Fara í efni

Samráð; Drög að reglugerð um breytingu á reglugerð um strandveiðar

Málsnúmer 2503159

Vakta málsnúmer

Byggðarráð Skagafjarðar - 138. fundur - 18.03.2025

Matvælaráðuneytið kynnir til samráðs mál nr. 58/2025, "Drög að reglugerð um breytingu á reglugerð um strandveiðar". Umsagnarfrestur er til og með 20.03. 2025.

Byggðarráð Skagafjarðar telur að í grunninn tryggi núverandi fiskveiðistjórnunarkerfi sjálfbærni veiða, hagkvæmni í greininni og tekjur til þjóðarbúsins í formi veiðigjalda. Ekkert kerfi er hins vegar fullkomið og eðlilegt að regluverk séu endurskoðuð með reglubundnum hætti.

Ekki er unnt að sjá af texta reglugerðarinnar í Samráðsgátt hvernig ný ríkisstjórn ætlar að tryggja 48 daga strandveiðar þar sem ekki er gert ráð fyrir auknum kvóta eða tilfærslu innan fiskveiðistjórnunarkerfisins til að mæta því markmiði.

Byggðarráð Skagafjarðar tekur undir með umsögn bæjarráðs Ísafjarðar þar sem kemur fram að greiningar hafi sýnt að launahlutfall sé verulega lægra í strandveiðum en í öðrum veiðum, þrátt fyrir að telja mætti að mannaflsfrekar veiðar krefðust þess. Sveitarfélög hafa sínar tekjur af útsvari, og lægri laun hafa því áhrif á tekjur sveitarfélaga. Þetta verður enn skýrara ef sjómenn búa ekki árið um kring í sveitarfélaginu og hafa ekki lögheimili þar.

Byggðarráð Skagafjarðar er fylgjandi breytingum á reglum um strandveiðar í þá átt að meira af afleiddum áhrifum verði eftir í sjávarbyggðunum en er hinsvegar ekki fylgjandi auknu vægi strandveiða á kostnað fyrirtækja sem stunda veiðar og vinnslu og skapa störf og tekjur í heimabyggð, árið um kring.