsköpun

Málsnúmer 2410234

Vakta málsnúmer

Byggðarráð Skagafjarðar - 120. fundur - 06.11.2024

Háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið kynnir til samráðs mál nr. 219/2024, "Opinber stuðningur við vísindi og nýsköpun".

Umsagnarfrestur er til og með 12.11.2024.

Byggðarráð Skagafjarðar telur að við áformaðar breytingar á stuðningsumhverfi vísinda og nýsköpunar þurfi að horfa til stuðnings við aukna nýsköpun á landsbyggðinni. Þegar Nýsköpunarmiðstöð Íslands var lögð niður, en hún hafði m.a. starfsstöðvar á landsbyggðinni, þ.m.t. á Sauðárkróki, átti að stofna nýsköpunargarða með áherslu á stuðning við frumkvöðla og sprotafyrirtæki á sviði hátækni, auka átti framlög til nýsköpunar á landsbyggðinni og setja á fót sjóð fyrir rannsóknir í byggingariðnaði. Slíkir nýsköpunargarðar og aukin framlög til nýsköpunar á landsbyggðinni hafa því miður ekki raungerst. Nú eru áform um að leggja af Lóu, nýsköpunarstyrki fyrir landsbyggðina, en taka upp nýja sjóði í staðinn og lögð af áhersla á landsbyggðina eins og var hjá Lóu. Með því að slá af Lóu-sjóðinn er verið að rýra möguleika landsbyggðarinnar á styrkjum til nýsköpunar.
Í gildandi byggðaráætlun sem gildir til ársins 2036 stendur: "Nýsköpun, stafrænni þróun, frumkvöðlastarfi og skapandi greinum verði gert hátt undir höfði í öllum landshlutum með styrkingu stoðkerfisins og betra aðgengi að fjármagni til nýsköpunar."
Byggðarráð Skagafjarðar leggur áherslu á að mikilvægt sé að efna loforð um aukinn stuðning við nýsköpun á landsbyggðinni, hefja markvissa uppbyggingu nýsköpunargarða á landsbyggðinni og efla stuðningsumhverfi nýsköpunar þar í stað þess að draga enn frekar úr því.