Fara í efni

Hvatapeningar Sveitarfélagsins Skagafjarðar hækka úr 8.000 krónum í 25.000 krónur

23.01.2019

Þann 26. nóvember síðastliðinn samþykkti Félags- og tómstudarnefnd Sveitarfélagsins Skagafjarðar tilllögu um að hækka hvatapeninga Sveitarfélgsins úr 8.000 krónum í 25.000 krónur frá og með 1. janúar 2019. Hvatapeningar eru ætlaðir til þess að efla tómstunda- og íþróttastarf barna og ungmenna í Sveitarfélaginu Skagafirði sem og að auka jöfnuð í samfélaginu, fjölbreytileika íþrótta-, lista- og tómstundastarfs og styrkja félagslegt umhverfi og hafa jákvæð áhrif á þroska barna og unglinga.

Jafnframt mun Sveitarfélagið Skagafjörður hækka styrk sinn til aðildarfélaga UMSS um 1,2 milljónir króna á árinu 2019 gegn því að félögin hækki ekki æfingagjöld sín á árinu. Einnig var samþykkt að hafnar verði viðræður við forsvarsmenn UMSS og félaga innan vébanda þess um breytt fyrirkomulag æfingagjalda og samspil hvatapeninga og styrkja. Breytingarnar miði að því að samræma gjöld íþróttafélaganna sem og jafna möguleika og aðstæður barna til íþróttaiðkunar, ásamt því að efla faglegt starf íþróttafélaganna.

Sveitarstjórn og Byggðarráð Sveitarfélagsins Skagafjarðar samþykktu tillögu Félags- og tómstundarnefndar um hækkun hvatapeninga á árinu 2019.

Öll börn í Sveitarfélaginu Skagafirði á aldrinum 6 - 18 ára eiga rétt á Hvatapeningum að upphæð 25.000 kr.

Réttur til Hvatapeninga fyrir árið 2019 fellur niður í árslok. Ónýttir Hvatapeningar nýtast ekki milli ára.