Gestafjöldi Byggðasafns Skagfirðinga aldrei verið meiri
Í fréttaannáli Byggðasafns Skagfirðinga er árið 2022 gert upp, en nóg var um að vera hjá safninu á árinu. Ánægjulegt er frá því að segja að gestafjöldi hefur aldrei verið meiri en á árinu, en safnið tók á móti 65.437 manns á árinu og fyrra met frá árinu 2016 því slegið margfalt, en árið 2016 voru gestir safnsins 46.051.
Hér má sjá fréttaannál Byggðasafns Skagfirðinga í heild sinni:
Við óskum landsmönnum öllum gleðilegs nýs árs og þökkum gestum, samstarfsfólki og velunnurum fyrir árið sem var að líða. Starfsfólk Byggðasafns Skagfirðinga hefur haft í nógu að snúast enda gestafjöldinn aldrei verið meiri en safnið tók á móti 65.437 manns árinu, hvorki meira né minna. Fyrra metið var frá árinu 2016 en þá voru gestirnir 46.051.
Gestir safnsins eru þeir sem heimsækja Glaumbæ og Víðimýrarkirkju, en gestir í Glaumbæ voru 59.509 manns og í Víðimýrarkirkju 5.928. Megin skýringu á þessum fjölda, fyrir utan almenna fjölgun ferðamanna, má rekja til lokunar safnsvæðisins umhverfis Glaumbæ á opnunartíma safnsins. Það var gert sumarið 2021 til þess að bæta aðgangsstýringu safngesta, og um leið að bæta upplifun safngesta af heimsókninni, hlífa gamla bænum við ágangi og bæta loftun hans með því að hafa opið í gegn. Það er ánægjulegt að geta greint frá því að þeim markmiðum hafi verið náð.
Tímamót eru hjá Byggðasafninu um þessar mundir þegar leiðir skilja við dr. Brendu Prehal en hún hefur starfað sem deildarstjóri fornleifadeildar frá því í júní 2020. Við færum Brendu hjartans þakkir fyrir ánægjulegt samstarf og óskum henni velfarnaðar á nýjum starfsvettvangi. María Eymundsdóttir sem hefur gegnt stöðu verkefnastjóra matarupplifunar lætur einnig af störfum hjá safninu eftir að hafa stýrt kaffistofunni í Áshúsi sl. tvö ár, við þökkum við henni kærlega fyrir gott samstarf og ánægjulegar samverustundir.
Svo stiklað sé á stóru um verkefni safnsins árið 2022 þá hófst það með flutningum á skrifstofum safnsins í janúar. Skrifstofur safnsins voru til húsa í Gilsstofu, þar sem var eins og gefur að skilja heldur þröngt um mannskapinn. Það var því ansi mikið gleðiefni þegar safninu bauðst prestsbústaðurinn í Glaumbæ til notkunar undir skrifstofur sínar, sem bætti aðstöðu alls starfsfólks svo um munar. Með því varð mögulegt að nýta Gilsstofu undir sýningar og miðla betur merkilegri sögu þess húss.
Í maí fögnuðum við ákvörðun Byggðaráðs Skagafjarðar um byggingu menningarhúss. Með því erum við skrefi nær því að koma safnkostinum í varanlegt varðveisluhúsnæði sem uppfyllir skilyrði Safnaráðs til húsnæðis viðurkenndra safna en viðurkenning Safnaráðs er forsenda þess að söfn geti sótt um rekstrarstyrk úr safnasjóði. Þá erum við skrefi nær því að geta tekið við stórum gripum á ný, hlúð vel að þeim gripum sem eru í varðveislu og haft aðgengi að þeim til rannsókna og sýninga.
