Fara í efni

Umsagnarbeiðni; Þingsályktunartillaga um breytingu á þingsályktun nr 24 152 um áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða

Málsnúmer 2503085

Vakta málsnúmer

Byggðarráð Skagafjarðar - 138. fundur - 18.03.2025

Umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis sendir til umsagnar tillögu til þingsályktunar um breytingu á þingsályktun nr. 24/152 um áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða, 101. mál. Frestur til að senda inn umsögn er til og með 20. mars nk.

Jóhanna Ey Harðardóttir fulltrúi Byggðalista óskar bókað:
"Mikilvægt er að kannaðir verði allir kostir og gallar virkjunarkosta Héraðsvatna. Ég tel því ekki tímabært að tekin sé afstaða hvort virkjunarkostir eigi að fara í nýtingarflokk eða verndunarflokk. Við skorum á stjórnvöld að halda virkjunarkostum í Héraðsvötnum í biðflokk þangað til allir faghópar hafa skilað af sér áliti. Einnig skorum við á stjórnvöld að halda kynningarfund fyrir íbúa Skagafjarðar þar sem allir faghópar kynna sínar niðurstöður."

Fulltrúar meirihluta, Gísli Sigurðsson og Einar E Einarsson, óska bókað:
"Meirihluti byggðarráðs Skagafjarðar mótmælir þeirri tillögu sem sett er fram í framangreindri þingsályktunartillögu um breytingar á þingsályktun um áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða, þannig að eftirfarandi kostir á Norðurlandi færist úr biðflokki í verndarflokk:
Norðurland, Héraðsvötn, Skatastaðavirkjun C, R3107C,
Norðurland, Héraðsvötn, Skatastaðavirkjun D, R3107D,
Norðurland, Héraðsvötn, Villinganesvirkjun, R3108A,
Norðurland, Héraðsvötn, Blanda, Vestari-Jökulsá, R3143A.

Þann 15. júní 2022 samþykkti Alþingi þingsályktun um áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða (rammaáætlun, þingskjal nr. 1210, 332. mál á 152. löggjafarþingi). Þingsályktunin byggði á niðurstöðu meirihluta umhverfis- og samgöngunefndar þar sem mikilvægt var talið að ákvarðanir um flokkun virkjunarkosta í verndarflokk eða nýtingarflokk grundvölluðust á mati sem byggðist á bestu mögulegum upplýsingum um viðkomandi svæði og áhrif fyrirhugaðra framkvæmda á náttúru þess og lífríki. Það var talið nauðsynlegt að eyða þeirri óvissu sem uppi var um raunveruleg áhrif viðkomandi virkjunarkosta á þau viðföng sem til staðar eru í Héraðsvötnum áður en tekin yrði ákvörðun um hvort svæðið eigi að fara í verndarflokk eða nýtingarflokk yrði tekinn (þingskjal nr. 1210, 332. mál á 152. löggjafarþingi).

Á grunni samþykktrar þingsályktunar og nefndarálits meirihluta umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis fól verkefnisstjórn 5. áfanga rammaáætlunar faghópi 1 að endurmeta ofangreinda virkjunarkosti miðað við þau tilmæli sem Alþingi veitti verkefnisstjórn. Í áliti verkefnastjórnar kemur ekkert fram um að þeir hafi beðið aðra lögbundna faghópa að fjalla um málið sem vekur mikla furðu. Niðurstöður faghóps 1 í endurmatinu liggur nú fyrir og er hún sú að virkjunarkostir Héraðsvatna, Skatastaðavirkjun C, Skatastaðavirkjun D og Villingarnesvirkjun verði aftur færðar í verndarflokk. Lítið virðist þar t.d. gert með minnisblað verkfræðistofunnar Verkíss sem dagsett er 15. desember 2015. Sem fyrr segir er ekki neitt komið fram um vinnu eða álit faghópa nr 2, 3 eða 4 í endurmatinu. Það er líka rétt að benda á að niðurstöður faghópa nr. 3 og 4 hafa aldrei komið fram um virkjunarmöguleikana í Héraðsvötnum. Faghópi 3 er ætlað samkvæmt lögum að meta virkjunarkosti og landsvæði með tilliti til áhrifa þeirra á samfélagið og faghópi 4 er ætlað greina hagkvæmi virkjunarkosta og kostnaðarflokka. Meirihluti byggðarráðs telur því að málið hafi ekki verið rannsakað eins og lög nr. 48/2011 um verndar- og orkunýtingaráætlun kveða á um. Þá er einnig áréttað að ef Skatastaðavirkjun yrði færð í nýtingarflokk myndu fyrrgreind áhrif verða ítarlega skoðuð í umhverfismati.

