Umhverfis- og tækninefnd
Fundur 107 - 03.09.2001
Ár 2001, mánudaginn 3 september kl.900 kom Umhverfis- og tækninefnd saman til fundar á Skrifstofu Skagafjarðar.
Mætt voru: Stefán Guðmundsson, Sigrún Alda Sighvats, Árni Egilsson, Örn Þórarinsson, Jóhann Svavarsson, Óskar S. Óskarsson, Jón Gauti Jónsson, Sigurður H. Ingvarsson og Jón Örn Berndsen.
Dagskrá:
1. Skógargata 18 – Umsókn um leyfi fyrir gámi á lóðinni - Benth Behrend.
2. Grundarstígur 18 – Útlitsbreyting – Björn Bjarnason.
3. Víðihlíð 5, Sauðárkróki - Bréf Þorsteins Ólasonar og Guðrúnar Sigtryggsdóttur
4. Barmahlíð 5, Sauðárkróki - Bréf Jóns Þórs Bjarnasonar og Svanhildar
Guðmundsd.
5. Ljótsstaðir – Breyting á áðursamþykktum teikningum – Trausti B.
Fjólmundsson.
6. Meyjarland, Reykjaströnd - Erindi Skotfélagsins Ósmanns.
7. Sæmundargata 3 – Bréf Unnar Gunnarsdóttur.
8. Freyjugata 50 – Umsókn um skjólvegg á lóðarmörkum – Jón Sigfús
Sigurjónsson
9. Brunavarnir Skagafjarðar – Drög að gjaldskrá - Óskar S. Óskarsson.
10. Skoðunarferð v. Skipulagsvinnu 10. sept. nk. 8. liður 103. fundar.
11. Jarðgöng á norðanverðum Tröllaskaga. Mat á umhverfisáhrifum - umsögn
12. Önnur mál
Afgreiðslur:
1. Skógargata 18, Sauðárkróki Benth Behrend, Skógargötu 18, óskar heimildar til að staðsetja gám á lóðinni. Meðfylgjandi er afstöðumynd, gerð af Stoð ehf., dagsett 13.07.2001, er sýnir fyrirhugaða staðsetningu gámsins. Í samræmi við 12. gr. byggingarreglugerðar var erindið kynnt nágrönnum með bréfi dagsettu 20. júlí sl. Engin svör hafa borist. Nefndin ákvað að fresta afgreiðslu málsins.
2. Björn Bjarnason, Grundarstíg 18, óskar heimildar til að breyta þaki á garðskála við húsið og setja skyggni yfir þvottahússinngang á íbúðarhúsinu. Þakbreytingin á garðskálanum felst í því að fjarlægja plexigler-klæðningu af þakinu og setja í staðinn einangrað þak. Þakbreytingin á garðskálanum samþykkt en teikningar óskað af skyggninu.
3. Víðihlíð 5, Sauðárkróki - Þorsteinn Ólason og Guðrún Sigtryggsdóttir, Víðihlíð 5, Sauðárkróki, óska eftir viðræðum um frágang lóðarinnar vegna innkeyrslu inn á lóðina að sunnanverðu. Samþykkt að fela tæknideild að skoða málið betur.
4. Jón Þór Bjarnason og Svanhildur Guðmundsdóttir, Barmahlíð 5, Sauðárkróki, óska eftir að núverandi aðkomu að húsinu að sunnan verði lokað og aðkoma að húsinu verði gerð norðanfrá, frá Sauðárhlíð. Erindinu vísað aftur til tæknideildar.
5. Trausti B. Fjólmundsson, Ljótsstöðum, óskar heimildar til að breyta áður samþykktum teikningum af verkstæðishúsi á jörðinni. Breytingin fellst í því að setja íbúð í suðurenda hússins. Íbúðin verður 136,1 m2, samkv. framlögðum uppdráttum gerðum af Stoð ehf., og dagsettir eru í september 2001. Fyrir liggur samþykki hlutaðeigandi umsagnaraðila og landeiganda. Erindið samþykkt.