Sumarið var annasamt í gestamóttöku sem fyrr segir en einnig vegna ýmissa verkefna. Haldið var upp á þau tímamót að grunnsýning safnsins „Mannlíf í torfbæjum“ fagnaði 70 ára afmæli en hún opnaði 15. júní árið 1952. Á sýningunni í bænum má sjá yfir 800 gripi, í 16 mismunandi rýmum, og er áhersla lögð á aðbúnað fólks við matargerð og daglegt líf. Hún hefur þó tekið ýmsum breytingum í gegnum árin, einkum árið 1998 í tilefni af 50 ára afmælis safnsins. Í tilefni afmælisins fengum við Nathalie Jacqueminet safnafræðing og sérfræðing í forvörslu til okkar í júní og hún fór með okkur yfir grunnsýningu safnsins „Mannlíf í torfbæjum“ í Glaumbæ. Tilgangurinn var að yfirfara safngripi og ástand þeirra ásamt því að gera smávægilegar breytingar á sýningunni. Við náðum að koma gríðarlega miklu í verk og lærðum heilmikið á meðan hún var hjá okkur og þökkum henni kærlega fyrir aðstoðina.
Safnið opnaði þrjár nýjar sýningar;
- „Íslenski þjóðbúningurinn og Pilsaþytur“, samstarfsverkefni Byggðasafnsins og Pilsaþyts þar sem fróðleikur, búningahlutar og skart var til sýnis ásamt kyrtli Pilsaþyts sem vígður var í Miðgarði þann 22. apríl síðastliðinn. Einnig var afhjúpaður sýningaskápur þar sem fimm glæsilegir þjóðbúningar eru til sýnis á miðhæð Áshúss. Sýningin „Íslenski þjóðbúningurinn og Pilsaþytur“ stóð til 20. október.
- Í Gilsstofu opnaði sýningin „Torfbærinn: Heimili og vinnustaður“ frá Skottu kvikmyndafjelagi sem unnin var í samstarfi við Byggðasafnið. Þar var hægt að ferðast aftur í tímann með 360° gleraugum og virða fyrir sér heyskap, mjaltavinnslu, húslestur að fornum sið og margt fleira. Sýningin stóð til 31. ágúst.
- Spjaldasýningin „Villtar erfðalindir nytjaplantna“ sem fjallar um villtar plöntur náskyldum landbúnaðarplöntum, möguleikunum sem felast í þeim, sérstaklega í sambandi við lofslagsvána, líffræðilegan erfðafjölbreytileika og fæðuöryggi, var sett upp í samstarfi við Náttúrustofu Norðurlands vestra og fengin að láni frá Grasagarðinum í Reykjavík. Sýningin stóð í Glaumbæ út júní.
Torfhúsaverkefnið hélt áfram á árinu, þar sem safnið skráir öll torfhús sem að nokkru eða öllu leyti eru uppistandandi í Skagafirði. Verkefnastjóri er Bryndís Zoëga. Torfhús í fyrrum Seylu-, Akra-, og Lýtingsstaðahreppi voru kynnt á samfélagsmiðlum safnsins í upphafi árs og kom skýrsla verkefnisins út í lok árs. Fjöldi mynda prýðir skýrsluna og fylgir hverju húsi stutt söguágrip og lýsing. Hægt er að skoða hana á heimasíðu safnsins. Torfhús sem skráð voru á árinu 2022 verða kynnt á samfélagsmiðlum safnsins í byrjun árs 2023 og stefnir safnið á að gera sýningu í Glaumbæ um verkefnið og niðurstöður þess sama ár.
Safnið tók þátt í tveimur samstarfsverkefnum sumarið 2023 sem fólu í sér fornleifauppgreftri. FLASH (Fornbýli Landscape and Archaeolocial Survey, Hegranes) sem er rannsókn á þremur smábýlum í Hegranesi fór fram í júlímánuði; í Kotinu í landi Hellulands, Þrælagerði í Keflavík og Grænagerði í Huldulandi. Um er að ræða verkefni til tveggja ára en niðurstöður sumarsins benda til þess að þar sé að finna minjar híbýla frá 9.-10. öld. Verkefnið er unnið í samstarfi við bandarísku fornleifafræðingana dr. Kathryn A. Catlin og dr. Douglas J. Bolander, með styrk frá NSF (National Science Foundation).
