Fara í efni

Umhverfisdagar 2019 hefjast á morgun

14.05.2019

Umhverfisdagar Skagafjarðar 2019 hefjast á morgun miðvikudaginn 15. maí. Í ár eru 30 ár frá því að umhverfisdagar voru fyrst haldnir í firðinum. Íbúar eru hvattir til að hlúa að umhverfinu og er takmarkið að fá snyrtilegra og fegurra umhverfi. Mikilvægt er að íbúar, fyrirtæki og félagasamtök taki höndum saman, tíni rusl og snyrti til í og við lóðir sínar og á nærliggjandi opnum svæðum.

Skemmtilegur áskorandaleikur er hafinn milli fyrirtækja, stofnana og félagasamtaka þar sem aðilar fara út og tína rusl í kringum sig, setja mynd af sér á samfélagsmiðla og skora á önnur fyrirtæki, stofnanir eða félagasamtök að gera slíkt hið sama. Merkja þarf myndina með myllumerkinu #umhverfisdagar19 og mun sveitarfélagið deila áskorunum á facebooksíðu sveitarfélagsins.

Á morgun miðvikudag er fólk hvatt til að safnast saman og plokka. Eru allir hvattir til að taka þátt sama hvar þeir eru staðsettir í sveitarfélaginu. Safnast verður saman í stærstu þéttbýliskjörnunum eins og hér segir:

Sauðárkrókur - Sundlaug Sauðárkróks kl 17:00
Varmahlíð - Grunnskólinn í Varmahlíð kl 18:00
Hofsós - Grunnskólinn austan Vatna  kl 18:00

Hvetjum við alla sem fara út að plokka að taka mynd af sér og deila á samfélagsmiðlum undir myllumerkinu #umhverfisdagar19. Passa þarf að færslan sé opin svo hægt sé að sjá hana og deila henni.