Fara í efni

Umhverfis- og tækninefnd

50. fundur 04. nóvember 1999 kl. 20:30 - 23:09 Safnahúsið á Sauðárkróki

Umhverfis- og tækninefnd Skagafjarðar 

Fundur 50 – 04.11.1999

 

            Ár 1999, fimmtudaginn 4. nóvember kl. 2030 var umhverfis- og tækninefnd saman komin til fundar í Safnahúsinu á Sauðárkróki.  Fundurinn var opinn fundur um skipulagsmál gamla bæjarhlutans á Sauðárkróki.

            Eftirtaldir voru mættir:  Stefán Guðmundsson, Jóhann Svavarsson, Sigrún Alda Sighvats, Árni Egilsson, Örn Þórarinsson, Jón Örn Berndsen, Ingvar Gýgjar Jónsson, Árni Ragnarsson skipulagsarkitekt, Áslaug Árnadóttir arkitekt og Snorri Björn Sigurðsson sveitarstjóri.  Auk þess voru mættir 43 gestir sem rituðu nöfn sín á blað sem gekk um fundarsalinn.

 

Stefán Guðmundsson setti fund og bauð fundarfólk velkomið og gaf síðan Áslaugu Árnadóttur orðið.

 

Áslaug sagði að hún hefði lengi haft áhuga á skipulagi gamla bæjarhlutans á Sauðárkróki.  Tillagan sem hún hefur unnið er lokaverkefni hennar frá arkitektaskóla í Danmörku.  Hún greindi síðan frá sérstöðu gamla bæjarhlutans.  Gömlu húsin við Aðalgötu segja sögu um fátækt sjávarþorp sem mikill akkur væri í að varðveita þó svo að nokkur hús hafi þegar verið rifin og öðrum breytt.

Jón Örn fjallaði nokkuð um það skipulag sem í gildi er og einnig tillögur Áslaugar.  Hann sagði að fundurinn væri í raun til þess að fólk gæti skipst á skoðunum varðandi framtíð gamla bæjarhlutans.

Árni Ragnarsson ræddi um það skipulag sem er í gildi þ.e. Aðalskipulag Sauðárkróks sem gildir frá 1994-2014 og deiliskipulag frá 1985.  Hann sagði nauðsynlegt að umhverfis- og tækninefnd fengi eitthvert veganesti frá þessum fundi.  Hvernig vildu íbúarnir að þetta svæði þróaðist og liti út í framtíðinni.

Þá var gert stutt kaffihlé og síðan var orðið gefið laust.

Valgeir Kárason þakkaði fyrir fundinn og þær miklu upplýsingar sem fram koma á tillögum Áslaugar sérstaklega gerði hann Flæðarnar og Faxatorg að umræðuefni og taldi að þar ætti að vera útivistarsvæði.  Þá varpaði hann fram hugmynd um að gera nýtt tjaldsvæði efst í Grænuklaufinni.  Þá spurði hann um stefnu sveitarfélagsins varðandi söfnin á Sauðárkróki.

Guðmundur Ingólfsson ræddi um umferð bíla og gangandi vegfarenda í gamla bænum.

Haraldur Ingólfsson ræddi um gömul hús sem hefðu verið fjarlægð og taldi að eftir þau væru sár sem væru lýti á bænum.

Sigrún Alda spurði um möguleika á að stækka Safnaðarheimilið til suðurs ekki síst ef til þess kæmi að félagsheimilið Bifröst verði rifið.

Knútur Aadnegard ræddi um Kirkjutorgið.  Ennfremur sagðist hann sjá eftir að Blöndalshúsið var flutt úr gamla bænum og varpaði fram þeirri hugmynd að flytja það þangað aftur.  Einnig minntist hann á hugmynd um stækkun Safnahússins.

Sigurður Ágústsson varpaði fram þeirri hugmynd að gera torg milli Búnaðarbankans og Stjórnsýsluhússins.

María Gréta ræddi um Faxatorg og Flæðarnar og taldi að byggja ætti íbúðir fyrir aldraða á Flæðunum.

Bryndís Þráinsdóttir taldi að gera ætti útivistarsvæði á Flæðunum, einnig spurði hún um hvenær nýtt deiliskipulag af gamla bænum tæki gildi.

Sigurlaugur Elíasson ræddi um nafirnar og taldi að skipulagið ætti að ná til þeirra.  Hann taldi að þar ætti að planta trjágróðri.

Viðar Sverrisson ræddi um mikla umferð um Kirkjuklaufina og slysahættu gangandi fólks.

Stefán Guðmundsson ræddi um væntanlegt menningarhús á Sauðárkróki og varpaði fram spurningu um hvar það skuli rísa.

Áslaug Árnadóttir, Árni Ragnarsson og Jón Örn Berndsen svöruðu framkomnum fyrirspurnum og veltu upp margvíslegum sjónarmiðum varðandi skipulag gamla bæjarins.

 

Stefán Guðmundsson þakkaði fundarmönnum góða fundarsetu og líflegar umræður og sleit síðan fundi kl. 2309.

 

Örn Þórarinsson

Stefán Guðmundsson

Jóhann Svavarsson

Árni Egilsson

Sigrún Alda Sighvats