Fara í efni

Sveitarstjórn Sveitarfélagins Skagafjarðar

192. fundur 19. október 2006
Sveitarstjórn Skagafjarðar
Fundur 192 - 19. október 2006
 
Ár 2006, fimmtudaginn 19. október kl. 16:00, kom Sveitarstjórn Skagafjarðar saman til fundar í Safnahúsinu við Faxatorg á Sauðárkróki.
 
Mætt voru:
Gunnar Bragi Sveinsson, Þórdís Friðbjörnsdóttir, Einar E. Einarsson, Sigurður Árnason, Bjarni Egilsson, Sigríður Björnsdóttir, Gísli Sigurðsson, Gréta Sjöfn Guðmundsdóttir og Bjarni Jónsson.
Auk þess sat fundinn Guðmundur Guðlaugsson sveitarstjóri.
Fundarritari var Engilráð Margrét Sigurðardóttir.
 
Forseti setti fund, bauð fulltrúa velkomna og sérstaklega Sigríði Björnsdóttur, sem kemur nú inn sem aðalfulltrúi D-lista í leyfi Katrínar Maríu Andrésdóttur og Gísla Sigurðsson, sem nú er fyrsti varamaður. – Lýsti síðan dagskrá.
 
Erindi til afgreiðslu
 
1.
362. fundur byggðaráðs, 10. október 2006.
 
 
Mál nr. SV060522
 
Fundargerðin er í 6 liðum. Gunnar Bragi Sveinsson kynnti fundargerð.
Enginn kvaddi sér hljóðs um fundargerðina.
 
Verksamningur um Miðgarð, menningarhús, er borinn undir atkvæði, með fyrirvara um að öllum ákvæðum samningsins um tryggingar verði fullnægt.
Samþ. með 8 atkvæðum. Bjarni Jónsson greiðir atkv. á móti.
 
Bjarni Egilsson gerir grein fyrir atkvæði fulltrúa Sjálfstæðisflokksins með bókun:
“Við fulltrúar Sjálfstæðisflokks samþykkjum samninginn sem byggist á fyrirliggjandi tilboði í verkið samkvæmt útboði sl. vor, svo verkið geti hafist sem fyrst, enda kemur hann ekki í veg fyrir að þeir vekþættir sem útaf standa bætist við verkið síðar. En jafnframt gerum við fyrirvara um allar hugmyndir um breytingar á hönnun verksins og þar með breytingar á forsendum útboðsins sem þá kunna að vekja spurningar um lögmæti þessa samnings.
Einnig leggjum við áherslu á að í engu verði slegið af þeim kröfum sem gerðar eru varðandi aðgengi fyrir fatlaða samkvæmt útboðinu og fyrirliggjandi teikningum þar sem þeim er tryggður aðgangur að öllum hæðum hússins og teljum frestun á framkvæmdum við lyftuna alls ekki ásættanlega.”
Bjarni Egilsson, Sigríður Björnsdóttir, Gísli Sigurðsson.
 
Bjarni Jónsson gerir grein fyrir atkvæði sínu
“VG mótmælir harðlega þeim fyrirætlunum sveitarfélagsins Skagafjarðar og Akrahrepps að spara í aðgengi fyrir alla við uppbyggingu menningarhússins Miðgarðs.
Á fundi byggðaráðs lagði áheyrnarfulltrúi VG fram svohljóðandi tillögu: “Nú þegar verði gert ráð fyrir lyftu í fyrirhuguðum framkvæmdum við Miðgarð og þannig tryggt aðgengi fyrir alla um húsið, kjallara, jarðhæð og efri hæð.” Tillagan var borin undir atkvæði og felld með tveimur atkvæðum meirihlutans. Þessi afgreiðsla var skýr og lýsti hug meirihluta sveitarstjórnar Skagafjarðar.
Skiptar skoðanir geta verið um hve veglega eigi að standa að endurbótum á Miðgarði í þeirri viðleitni að gera það að Menningarhúsi og metnaður fólks mismikill í því sambandi. Það sætir hins vegar furðu að þrátt fyrir niðurskurð á framkvæmdum við Menningarhúsið Miðgarð skuli ekki áfram vera gert ráð fyrir lyftu á milli hæða í húsinu. Það getur vart verið ásættanlegt þegar ráðist er í framkvæmdir við Menningarhús fyrir Skagfirðinga að gera ekki ráð fyrir jafn sjálfsögðum hlut og lyftu þannig að hreyfihamlaðir og aðrir sem þurfa á góðu aðgengi að halda geti með góðu móti komist um húsið.  Menntamálaráðherra getur ekki staðið að slíkum gjörningi fyrir hönd ríkisins, né heldur þeir aðilar í Skagafirði sem ábyrgð bera á  málefnum fatlaðra á svæðinu. Þá leikur einnig vafi á lögmæti þessa samnings.”
 
