Fara í efni

Tilkynning vegna breytinga á meðhöndlun úrgangs í Skagafirði

03.03.2023

Um áramót tóku gildi breytingar á lögum um meðhöndlun úrgangs á Íslandi sem hafa umtalsverð áhrif á sorphirðu um land allt. Breytingar eru einnig í vændum í Skagafirði á næstu vikum.

Með lögunum er m.a. innleitt samræmt flokkunarkerfi í fjóra úrgangsflokka; pappír og pappa, plastumbúðir, lífrænan eldhúsúrgang og almennt sorp. Samhliða verður tekið upp nýtt kerfi við innheimtu gjalda fyrir meðhöndlun úrgangs sem miðar að því að greitt sé fyrir það magn sem er hent (pay as you throw – borgað þegar hent er). Nú hefur einnig orðið sú breyting að sveitarfélög fá greitt frá Úrvinnslusjóði fyrir sérsöfnun á plasti, pappír og gleri. Sjóðurinn greiðir eftir því magni sem safnast af hverjum flokki og því skiptir miklu máli fyrir sveitarfélagið og íbúa þess að vel sé flokkað. Því betur sem flokkað er, því hærri upphæð verður greidd til sveitarfélagins úr sjóðnum, sem mun svo skila sér til baka til íbúanna með lækkun á sorphirðugjaldi. Ekkert er greitt fyrir úrgang sem fer í tunnuna fyrir almennt sorp og því afar mikilvægt að henda engu í hana sem hægt er að endurvinna.

Eins og kunnugt er bauð sveitarfélagið Skagafjörður út sorphirðu í héraðinu öllu á síðasta ári. Þar var innifalið að taka upp samræmda flokkun í dreifbýli sem og þéttbýli í anda niðurstöðu skoðanakönnunar meðal íbúa í dreifbýli þannig að heimilissorp í fyrrgreindum fjórum úrgangsflokkum verður sótt til allra heimila í Skagafirði. Þann 1. apríl nk. tekur Íslenska gámafélagið við sorphirðu í Skagafirði og um leið við breyttri og aukinni þjónustu.

Breytingin hjá okkur í Skagafirði verður sú að þrjár tunnur verða við hvert heimili, auk brúna hólfsins fyrir lífræna úrganginn (matarleifar), í stað tveggja. Nýjar tunnur verða afhentar á öll heimili, ein fyrir pappír og pappa, ein fyrir plastumbúðir og ein fyrir blandaðan úrgang, auk þess að haldið verður áfram með brúna hólfið fyrir lífrænan úrgang fyrst um sinn. Í framtíðinni má gera ráð fyrir því að brúna hólfið hverfi og brún tunna komi í stað þess. Stóra breytingin er því sú að ekki má lengur flokka pappír, pappa og plast í sömu tunnuna eins og gert hefur verið í þéttbýli Skagafjarðar um árabil.

Nú er komið að því að innleiða þetta samræmda flokkunarkerfi í Skagafirði. Tunnum verður dreift á heimili næstu daga og starfsfólk Íslenska gámafélagsins mun svo ganga í hús til að kynna íbúum nýja flokkunarkerfið. Hvetjum við íbúa til þess að taka vel á móti þeim og endilega spyrja spurninga sem upp kunna að koma. Flokkunarhandbók mun einnig berast með pósti á öll heimili í Skagafirði í næstu viku með nákvæmum upplýsingum um hvernig skal flokka, upplýsingum um grenndarstöðvar og móttökustöðvar, ásamt öðrum handhægum upplýsingum.

Áætun um dreifingu tunna er eftirfarandi:

Varmahlíð 7. mars

Hofsós 14. mars

Hólar og dreifbýli 15. til 24. mars

Sauðárkrókur 27. til 31. mars

Dagsetningar hvenær gengið verður í hús eftir svæðum er eftirfarandi:

11.–12. mars – þéttbýli

11.–15. mars – dreifbýli

Gengið verður í hús frá kl. 10 og fram eftir degi alla dagana.

Allar tunnur verða merktar með nýjum samnorrænum flokkunarmerkingum. Mikið af innfluttum vörum frá Norðurlöndunum eru merktar með þessum merkingum til þess að leiðbeina fólki við að flokka umbúðirnar.

Settar verða upp grenndarstöðvar á þéttbýlisstöðum í sveitarfélaginu til söfnunar á málmum, gleri og textíl. Öðrum flokkum á að skila á móttökustöðvar, en í sveitarfélaginu eru reknar þrjár móttökustöðvar. Þær eru Flokka á Sauðárkróki, Farga í Varmahlíð og móttökustöð á Hofsósi. Þar er tekið á móti öllum úrgangi og endurvinnsluhráefni. Íbúar skulu flokka úrganginn eins mikið og mögulegt er, áður en komið er á móttökustöðina, til þess að flýta afgreiðslu. Ekki er tekið á móti úrgangi í svörtum pokum heldur skal nota glæra poka. Þetta er gert til að koma í veg fyrir urðun á efni og hlutum sem hægt er að koma í betri farveg.

Starfsmenn móttökustöðva leiðbeina íbúum og rukka fyrir gjaldskylda flokka á opnunartímum. Allir sem greiða sorpgjald eða sorpeyðingargjald munu fá árlega rafrænt klippikort sem inniheldur losun á 4 m³ af gjaldskyldum úrgangi og verður hægt að nálgast klippikortin í væntanlegu smáforriti sveitarfélagsins. Til að komast inn á móttökustöðvar þurfa notendur að sýna klippikort. Einungis er klippt fyrir gjaldskyldan úrgang (almennt sorp) og tekið er á móti ógjaldskyldum úrgangi án klipps (endurvinnanlegum úrgangi eins og pappír og pappa, plasti, gleri o.s.frv.). Tilgangur klippikortsins er að flokkun verði markvissari og að kostnaður verði greiddur af þeim sem stofna til hans. Kortið veitir aðgang að svæðinu og því er nauðsynlegt er að hafa klippikortið meðferðis þegar farið er á gámasvæði, hvort sem um gjaldskyldan eða ógjaldskyldan úrgang er að ræða. Hvert klipp er upp á 0,25 m³ sem samsvarar 240 lítra heimilistunnu. Ef kortið dugir ekki út árið verður hægt að kaupa nýtt kort.

Mikilvægt er að flokka vel til endurvinnslu og reyna að minnka úrgang eftir bestu getu. Einnig er mikilvægt að endurvinnsluhráefni sé hreint svo það nýtist til endurvinnslu.

Við hvetjum alla íbúa til þess að kynna sér vel flokkunarhandbók með leiðbeiningum um flokkun sorps sem, eins og áður kom hér fram, verður borin út á öll heimili í Skagafirði í næstu viku. Einnig má nálgast bæklinginn á rafrænu formi með því að smella hér.

Nánari upplýsingar um flokkun sorps á íslensku, ensku og pólsku má finna hér á heimasíðunni undir flipanum þjónusta --> umhverfis og skipulagsmál --> sorpflokkun og hreinlætismál.