Fara í efni

Þjónusta við íbúa á Hólum

Málsnúmer 2501116

Vakta málsnúmer

Byggðarráð Skagafjarðar - 129. fundur - 15.01.2025

Hólar í Hjaltadal er jörð í eigu ríkisins og lengi hefur verið á höndum Háskólans á Hólum að sjá um staðarhald. Sú staða er nú breytt því háskólaráð hefur tekið ákvörðun um að hætta þeirri umsjón, sem snýr ekki að lögboðnum rekstri skólans, og hefur upplýst fagráðuneyti sitt um það.

Enginn þjónustusamningur hefur verið gerður við sveitarfélagið varðandi þéttbýlið á Hólum, líkt og þekkist annars staðar. Sveitarfélagið á þó og rekur hluta innviða, líkt og vatnsveitu og hitaveitu, en á ekki lóðir, götur og fráveitu og fær ekki lóðarleigu, gatnagerðargjöld eða innkomu vegna fráveitu.

Sveitarfélagið hefur óskað eftir að gerður verði þjónustusamningur á milli eiganda jarðarinnar, íslenska ríkisins, og sveitarfélagsins um umsjón og þjónustu byggðarinnar, s.s. gatnagerð og hvers kyns þjónustu við íbúa svæðisins, eða að sveitarfélagið eignist hluta jarðarinnar Hóla í Hjaltadal og taki þar með við réttindum og skyldum sem henni tilheyra.

Byggðarráð samþykkir samhljóða að skora á forsætisráðuneytið að taka til afgreiðslu tillögur starfshóps um framtíðarskipulag Hóla í Hjaltadal með það að markmiði að niðurstaða fáist fyrir lok yfirstandandi vetrar. Fram að því er sveitarfélagið reiðubúið að sinna snjómokstri og hálkuvörnum í þéttbýlinu á Hólum í Hjaltadal.