Gunnar Bragi Sveinsson tók til máls og lagði fram bókun frá fulltrúum meirihluta sveitarstjórnar:
“Í þeirri hönnun sem fyrir liggur og verið er að klára breytingar á vegna Miðgarðs, menningarmiðstöðvar, er gert ráð fyrir lyftu milli hæða þó ekki eigi að ráðast í reisingu hennar í fyrsta áfanga verksins, enda ekki gert ráð fyrir að menningarstarfsemi fyrir almenning verði viðhöfð á öllum hæðum hússins að loknum þeim áfanga, heldur einungis á 1. hæð. Það sem skiptir meginmáli er sú staðreynd að í þessum fyrsta áfanga verksins verða settar upp tvær hjólastólalyftur við lága stiga, önnur við aðalinngang hússins og hin á milli sala á 1. hæð, til að tryggja gott aðgengi fatlaðra að öllum þeim menningarviðburðum sem boðið verður upp á í húsinu.  Aðgengi fatlaðra er því stórbætt frá því sem er í dag með þeim framkvæmdum sem farið er af stað með nú og tryggt að fullu miðað við þá starfsemi sem þar er fyrirhuguð. Það er síðan von okkar að fljótt megi ráðast í að setja einnig lyftu í húsið milli hæða til að auka notagildi hússins með bættu aðgengi að kjallara og efri hæð.  Ráð er fyrir þessu gert í endanlegri hönnun.”
 
Þá Bjarni Jónsson og lagði fram bókun:
 “Undirritaður óskar bókað að ekki hefur komið annað fram af hálfu meirihluta sveitarstjórnar en að ekki sé ráð gert fyrir því í náinni framtíð að tryggja aðgengi um allt húsið. Ef breytingar eru orðnar hér á skorar undirritaður á meirihlutann að segja hvenær hann ætlar að ráðast í lyftuframkvæmdir.  Með því að tala um eitthvað í framtíðinni, ef peningar verða til, er verið að blekkja fólk og sú framkoma til skammar gagnvart þeim sem vilja ekki bara vera áhorfendur heldur einnig þátttakendur”
 
Gunnar Bragi Sveinsson kvaddi sér hljóðs.
 
Því næst Bjarni Jónsson og lagði fram bókun:
“Undirritaður óskar bókað að fulltrúar meirihlutans komu sér undan því að svara því hvenær ráðist verði í framkvæmdir við Miðgarð þannig að aðgengi fyrir alla um húsið, kjallara, jarðhæð og efri hæð verði tryggt. Áfram er talað um einhverntíma þegar peningar verða til. Það er verið að blekkja fólk.”
 
Síðan töluðu Guðmundur Guðlaugsson, Bjarni Egilsson, Gunnar Bragi Sveinsson og óskaði bókað að hann hafi spurt Bjarna Jónsson hvers vegna hann hafi ekki beitt sér fyrir bættu aðgengi meðan hann var í meirihluta s.s. við Árskóla.
Þá talaði Bjarni Jónsson.
Því næst Gunnar Bragi Sveinsson og óskaði bókað:
“Bjarni Jónsson virðist ekki getað svarað því hvers vegna hann hafi ekki staðið fyrir bættu aðgengi fatlaðra á síðasta kjörtímabili s.s. lyftu í Árskóla ofl.”
 
Þá tók Sigríður Björnsdóttir til máls, fleiri ekki.
 
Fundargerð borin undir atkvæði og samþykkt samhljóða.
 
 
 
2.
363. fundur byggðaráðs, 17. október 2006.
 
