Fara í efni

Atvinnu- og ferðamálanefnd

32003. fundur 14. mars 2003

Atvinnu- og ferðamálanefnd Sveitarfélagsins Skagafjarðar
fundur í Ráðhúsinu Sauðárkróki  14. mars 2003 kl: 10.00

DAGSKRÁ:
  1. Starf Invest í Skagafirði. Starfsmaður Invest í Skagafirði, Þorsteinn Broddason kemur á fundinn.
  2. Samstarf Sveitarfélagsins Skagafjarðar við fyrirtæki og skóla um þjálfun og verkefni iðnnema í Skagafirði.
  3. Rekstur Upplýsingamiðstöðvarinnar í Varmahlíð.
  4. Guðbjörg ferðamálafulltrúi fer yfir stöðu verkefna sem hún vinnur að fyrir sveitarfélagið.
  5. Önnur mál.
AFGREIÐSLUR:
  1. Atvinnu- og ferðamálanefnd bauð Þorsteinn Broddason starfsmann INVEST í Skagafirði velkominn til starfa. Þorsteinn fór yfir með nefndinni starf Iðnþróunarfélagsins í Skagafirði.
  2. Rætt var um Samstarf Sveitarfélagsins Skagafjarðar við Fjölbrautaskólann og fyrirtæki í Skagafirði um þjálfun og verkefni iðnnema í héraðinu. Atvinnu- og ferðamálanefnd samþykkti eftirfarandi tillögu sem lá fyrir fundinum:
Lagt er til að Sveitarfélagið Skagafjörður stofni sumarið 2003 til átaksverkefnis til að skapa iðnnemum fleiri tækifæri til að vinna að verkefnum á sínum sérsviðum hjá skagfirskum fyrirtækjum. Sveitarfélagið efnir til samstarfs við Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra og fyrirtæki í Skagafirði um þjálfun og verkefni nema í margvíslegum greinum iðnaðar í héraðinu. Sveitarfélagið leggur fram styrkupphæð gegn mótframlögum frá fyrirtækjum sem taka þátt í átaksverkefninu og miðast það við þriggja mánaða starfstímabil sumarið 2003. Leitað verður samstarfs við skagfirsk fyrirtæki um þátttöku í átaksverkefninu ásamt því að möguleikar iðnnema til starfa í Skagafirði verða rækilega kynntir í tengslum við verkefnið. Gert verður ráð fyrir að Sveitarfélagið muni verja allt að 1,3 mkr. í átaksverkefnið á árinu 2003 í verkefni sem spanni fjölbreytt svið iðnaðar í Skagafirði. Atvinnu- og ferðamálanefnd mun annast frekari skipulagningu átaksverkefnisins og úthlutun styrkja í samvinnu við Fjölbrautaskólann og fyrirtæki sem taka þátt í verkefninu.
Greinargerð með tillögunni:
Undirstaða öflugs og fjölbreytts iðnaðar í Skagafirði er vel menntað og þjálfað starfsfólk. Það er það stoðumhverfi sem fyrirtæki sækjast eftir til að geta vaxið og dafnað. Það er einnig það umhverfi sem fyrirtæki horfa til við staðarval á nýrri starfsemi. Mannauður er auðlegð hverrar byggðar. Markmið þessa átaksverkefnis er að stuðla að eflingu iðnaðar og iðnnáms í Skagafirði með því að veita ungu fólki enn frekari tækifæri til að hljóta þjálfun og taka þátt í verðmætasköpun á þeim sérsviðum sem það hefur valið sér í heimabyggð. Það að búa vel að fólki í iðnnámi er góð kynning fyrir þá möguleika sem Skagafjörður býður upp á og hvatning ungu fólki að finna sér starfsvettvang í héraðinu.
  1. Farið yfir málefni Upplýsingamiðstöðvarinnar í Varmahlíð. Ákveðið að afla frekari gagna varðandi starfsemina og gera drög að rekstraráætlun. Jafnframt verður grunnur lagður að starfseminni í ár. Ákveðið að Þorsteinn starfsmaður INVEST og Guðbjörg ferðamálafulltrúi vinni að málinu. Einnig munu fara fram frekari viðræður við Ferðamálaráð og Ferðamálasamtök Norðurlands vestra varðandi rekstur upplýsingamiðstöðvar á heilsársgrunni.
  2. Guðbjörg ferðamálafulltrúi fór yfir áhersluatriði í ferðaþjónustu á þessu ári ásamt stöðu kynningarmála og bæklingagerð. Unnið er að sameiginlegri kynningu fyrir Norðurland. Rætt var hvernig hægt er að auka upplýsingamiðlunina. Mikil umsvif verða áfram í fornleifarannsóknum og ýmsir möguleikar á að nýta það betur í ferðaþjónustu.
  3. Önnur mál. Rætt um stöðu tjaldsvæða í Varmahlíð, ákveðið að afla frekari upplýsinga um stöðu mála. Einnig að skoða þurfi leiðir til þess að lengja ferðatímabilið í Skagafirði.
Jón Garðarsson óskaði bókað: Undirritaður mótmælir harðlega vinnubrögðum meirihlutans við boðun fundar í Atvinnu og ferðamálanefnd. Enn á ný eru samþykktir sveitarfélagsins þverbrotnar þar sem fundur er boðaður of seint og án dagskrár. Það er lágmarkskrafa að fulltrúar í nefndum fái tækifæri til að kynna sér dagskrá í tíma og að samþykktir séu virtar.
Vegna bókunar Jóns óskaði Bjarni Jónsson bókað eftirfarandi: Fundartími þessa fundar var borinn undir og samþykktur af öllum nefndarmönnum með tveggja daga fyrirvara. Dagskrá ásamt tillögu sem lögð var fyrir fundinn barst og var rædd í síma við nefndarmenn deginum fyrir fund. Fundarboðun er í samræmi við samþykktir sveitarfélagsins.
Fleira ekki gert.
Fundinn sátu Bjarni Egilsson, Jón Garðarsson, Bjarni Jónsson, Þorsteinn Broddason og Guðbjörg Guðmundsdóttir
Fundargerð samþykkt.                    Bjarni Jónsson ritaði fundargerð