Við fögnum aðventunni um helgina með jólasveinalest og jólabingói
Vegna samkomutakmarkana fögnum við aðventunni með breyttu sniði í Sveitarfélaginu Skagafirði fyrstu helgi í aðventu, helgina 26.-28. nóvember. Ekki verður formleg dagskrá við tendrun jólatrés á Kirkjutorgi í ár líkt og hefð er fyrir. Við breytum því til og bjóðum upp á jólasveinalest og hreyfi-jólabingó líkt og í fyrra.
Nemendur Árskóla munu tendra ljós á jólatrénu á Kirkjutorgi samhliða hinni árlegu friðargöngu skólans. Nemendur Varmahlíðarskóla munu tendra ljósin á jólatrénu við Varmahlíðarskóla, en hefð er fyrir því að nemendur 4. bekkjar skólans sæki jólatré í Reykjarhólsskóg. Nemendur við Grunnskólann austan Vatna munu tendra ljós á jólatrjánum við sína skóla á Hofsósi og á Hólum, en hefur hefð skapast fyrir því á Hólum að nemendur sækja tré í Hólaskóg.
Jólabingó alla helgina
Sveitarfélagið hvetur til samveru fjölskyldunnar um helgina og stendur fyrir hreyfi-jólabingói þar sem fjölskyldur eru hvattar til þess að fara saman í göngutúr og reyna að fá bingó. Um er að ræða ratleik þar sem mynd er tekin úr göngutúrnum á ýmsum stöðum samkvæmt leiðbeiningum á bingó spjaldi. Þegar búið er að ná öllu spjaldinu eru myndirnar sendar inn. Leikurinn verður í gangi alla helgina. Hægt er að taka þátt alls staðar í Skagafirði, en fjögur mismunandi bingóspjöld verða í boði, fyrir Hofsós, Sauðárkrók, Varmahlíð og dreifbýli Skagafjarðar.
Leikurinn í hnotskurn:
- Sæktu spjald hér að neðan | prenta út eða hafa í símanum
- Skellið ykkur út í göngutúr
- Finnið atriðin sem eru á bingóspjaldinu og takið mynd (nota ímyndunaraflið ef ekki er hægt að finna eitthvað sem er á spjaldinu)
- Til að fá BINGO þarf að taka myndir af öllum atriðunum
- Hægt er að senda inn myndirnar á tvo vegu:
Senda inn með því að smella hér eða
á tölvupóstinn heba@skagafjordur.is. - Vinsamlegast sendið inn spjöld í síðasta lagi kl 12, mánudaginn 29. nóvember.
Smelltu á Bingóspjald að þínu vali hér að neðan til að sækja spjaldið:
HOFSÓS SAUÐÁRKRÓKUR DREIFBÝLI VARMAHLÍÐ
Jólasveinalest kl. 16:30 á laugardaginn
Jólasveinarnir og foreldrar þeirra ætla að laumast til byggða laugardaginn 27. nóvember og taka rúnt um valdar götur á Sauðárkróki í bílalest með blikkljós og jólatónlist. Viðburðurinn hefst kl 16:30 og mun taka um klukkustund. Fjölskyldur eru hvattar til að kíkja út og vinka sveinka. Jólasveinarnir keyra stóran rúnt svo hægt sé að sjá þá sem víðast og biðlum við til fólks að fylgja sóttvarnarreglum. Jólasveinarnir byrja á að keyra upp Túngötu og áfram upp í hverfi, framhjá Hlíðarkaupi og Fjölbrautaskólanum, beygja til vinstri á Skagfirðingabraut og enda við Kirkjutorg. Ath. þetta er breytt leið frá því í fyrra.
Ferðaáætlun jólasveinanna
Sveitarfélagið Skagafjörður óskar ykkur gleði og ánægju á aðventunni.