Í ágústmánuði tók safnið þátt í fornleifarannsókn á verbúðarminjum á Höfnum á Skaga, í samstarfi við Fornleifastofnun Íslands. Þar eru umfangsmiklar minjar um sjósókn, líklega allt frá elstu tíð en staðurinn á undir högg að sækja sökum mikils landbrots af völdum sjávar.
Erasmusverkefninu „Our Way Heritage Lives“ (OWHL) lauk á árinu. Vegna heimsfaraldurs Covid þurfti að spýta í lófana til að standa við skuldbindingar fyrir verkefnislok. Starfsmenn safnsins, ásamt öðrum þátttakendum, heimsóttu söfnin Gamla Linköping Open-Air Museum og Ljusdalsbygdens museum í Svíþjóð í maí og tóku á móti samstarfsfólki í verkefninu í enda ágúst. Menningarstofnanirnar eiga það sameiginlegt að veita fullorðnum fræðslu um menningararf og búa hver um sig yfir mikilli reynslu á því sviði en deila sömuleiðis sams konar áskorunum sem rekja má til smæðar stofnananna og landfræðilegrar staðsetningar. Verkefnið snerist um að deila reynslu og skiptast á hugmyndum um leiðir til þess að kljást við þessar sameiginlegu áskoranir. Verkefnið fór af stað haustið 2019 og hófst með heimsókn til Liechtenstein, úr heimsóknum til Finnlands og Skotlands varð ekki vegna heimsfaraldurs en í staðinn voru haldnir fjarfundir og -kynningar. Verkefninu lauk með skilum á lokaskýrslu og stafrænni handbók, aðgengilegri öllum á alnetinu en ánægjulegt er að segja frá því að verkefnið hlaut mikið lof og gæðastimpil sem fyrirmyndarverkefni hjá Erasmus. Handbókina má nálgast hér.
Þá hlaut samstarfsverkefni safnsins, Lofotr Vikingmuseum í Noregi og Kyle & Lochalsh Community Trust í Skotlandi, "Viking Networks & Young Adults", styrk frá Norræna Atlantssamstarfinu (NORA). Verkefnið byggir á sameiginlegri arfleifð landanna þriggja, sögu umræddra svæða og minja frá 11. öld. Sameiginlegt markmið safnanna er að finna lausnir við þeim áskorunum sem felast í sjálfbærri ferðamennsku og eflingu afskekktra svæða og byggða.
Styrkveitingunni fylgdi sú áskorun að bjóða til samstarfs aðila frá Grænlandi eða Færeyjum, sem samstarfsaðilarnirnir urðu við og hefur Kujataa UNESCO þjóðgarðurinn í Suður-Grænlandi samþykkt að ganga til liðs við verkefnið og mun það formlega hefja göngu sína í upphafi árs 2023.
Auk ýmissa annarra verkefna sem ekki verður farið nánar út í hér stóð safnið einnig fyrir ellefu viðburðum og námskeiðum í gegnum Fornverkaskólaverkefnið á árinu, níu þeirra í Glaumbæ og tveimur á Tyrfingsstöðum. Viðburðirnir fengu góðar undirtektir og voru að jafnaði vel sóttir.
Starfsfólk Byggðasafns Skagfirðinga hlakkar til viðburðaríks árs 2023. Þá mun safnið fagna 75 ára afmæli en það var stofnað þann 29. maí 1948. Ætlunin er að fagna þeim tímamótum á fjölbreyttan hátt, í raunheimum sem og á veraldarvefnum.
Starfsfólk Byggðasafns Skagfirðinga færir samstarfsaðilum, velunnurum og gestum safnsins hjartans þakkir fyrir samfylgdina á liðnu ári!