Fara í efni

Dagur leikskólans

06.02.2024

Dagur leikskólans verður haldinn hátíðlegur hjá leikskólum landsins í dag, þriðjudaginn 6. febrúar og eru leikskólar Skagafjarðar þar engin undantekning.

Á Sauðárkróki stóð til að börnin á eldra stigi leikskólans Ársala syngi lög fyrir gesti og gangandi í Skagfirðingabúð kl 10:15 en mögulega verður því frestað vegna veðurs (tilkynning um það verður send á foreldra). Á yngra stigi verður skólastarfið brotið upp með ýmis konar upplifun og skynjun fyrir börnin.

Börnin í leikskólanum Tröllaborg (Barnaborg) á Hofsósi ætla að setja upp myndlistarsýningu í kaupfélaginu á Hofsósi. Verður hún opin um nokkurt skeið og hvetjum við alla til að koma og skoða listaverk eftir listamenn framtíðarinnar. Í leikskólanumTröllaborg á Hólum (Brúsabæ) ætla börnin að bjóða foreldrum sínum, ömmum og öfum upp á heilsusnakk sem þau útbúa sjálf milli kl 15:00 og 15:55.

Í Varmahlíð verður foreldrum barna í leikskólanum Birkilundi boðið í kaffi milli kl 14:30 og 15:45 í tilefni af Degi leikskólans og 25 ára afmælis Birkilundar.

Sjötti febrúar er merkilegur dagur í sögu leikskólans því það var á þessum degi árið 1950 sem frumkvöðlar leikskólakennara stofnuðu fyrstu samtök sín. Markmiðið með Degi leikskólans er að stuðla að jákvæðri umræðu um leikskólastarf og um leið beina athygli samfélagsins að því faglega og metnaðarfulla starfi sem innt er af hendi í leikskólum landsins á degi hverjum.

 

Uppfært kl 9:10 - Vegna veðurs munu börnin á eldra stigi leikskólans Ársala fresta söngnum í Skagfirðingabúð.