6. Meyjarland á Reykjaströnd, erindi Skotfélagsins Ósmanns. Jón Pálmason, Háuhlíð 12, Sauðárkróki, óskar, fh Skotfélagsins Ósmanns og landeiganda Meyjarlands, eftir heimild til að skipta landsspildu út úr jörðinni samkvæmt meðfylgjandi gögnum, gerðum af Stoð ehf og dagsett eru 28. ágúst 2001. Umrætt svæði er um 5,7 ha að stærð og er núverandi æfingarsvæði Skotfélagsins Ósmanns. Erindið hefur verið sent jarðanefnd til umsagnar. Umhverfis- og tækninefnd samþykkir erindið fyrir sitt leyti, með fyrirvara um samþykki jarðanefndar. Sigrún Alda óskar bókað að hún taki ekki þátt í afgreiðslu þessa máls.
7. Sæmundargata 3 – Bréf Unnar Gunnarsdóttur, dagsett 22. ágúst 2001, lagt fram. Þar er gerð athugasemd vegna breyttrar notkunar á neðri hæð hússins. Umhverfis- og tækninefnd vill benda á að í þessu hverfi er blönduð starfsemi. Íbúð var heimiluð í húsinu 1992 og þá jafnframt léttur iðnaður á jarðhæð hússins. Erindinu vísað til umhverfis- og tæknideildar.
8. Jón Sigfús Sigurjónsson, Freyjugaötu 50, sækir um leyfi til að reisa 1,80 m háan skjólvegg á lóðarmörkum lóðanna Freyjugata 50 og Skagfirðingabraut 29. Erindinu vísað til kynningar nágranna.
9. Brunavarnir Skagafjarðar – Drög að gjaldskrá, drögin dagsett 27. ágúst 2001, gerð af Óskari S. Óskarssyni slökkviliðsstjóra. Óskar S. Óskarsson fór yfir drögin og skýrði þau. Umhverfis- og tækninefnd gerir ekki athugasemdir við framlögð drög og vísar þeim til byggðarráðs til umsagnar.
10. Skoðunarferð v. Skipulagsvinnu. Ákveðið að fara skoðunarferð á Hofsafrétt undir leiðsögn Orkustofnunar. Ferðin er ákveðin 10. september nk. Sveitarstjórnarfulltrúum öllum verði gefinn kostur á að fara, auk þess fulltrúum frá veitustjórn og embættismannakerfi. Umhverfis- og tækninefnd undirbýr ferðina
11. Jarðgöng á norðanverðum Tröllaskaga – erindi frá Byggðarráði 8. ágúst sl. Með bréfi, dagsettu 31. júlí 2001, til sveitarstjóra óskar Skipulagsstofnun eftir umsögn Sveitarfélagsins um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar. Er þetta gert í samræmi við10. gr. laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum. Byggðarráð tók erindið fyrir á fundi sínum 8. ágúst sl. og vísaði þá erindinu til Umhverfis- og tækninefndar.
Umsögn Umhverfis- tæknideildar:
Jarðgöng og vegagerð á norðanverðum Tröllaskaga
– Mat á umhverfisáhrifum.
Skv. 10. gr. laga nr. 106/2000 hefur Skipulagsstofnun óskað eftir umsögn Sveitarfélagsins Skagafjarðar. Umsögnin á , skv. 22. gr. reglugerðar nr. 671/2000 um mat á umhverfisáhrifum, að greina frá því hvort á fullnægjandi hátt sé fjallað um eftirtalin atriði, séu þau á starfssviði sveitarfélagsins:
a. fyrirhugaða framkvæmd,
b. umhverfi,
c. umhverfisáhrif,
d. mótvægisaðgerðir,
e. vöktun,
f. þörf á að kanna tiltekin atriði frekar.
a. Fyrirhuguð framkvæmd
Einn megintilgangur framkvæmdarinnar er, að tengja Siglufjörð við Eyjafjarðarsvæðið og styrkja á þann hátt byggð á svæðinu. Að þessu leyti er framkvæmdinni lýst í matsskýrslu og er hún auk fylgiskjala að flestu leyti vel unnin og tekur á ýmsum þáttum sem tengjast umhverfismatinu.
b. Umhverfi
Náttúrulegu umhverfi á framkvæmdasvæðinu er vel lýst í matsskýrslunni en samfélagslegu umhverfi og áhrifum mun síður. Þrátt fyrir að tilgangur framkvæmdarinnar sé, samkvæmt markaðri stefnu Alþingis, að tengja Siglufjörð við Eyjafjarðarsvæðið, hefði verið nauðsynlegt að kanna betur áhrif framkvæmdanna á samfélagslega og byggðarlega þróun í Skagafirði og á Norðurlandi vestra öllu.
c. Umhverfisáhrif
Fram kemur að það svæði, sem raskast við framkvæmdirnar, einkennist af mikilli fjölbreytni gróðurs og sjaldgæfum tegundum.