 
Mál nr. SV060530
 
Fundargerðin er í 13 liðum. Gunnar Bragi Sveinsson kynnti þessa fundargerð einnig.
 
Til máls tók Bjarni Jónsson og lagði fram svofellda bókun varðandi lið nr. 5:
“Undirritaður vill minna á samþykkt byggðaráðs frá því 7. mars síðastliðinn, þar sem ráðið fól umhverfisnefnd og tæknideildinni að kanna leiðir til að auðvelda frekari rotþróarvæðingu í dreifbýli. Slík vinna virðist ekki enn hafa farið fram en nauðsynlegt er að hún fari fram hið fyrsta.“
 
Bjarni Jónsson lagði einnig fram bókun varðandi lið 10:
“Athygli er vakin á því að ekki kemur fram í bókun byggðarráðs af hvaða lið eigi að taka fjármuni til að styrkja knattspyrnudeild og körfuknattleiksdeild Tindastóls vegna húsaleigu í íþróttahúsi fyrir fjölskylduskemmtun og dansleik. Koma þarf fram af hvaða liðum fjármunir eru teknir þegar stofnað er til útgjalda.”
 
Gunnar Bragi Sveinsson lagði fram bókun v. 10. lið:
“Bjarni Jónsson sat fund byggðarráðs og gerði þar enga athugasemd við afgreiðsluna.”
 
Bjarni Jónsson lagði fram bókun:
“Ljóst hefur verið um nokkurt skeið að ýmsar forsendur fjárhagsáætlunar hafa verið að breytast svo sem vegna starfsmats, launahækkana, hækkana lífeyrisskuldbindinga, gengisþróunar og nýrra verkefna sem ákveðið hefur verið að ráðast í. Á þeim mánuðum sem núverandi meirihluti hefur verið við völd hefur hann setið aðgerðalaus og ekkert gert til að bregðast við þessum vanda.”
 
Þá kvöddu sér hljóðs Guðmundur Guðlaugsson, Bjarni Jónsson, Gunnar Bragi Sveinsson, sem leggur fram bókun:
“Það tekur lengri tíma en 5 mánuði að leiðrétta fjögurra ára stjórnleysi.”
 
Síðan tóku til máls Sigurður Árnason, Bjarni Jónsson, Sigurður Árnason, Guðmundur Guðlaugsson, Bjarni Jónsson, Gunnar Bragi Sveinsson, Guðmundur Guðlaugsson, Bjarni Jónsson, Guðmundur Guðlaugsson.
 
Dagskrárliður nr. 2: Samningur um sjúkraflutninga borinn undir atkvæði og samþ. samhljóða.
Dagskrárliður nr. 9: Fjárhagsáætlun 2006 – endurskoðun áætlunar borinn undir atkvæði og samþ. samhlj.
Fundargerðin að öðru leyti borin undir atkvæði og samþykkt samhljóða.
 
 
3.
061010 Atvinnu- og ferðamálanefnd
 
 
Mál nr. SV060523
 
Dagskrárliðir eru 5. Gunnar Bragi Sveinsson kynnti fundargerð.
Enginn kvaddi sér hljóðs.
Fundargerð borin undir atkvæði og samþykkt samhljóða.
 
 
4.
061010 Félags- og tómstundanefnd
 
 
Mál nr. SV060524
 
Dagskrárliðir eru 6. Þórdís Friðbjörnsdóttir kynnti fundargerð.
Bjarni Jónsson kvaddi sér hljóðs, þá Þórdís Friðbjörnsdóttir, Bjarni Egilsson, Þórdís Friðbjörnsdóttir, fleiri ekki.
Fundargerðin borin undir atkvæði og samþykkt samhljóða.
 
 
5.
061011 Fræðslunefnd 8
 
 
Mál nr. SV060525
 
Dagskrárliðir eru 3. Sigurður Árnason kynnti fundargerð.
Til máls tóku Bjarni Jónsson, Sigurður Árnason, Bjarni Egilsson, fleiri ekki.
Fundargerð borin undir atkvæði og samþykkt samhljóða.
 
