Nýsköpunarkeppni nemenda 5. bekkja í Skagafirði
Nýsköpunarkeppni 5.bekkja í Skagafirði fór fram í síðustu viku. Allir nemendur í 5.bekk í Grunnskólanum austan Vatna, Árskóla og Varmahlíðarskóla fengu fræðslu um nýsköpun ásamt því að hanna og móta hugmyndir að nýjum uppfinningum.
Nemendur hönnuðu sína hugmynd frá grunni, sumir einir og aðrir í hópum. Í framhaldi af hugmyndavinnnunni útbjuggu þeir myndband í Flipgrid sem þeir skiluðu svo inn til yfirferðar.
Skipuð hefur verið dómnefnd sem mun meta allar hugmyndirnar og veita verðlaun fyrir þrjár þeirra. Í dómnefnd sitja Sesselja Ingibjörg Barðdal, framkvæmdastjóri Eims. Kolfinna Kristrínardóttir, atvinnuráðgjafi með áherslu á nýsköpun hjá SSNV og Sigfús Ólafur Guðmundsson, verkefnastjóri í atvinnu-, menningar- og kynningarmálum hjá Sveitarfélaginu Skagafirði.
Ingvi Hrannar Ómarsson, kennsluráðgjafi Sveitarfélagsins Skagafjarðar í upplýsingatækni og nýsköpun stýrði framkvæmd keppninnar og gekk vinnan mjög vel að hans sögn og vonast hann til að vinna sem þessi sé kominn til að vera.
Að sögn Ingva Hrannars litu allskonar hugmyndir dagsins ljós. Dæmi um hugmyndir eru eftirfarandi: hitanlegur vatnsbrúsi, lautarrúlla, símahulstur, draumasæng, aðstoðarleikari, súperhlaðari, driftskaftsrúllari, matargefari, vatnshreinsari, rúllustillingahnífur, flækjubursti, rafmagnsróla, hamstrapössunarpía, “finndu mig”, reiðhjólaþægindin, skrifborðsskipulagari, klikketa - umhverfisvæn raketta, pizzabíll, körfuhótel, þrifróbot, sjálfvökvari, íþróttaskóbursti, fiskamatari, ferðatöskubakpoki, tjaldpoki, ljósblýantur, vatnsvélmenni, snjallmun, ferðaWiFi, grisjugræjari, skannagleraugu, öryggismotta, bókageymari, bakpokinn mikli, hundakofi og naglavarnaður.
Nýsköpunarkeppnin er liður í aðgerðaráætlun sveitarfélagsins í kjölfar nýrrar Menntastefnu Skagafjarðar. Meginmarkmið menntastefnunnar er að skapa umgjörð um skólasamfélag þar sem börn og ungmenni í Skagafirði búa við framúrskarandi skilyrði til þroska og menntunar, þar sem þörfum hvers og eins er mætt á einstaklingsgrunni skv. hugmyndafræðinni menntun fyrir alla. Sköpun er einn af fimm lykilþáttum í stefnunni og í aðgerðaráætlun Menntastefnunnar í liðnum sköpun var m.a. að setja á fót nýsköpunarkeppni allra skóla í Skagafirði.
Nánar má lesa um Menntastefnu Skagafjarðar hér: http://skagafjordur.is/menntastefna og myndir af verkum nemenda hér fyrir neðan.