Fara í efni

Kaupfélag Skagfirðinga leggur til 200 milljónir í samfélagsleg verkefni

07.07.2021

Kaupfélag Skagfirðinga mun leggja til 200 milljónir á næstu tveimur árum til samfélagslegra verkefna í Skagafirði. Forsvarsmenn Kaupfélagsins afhentu sveitastjóra Sveitarfélagsins Skagafjarðar og oddvita Akrahrepps yfirlýsingu þess efnis við hátíðlega athöfn í Húsi Frítímans í dag.

Eru þessi fjármunir hugsaðir sem stuðningur við verkefni á vegum sveitarfélagana í Skagafirði með það að markmiði að bæta búsetugæði í héraði, meðal annars með því að bæta göngustíga, malbika sérstök svæði, fjölga útivistasvæðum, bæta félagsaðstöðu íbúa og margt annað er varðar umhverfi og búsetugæði.

Með þessu meðal annars, vill Kaupfélag Skagfirðinga undirstrika samfélagslega ábyrgð sína og skapa sem bestar aðstæður og umhverfi fyrir íbúa Skagafjarðar.

Sigfús Ingi Sigfússon, sveitarstjóri Sveitarfélagsins Skagafjarðar, sagði við athöfnina að hann væri afar þakklátur fyrir það rausnarlega framlag sem Kaupfélag Skagfirðinga væri að tilkynna um nú til uppbyggingar samfélagslegra verkefna í Skagafirði. Slíkur stuðningur væri ekki sjálfsagður en sýndi vel afstöðu kaupfélagsins til uppbyggingar samfélagsins og virkrar þátttöku atvinnulífsins í sínu nærumhverfi. Verkefnið væri fjarri því að vera einsdæmi en Kaupfélag Skagfirðinga og dótturfyrirtæki þess hafa í gegnum árin stutt með myndarlegum hætti við ýmis framfaraverkefni í Skagafirði og jafnframt á landsvísu svo eftir hefur verið tekið.