Rétt er einnig að minna á stefnu stjórnvalda um að orkuskiptum á Íslandi skuli lokið fyrir árið 2040. Skatastaðavirkjun er besti virkjunarkostur á Íslandi til að stuðla að raunhæfni þess markmiðs. Einnig má benda á að á Norðurlandi öllu er verulegur skortur á orku ásamt því að vegalengdir frá virkjunum hamla meðal annars möguleikum á nýtingu jarðstrengja í uppbyggingu flutningskerfisins á Norðurlandi. Dreifing raforkuvinnslu hefur jákvæð áhrif á flutningskerfi raforku samhliða því að styrkja staðbundið orkuöryggi.

Jafnframt er rétt að minna á þá miklu jarðfræðilegu óvissu sem ríkir í dag um jarðvarmavirkjanir á Suðvesturhorni landsins en við virkjun Blöndu á sínum tíma voru meðal annars notuð þau rök að hún væri utan eldvirkra svæða. Sömu rök gilda einnig í dag um t.d. virkjun Skatastaðavirkjunar en ógnin af áhrifum eldsumbrota á virkjanir á Suðvesturhorninu hefur aldrei verið áþreifanlegri en í dag. Um hreint þjóðaröryggismál er að ræða. Það yrði því mikið gáleysi að færa jafn hagkvæman virkjunarkost utan eldvirkra svæða sem Skatastaðavirkjun er í verndarflokk.

Fulltrúar meirihluta byggðarráðs Skagafjarðar skora á umhverfis- og auðlindaráðherra og Alþingi að tryggja að allir virkjunarkostir Héraðsvatna verði skoðaðir ítarlega með hugsanlega nýtingu þeirra í huga. Fyrir því eru margvíslög rök svo sem kemur fram hér að framan en þeirra veigamest eru raforkuöryggi þjóðarinnar sem stendur nú frammi fyrir verulegri ógn vegna áhrifa jarðhræringa á virkjanir og virkjanakosti á Reykjanesskaganum. Jafnframt er áréttað mikilvægi þess að ekki séu teknar óafturkræfar ákvarðanir um röðun virkjunarkosta í vernd nema að vel athuguðu máli og með fullum skilningi á mögulegum áhrifum slíkra ákvarðana á orkuskipti og orkuöryggi. Öll rök hníga til þess að virkjanir í Héraðsvötnum verði því áfram í biðflokki, meti Alþingi það sem svo að Skatastaðavirkjun verði ekki án frekari rannsókna færð í nýtingarflokk."

Álfhildur Leifsdóttir VG og óháðum óskar bókað:
"VG og óháð fagna því að með þessari tillögu verði Héraðsvötnin sett aftur í verndarflokk samkvæmt rammaáætlun og að virkjunarkostir eins og Skatastaðavirkjun C og D, Villinganesvirkjun og virkjun á Vestari-Jökulsá í Héraðsvötnum verði þar með felldir úr áformum um virkjun.
Við teljum að þessi breyting sé mikið framfaraskref í átt að náttúruvernd þar sem Héraðsvötnin og Vestari-Jökulsá eru ómetanleg náttúruauðlind og mikilvæg fyrir lífríki, ásýnd landsins og samfélagið á svæðinu. Með því að setja þessar virkjanahugmyndir aftur í verndarflokk er verið að tryggja að svæðið haldi áfram að njóta verndar gegn óafturkræfum inngripum.
Þetta skref er einnig í samræmi við áherslur á líffræðilega fjölbreytni og vernd vatnasvæða. Að auki sýnir þessi ákvörðun fram á að stjórnvöld séu tilbúin að byggja ákvarðanir á traustum vísindalegum gögnum og náttúruverndarsjónarmiðum, en faghópur sem metið hefur áhrif virkjana í Héraðsvötnum staðfesti að áhrif þeirra hefðu ekki verið ofmetin heldur væru alvarleg.
VG og óháð leggja áherslu á að vernd náttúruauðlinda sé sett í forgang og að stefna í orkumálum taki mið af heildarhagsmunum samfélagsins, náttúrunnar og komandi kynslóða. Við teljum að þessi ákvörðun styrki umgjörð rammans og veiti skýra línu um mikilvægi náttúruverndar.
Við hvetjum Alþingi til að samþykkja þessa breytingu og tryggja að Héraðsvötnin fái nauðsynlega vernd til framtíðar."