 
 
6.
061005 Landbúnaðarnefnd
 
 
Mál nr. SV060527
 
Dagskrárliðir eru 8. Einar E. Einarsson kynnti fundargerð.
Til máls tóku Bjarni Jónsson, Einar E. Einarsson, Bjarni Jónsson, Bjarni Egilsson, Einar E. Einarsson og Sigríður Björnsdóttir. Fleiri ekki.
Fundargerð borin undir atkvæði og samþykkt samhljóða.
 
 
7.
061005 - 109.f Skipulags- og byggingarnefnd
 
 
Mál nr. SV060531
 
Dagskrárliðir eru 8. Einar  E. Einarsson kynnti fundargerð.
Til máls tóku Bjarni Jónsson, Einar E. Einarsson, Bjarni Egilsson, Einar E. Einarsson, Bjarni Egilsson, fleiri ekki.
Fundargerð borin undir atkvæði og samþykkt samhljóða.
 
 
8.
061017 - 110.f Skipulags- og byggingarnefnd
 
 
Mál nr. SV060532
 
Dagskrárliðir eru 6. Einar E. Einarsson kynnti fundargerð.
Enginn kvaddi sér hljóðs.
Fundargerð borin undir atkvæði og samþykkt með 8 atkvæðum.
 
 
9.
Tillaga til sveitarstjórnar um úttekt á aðgengismálum innan sveitarfélagsins
 
 
Mál nr. SV060533
 
Bjarni Jónsson tók til máls og lagði fram og kynnti svofellda tillögu:
 
“Skipaður verði starfshópur fulltrúa þeirra framboða sem aðild eiga að sveitarstjórn og fulltrúum hagsmunasamtaka, sem geri úttekt á aðgengismálum hreyfihamlaðra og annarra sem þurfa á góðu aðgengi að halda innan sveitarfélagsins. Miðað verði við að starfshópurinn skili af sér skýrslu og geri tillögur um úrbætur þar sem þeirra kann að verða þörf, fyrir 10. desember næstkomandi.”
Bjarni Jónsson.
 
Gréta Sjöfn Guðmundsdóttir, forseti sveitarstjórnar, kvaddi sér hljóðs með leyfi varaforseta:
 
Gréta Sjöfn óskar eftir því að eftirfarandi verði fært til bókar:
 
“Þakka háttvirtum sveitarstjórnarfulltrúa Vg Bjarna Jónssyni fyrir hans ágætu tillögu sem lýsir vel áhuga og snerpu hvað varðar aðgengismál almennt innan sveitarfélagsins.  En vil jafnframt benda á það að á ári fatlaðra 2003 í meirihlutatíð Sjálfstæðisflokks og Vinstri grænna lagði undirrituð fram eftirfarandi tillögu:
 
Tillaga lögð fram og afgreidd á fundi sveitarstjórnar 27. nóvember 2003:
 
Gréta Sjöfn Guðmundsdóttir kvaddi sér hljóðs og lagði fram svohljóðandi tillögu:
 
“Sveitarstjórn samþykkir að gerð verði úttekt á ferlimálum fatlaðra í Sveitarfélaginu Skagafirði. Félags- og tómstundanefnd, í samvinnu við umhverfis- og tæknisvið, vinni greinargerð um stöðu ferlimála í sveitarfélaginu. Með greinargerð fylgi yfirlit um aðgengi og tillögur um viðunandi lausnir og úrbætur vegna aðgengis fatlaðra að stofnunum og samgöngum innan sveitarfélagsins. Niðurstöðum skal skilað eigi síðar en 1. maí 2004.”
Gréta Sjöfn Guðmundsdóttir, Skagafjarðarlista

 
Afgreiðslan var síðan með eftirfarandi hætti orðrétt úr fundargerð:


“Ársæll Guðmundsson kvaddi sér hljóðs, svo og Gunnar Bragi Sveinsson, Gísli Gunnarsson og leggur til að þessari tillögu verði vísað til Félags- og tómstundanefndar. Ársæll Guðmundsson tók því næst til máls, þá Gréta Sjöfn Guðmundsdóttir, fleiri ekki.
Samþykkt samhljóða að vísa tillögu Grétu Sjafnar til Félags- og tómstundanefndar”

 
Afgreiðsla Félags- og tómstundanefndar 2. desember 2003 var eftirfarandi:
 
