Fara í efni

Ráðningar hjá Skagafjarðarhöfnum og veitu- og framkvæmdasviði

10.01.2019
Sauðárkrókshöfn

Ráðið hefur verið í auglýstar stöður hafnarstjóra og yfirhafnarvarðar hjá Skagafjarðarhöfnum og í stöðu verkefnastjóra á veitu- og framkvæmdasviði.

Ráðning hafnarstjóra og yfirhafnarvarðar

Dagur Þór Baldvinsson hefur verið ráðinn í starf hafnarstjóra Skagafjarðarhafna frá 1. janúar sl.

Tvær umsóknir bárust um starfið.

Dagur Þór er menntaður sjávarútvegsfræðingur frá Háskólanum á Akureyri og hefur starfað sem yfirhafnarvörður hjá Skagafjarðarhöfnum frá desember 2016.

Helstu verkefni hafnarstjóra eru m.a. dagleg stjórnun á hafnarsvæðum, gerð og eftirfylgni með fjárhagsáætlun og umsjón með hafnarmannvirkjum. Hafnarstjóri sér um stefnumótun hafnanna og áætlanagerð, gæða- og þjónustustjórnun og markaðssetningu hafnanna.

 Pálmi Jónsson hefur verið ráðinn í starf yfirhafnarvarðar hjá Skagafjarðarhöfnum og mun hefja störf innan tíðar. 

Ein umsókn barst um starfið. 

Pálmi lauk 4. stigs skipstjórnarprófi árið 2006 og hefur 750kW vélavarðarréttindi auk þess að hafa sótt ýmis námskeið í tengslum við störf sín hjá Landhelgisgæslunni.  Pálmi hefur um 20 ára reynslu í sjómennsku, bæði á fiskiskipum og varðskipum.

Yfirhafnarvörður starfar m.a. við hafnsögu og leiðsögn skipa, öryggiseftirlit við höfn og sinnir ýmsum þjónustuverkefnum hafnarvarða. Yfirhafnarvörður er staðgengill hafnarstjóra.

 Ráðning verkefnastjóra á veitu- og framkvæmdasviði

Valur Valsson hefur verið ráðinn í starf verkefnastjóra á veitu- og framkvæmdasviði frá 1. janúar sl. 

Tvær umsóknir bárust um starfið. 

Valur er menntaður byggingatæknifræðingur frá Háskólanum í Reykjavík og hefur starfað sl. ár sem verkefnastjóri Nýsköpunarmiðstöðvar við FabLab á Sauðárkróki ásamt framleiðslu- og gæðastjórnun hjá Steinull hf. 

Valur mun sinna stýringu á ljósleiðaravæðingu í dreifbýli í Skagafirði sem er sameiginlegt verkefni Sveitarfélagsins Skagafjarðar og Mílu vegna landsátaksins Ísland ljóstengt sem styrkt er af ríkissjóði. 

Ráðningin er tímabundin til eins árs.

Sveitarfélagið Skagafjörður býður þá Dag, Pálma og Val velkomna til starfa.