Auglýsing um skipulagsmál - Tjaldsvæðið við Sauðárgil, kynningarmyndband
Skipulagsfulltrúi Skagafjarðar auglýsir tillögu að breytingu á aðalskipulagi, Afþreyingar- og ferðamannasvæði á Sauðárkróki og tillögu að deiliskipulagi, Tjaldsvæðið við Sauðárgil. Hér að neðan má m.a. sjá kynningarmyndband sem útskýrir deiliskipulagstillöguna ítarlega.
Tillaga að breytingu á aðalskipulagi, Afþreyingar- og ferðamannasvæði á Sauðárkróki
Sveitarstjórn Skagafjarðar samþykkti á 23. fundi sínum þann 21. febrúar 2024 að auglýsa breytingu á aðalskipulagi Sauðárkróks skv. 1. mgr. 31. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Tillagan er sett fram í greinargerð með uppdrætti dags. febrúar 2024 unnin af VSÓ Ráðgjöf.
Breyting felst í stækkun á afþreyingar- og ferðamannasvæði AF-402 á milli Sæmundarhlíðar og Sauðár. Gert er ráð fyrir þjónustuhúsum í tengslum við hlutverk svæðisins. Svæðið stækkar úr 3,2 ha í 4,1 ha á kostnað opins svæðis. Helstu markmið breytingarinnar er að bæta aðstöðu fyrir hjólhýsi og húsbíla á Sauðárkróki sem styður við þá stefnu að gera sveitarfélagið áfangastað ferðamanna.
Tillaga að deiliskipulagi, Tjaldsvæðið við Sauðárgil
Sveitarstjórn Skagafjarðar samþykkti á 22. fundi sínum þann 17.01.2024 að auglýsa tillögu að deiliskipulagi fyrir Tjaldsvæðið við Sauðárgil skv. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Tillagan er sett fram á uppdrætti með greinargerð, verknr. DS2203, dags. 08.01.2024 sem unnin var fyrir hönd sveitarfélagsins Skagafjarðar hjá Teiknistofu Norðurlands. Markmið deiliskipulagsins eru að setja fram stefnu um umgjörð og skipulag fyrir nýtt tjaldsvæði á Sauðárkróki og uppbyggingu útivistarsvæðis við Sauðárgil. Fyrirhugað er að núverandi tjaldsvæði á Flæðum víki vegna uppbyggingu menningarhúss. Helstu viðfangsefni eru skilgreining á lóðarmörkum, byggingarreitum, bílastæðum og aðkomu með tilliti til umferðaröryggis. Stígakerfi um svæðið er skilgreint og umgjörð útivistarsvæðis við Sauðárgil. Jafnframt eru settir fram skilmálar um umgjörð og skipulag á nýju tjaldsvæði með góðri aðstöðu fyrir ferðavagna og tjöld.
Tillögurnar eru auglýstar frá 13. mars til og með 1. maí 2024. Hægt er að skoða tillöguna að breytingu á aðalskipulagi í Skipulagsgátt Skipulagsstofnunar á www.skipulagsgatt.is undir málsnúmeri 515/2023 og deiliskipulagstillöguna undir málsnúmeri 516/2023. Tillögurnar munu jafnframt liggja frammi til kynningar í Ráðhúsinu, Skagfirðingabraut 17-21, Sauðárkróki á skrifstofutíma frá 10-12 og 12:30-15. Einnig er hægt að nálgast gögnin hér að neðan og á forsíðu heimasíðu Skagafjarðar www.skagafjordur.is undir "Skipulag í kynningu".
Þau sem telja sig eiga hagsmuna að gæta er gefinn kostur á að koma á framfæri ábendingum varðandi tillögurnar. Umsagnir skulu vera skriflegar og berast í gegnum Skipulagsgáttina www.skipulagsgatt.is undir málum númer 515/2023 og 516/2024 í síðasta lagi 1. maí 2024. Einnig er hægt að skila inn umsögnum til skipulagsfulltrúa í afgreiðslu Ráðhússins, Skagfirðingabraut 17-21, 550 Sauðárkróki eða á netfangið skipulagsfulltrui@skagafjordur.is.
Umsagnir um skipulagsmál sveitarfélagsins teljast til opinberra gagna. Vakin er athygli á því að nöfn og umsagnir koma fram í fundargerðum Skipulagsnefndar og eru aðgengileg opinberlega á Skipulagsgáttinni. Persónuupplýsingar eru aðeins nýttar í þeim tilgangi að vinna úr athugasemdum og auðkenna sendanda.
Skipulagsfulltrúi Skagafjarðar
Hér má sjá kynningarmyndband um deiliskipulag við Tjaldsvæði við Sauðárgil:
Meðfylgjandi gögn:
Deiliskipulag, Tjaldsvæði við Sauðárgil - Skipulagsuppdráttur og greinargerð
Tjaldsvæði við Sauðárgil - Innkeyrsla við Sæmundarhlíð
Tjaldsvæði við Sauðárgil - Hljóðvist
Tjaldsvæði við Sauðárgil - Minnisblað Náttúrustofu Norðurlands vestra