“Félags- og tómstundanefnd fagnar framkominni tillögu og felur sviðsstjóra í samvinnu við sviðsstjóra umhverfis- og tæknisviðs að kanna hvernig best sé að standa að gerð slíkrar úttektar. Jafnframt skal haft samráð við hagsmunasamtök fatlaðra í sveitarfélaginu.”
Undirrituð leggur því til að tillögu Bjarna Jónssonar  verði vísað frá þar sem óþarft er að mynda annan starfshóp um málið.  Löngu er orðið tímabært að verkefni  því  verði lokið sem hafið var á síðasta kjörtímabili. Félags- og tómstundanefnd verði því falið að kanna hvar málið er statt og fylgja eftir eigin afgreiðslu frá 2.desember 2003.  Nefndin skili til sveitarstjórnar skýrslu um málið og tillögum til úrbóta fyrir 3. desember n.k., sem er alþjóðlegur dagur fatlaðra.”
Gréta Sjöfn Guðmundsdóttir, Samfylkingunni
 
Frávísunartillaga Grétu Sjafnar Guðmundsdóttur borin undir atkvæði og samþ. með fimm atkv., einn á móti.
 
Bjarni Jónsson kvaddi sér hljóðs gerði grein fyrir mótatkvæði sínu og lagði fram bókun:
“Í lögum um málefni fatlaðra nr. 59/1992 segir í 34. gr. “Sveitarstjórnir skulu sinna ferlimálum fatlaðra með skipulögðum hætti, m.a. með gerð áætlana um endurbætur á aðgengi opinberra bygginga og þjónustustofnana í samræmi við ákvæði byggingarlaga og byggingarreglugerðar, sbr. og skipulagslög og skipulagsreglugerð. Svæðisskrifstofur skulu koma á framfæri ábendingum til byggingarnefnda um úrbætur á sviði ferlimála. Heimilt er sveitarstjórn að skipa samstarfsnefnd um ferlimál fatlaðra, með þátttöku samtaka fatlaðra, sem m.a. geri tillögur um forgangsröðun verkefna á sviði ferlimála.” Við framkvæmd á markmiðum laganna skal tryggja heildarsamtökum fatlaðra og aðildarfélögum þeirra áhrif á stefnumörkun og ákvarðanir er varða málefni fatlaðra. Undirritaður harmar að ekki skuli vera vilji fyrir því að fulltrúar allra þeirra framboða sem aðild eiga að sveitarstjórn vinni saman að því að fara yfir aðgengismál í sveitarfélaginu.”
Bjarni Jónsson
 
 
10.
Erindi frá SSNV - Fundur með þingmönnum
 
 
Mál nr. SV060535
 
Í tilefni af kjördæmaviku þingmanna í Nv kjördæmi gefst sveitarstjórnum á svæðinu kostur á að hitta þingmenn að máli á fundi í Hótel Varmahlíð mánud. 23. okt. 2006 kl. 13:00 – 15:00. Æskilegt að hver sveitarstjórn sendi 1-2 fulltrúa (eftir stærð sv.fél.)
Fram kom tillaga um að fulltrúar sveitarstjórnar á fundinn verði Gunnar Bragi Sveinsson og Bjarni Egilsson.
Sigurður Árnason tók til máls, þá Bjarni Jónsson, fleiri ekki.
Tillaga um áður greinda fulltrúa borin upp og samþykkt.
Bjarni Jónsson óskar bókað að hann sitji hjá og gerði grein fyrir atkvæði sínu:
“Undirritaður situr hjá við þessa afgreiðslu og telur eðlilegt að fulltrúar allra framboða, sem aðild eiga að sveitarstjórn, hafi tækifæri til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri við þingmenn kjördæmisins.”
 
Lagt fram
 
11.
061004 Skagafjarðarveitur
 
 
Mál nr. SV060536
 
Dagskrárliðir eru 4.
Til máls tóku Bjarni Jónsson, Gunnar Bragi Sveinsson, Sigurður Árnason, fleiri ekki.
 
Fleira ekki fyrir tekið, fundargerð upplesin og samþykkt.
 
Fundi slitið kl. 18,45. Engilráð Margrét Sigurðardóttir, ritari fundargerðar.