Áhrif framkvæmdarinnar á atvinnuuppbyggingu í Skagafirði og sérstaklega Fljótum verða veruleg og á það skal bent að Fljótamenn sækja heilbrigðisþjónustu á Heilbrigðisstofnunina á Siglufirði. Íbúar Norðurlands vestra eiga einnig þjónustu að sækja til Siglufjarðar. Vanmetið er í samanburði Héðinsfjarðarleiðar og Fljótaleiðar, neikvæð áhrif Héðinsfjarðarleiðarinnar á atvinnulíf og byggðarþróun á Norðurlandi vestra og kostir Fljótaleiðarinnar.
d. Mótvægisaðgerðir
Fram kemur í matsskýrslu að við hönnun framkvæmdarinnar verði leitast við að gera nauðsynlegar mótvægisaðgerðir, svo sem með viðeigandi hönnun brúa og með því að hnika til veglínum svo fornminjar hyljist ekki. Það er ástæða til að lýsa ánægju með það.
e. Vöktun
Vöktun á lífríki er mikilvæg aðgerð.
f. Þörf á að kanna tiltekin atriði frekar
Í matsskýrslunni kemur fram að á hluta af Siglufjarðarvegi, um svokallaða Almenninga, hefur verið langvarandi jarðsig. Þannig hafi stundum myndast misbrúnir í veginn við enda á landspildum, sem eru á hreyfingu, grjóthrun hafi verið á veginn í miklum rigningum og vorleysingum. Snjóflóð á veginum eru alltíð og á Siglufjarðarvegi öllum eru skráð 145 snjóflóð frá árinu 1971. Samkvæmt upplýsingum frá rekstrarstjóra Vegagerðarinnar á Sauðárkróki er árlegur kostnaður við snjómokstur á veginum frá Siglufirði að Ketilási um 12-14 milljónir króna, auk þess sem 1 – 1,5 milljónir króna fara árlega til að lagfæra jarðsigið. Þá er kostnaður við minniháttar viðhald og þjónustu á Strákagöngum um 1,5- 2 milljónir króna á ári.
Ekki verður annað séð en að í samanburði á leiðum sé kostnaður við núverandi Siglufjarðarleið vanmetinn Fljótaleiðinni í óhag og hefði þurft að skoðast nánar.
Ekki er vikið að öryggi umferðar á leiðinni um Almenninga, aðeins sagt að líklegt megi teljast að þar verði þjónustustig óbreytt þó Héðinsfjarðarleið verði valin. Breytist þjónustustigið hefur það mikil samfélagsleg áhrif á Fljótin, Skagafjörð og Norðurland vestra. Þá er hvergi vikið að því að til framtíðar geti tenging Siglufjarðar til vesturs, um Almenninga, talist óviðunandi.
Ekki er borin saman við Fljótaleiðina, í kostnaði og arðsemi, Héðinsfjarðarleiðin að viðbættum göngum frá Siglufirði í Fljót, úr Hólsdal í Nautadal.
Svæðisskipulag fyrir Skagafjörð, sem samþykkt var af öllum sveitarfélögum í Skagafjarðarsýslu, en ekki hefur enn hlotið staðfestingu umhverfisrráðherra, gerir ekki ráð fyrir vegtengingum vegna Fljótaleiðar eða Héðinsfjarðarleiðar. Vinna við gerð Aðalskipulags fyrir Skagafjörð stendur nú yfir og stefnt er að því að fyrsta umræðutillaga verði lögð fyrir nefndir Sveitarfélagsins nú á haustdögum. Þar verður stefna sveitarfélagsins Skagafjarðar til nánustu framtíðar mörkuð.
Ofanrituð umsögn var samþykkt af Umhverfis- og tækninefnd.
12. Önnur mál.
Fleira ekki gert, fundi slitið kl. 1210
Jón Örn Berndsen