Ársreikningur Sveitarfélagsins Skagafjarðar fyrir árið 2018
Ársreikningur Sveitarfélagsins Skagafjarðar fyrir árið 2018 var tekinn til fyrri umræðu í sveitarstjórn í dag.
Ársreikningurinn samanstendur af upplýsingum um A-hluta sveitarsjóðs og A- og B-hluta samantekinn. Í A-hluta er aðalsjóður auk eignasjóðs og þjónustustöðvar. Í B-hluta eru veitustofnanir, hafnarsjóður, félagslegar íbúðir, Tímatákn ehf. og Eyvindarstaðaheiði ehf.
Rekstrartekjur Sveitarfélagsins Skagafjarðar námu á árinu 5.506 millj. króna af samstæðunni í heild. Þar af voru rekstrartekjur A-hluta 4.686 millj. króna. Rekstrargjöld samstæðunnar að frátöldum afskriftum og fjármagnsliðum voru 4.774 millj. króna, þar af A-hluti 4.259 millj. króna. Rekstrarhagnaður A- og B-hluta fyrir afskriftir og fjármagnsliði er 731 millj. króna, þar af er rekstrarniðurstaða A-hluta jákvæð fyrir afskriftir og fjármagnsliði um 427 millj. króna. Afskriftir eru samtals 209 millj. króna, þar af 114 millj. króna hjá A-hluta. Fjármagnsgjöld umfram fjármunatekjur voru hjá samstæðunni í heild samtals um 293 millj. króna, þ.a. eru 229 millj. króna fjármagnsgjöld umfram fjármunatekjur í A-hluta sveitarsjóðs. Rekstrarhagnaður A- og B-hluta á árinu 2018 er 241 millj. króna og rekstrarafgangur A-hluta er er jákvæður um 91,5 millj. króna.
Eignir Sveitarfélagsins Skagafjarðar A- og B-hluta voru í árslok samtals 9.440 millj. króna, þar af voru eignir A-hluta 7.357 millj. króna. Skuldir og skuldbindingar voru í árslok 2018 samtals 6.818 millj. króna, þar af hjá A-hluta 5.888 millj. króna. Langtímaskuldir námu alls 4.371 millj. króna hjá A- og B-hluta auk 525 millj. króna næsta árs afborgana. Eigið fé nam 2.622 millj. króna hjá samstæðunni í árslok og er eiginfjárhlutfall 27,8%. Lífeyrisskuldbindingar nema 1.150 millj. króna í árslok.
Veltufé frá rekstri A- og B-hluta nam 611 millj. króna, þar af er veltufé frá rekstri A-hluta 351 millj. króna. Handbært fé frá rekstri A- og B-hluta er 21 millj. króna. Fjárfestingahreyfingar samstæðunnar námu á árinu 2018, 760 millj. króna, þar af námu fjárfestingar í varanlegum rekstrarfjármunum 808 millj. króna. Afborganir langtímalána og skuldbreytinga námu 421 millj. króna. Handbært fé nam 192 millj. króna í árslok. Tekin ný langtímalán voru að fjárhæð 1.101 millj. króna, þar af um 600 m.kr. vegna uppgjörs við Brú lífeyrissjóð.
Í 64. gr. sveitarstjórnarlaga er kveðið á um að heildarskuldir og skuldbindingar A- og B-hluta í reikningsskilum skv. 60. gr. megi ekki vera hærri en nemur 150% af reglulegum tekjum. Frá heildarskuldum og skuldbindingum er heimilt að draga frá hluta lífeyrisskuldbindinga sem og tekjur og skuldir veitna og langtímakröfu vegna Brúar lífeyrissjóðs. Hjá Sveitarfélaginu Skagafirði er skuldahlutfall í ársreikningi fyrir árið 2018, 123,8% án þess að dreginn sé frá sá hluti af heildarskuldum sem heimilað er í lögum og reglugerð. Skuldaviðmið er 94,2% þegar búið er að draga frá það sem heimilað er vegna lífeyrisskuldbindinga og veltufé frá rekstri.
Að lokinni fyrri umræðu samþykkti sveitarstjórn Sveitarfélagins Skagafjarðar að vísa ársreikningi 2018 til síðari umræðu sveitarstjórnar.