Atvinnu- og ferðamálanefnd
Atvinnu- og ferðamálanefnd Sveitarfélagsins Skagafjarðar
fundur í Ráðhúsinu Sauðárkróki 2. júní 2003 kl: 14.00
Dagskrá:
1. Markaðsskrifstofa Norðurlands
2. Rekstur Upplýsingamiðstöðvarinnar í Varmahlíð
3. Samstarf við Höfðahrepp og Blönduósbæ um gönguleiðir á Skaga.
4. Málefni Höfða á Hofsósi
5. Önnur mál
Afgreiðslur:
1. Markaðsskrifstofa Norðurlands
Þorsteinn Broddason atvinnuráðgjafi frá INVEST kynnti samantekt Markaðs- og þróunarsviðs um aðkomu Skagafjarðar að Markaðsskrifstofunni. Niðurstaða hans er sú að þátttaka í henni hafi ótvíræða kosti fyrir Skagafjörð en hinsvegar sé ýmislegt sem vanti inn í undirbúningsferlið. Markaðs- og þróunarsvið mælir því með því að Skagafjörður taki þátt í verkefninu en með þeim fyrirvörum að tekið verði tillit til ýmissa athugasemda frá Sveitarfélaginu Skagafirði.
Atvinnu- og ferðamálanefnd mælir með því að Sveitarfélagið Skagafjörður verði þátttakandi í Markaðsskrifstofu Norðurlands að ákveðnum skilyrðum uppfylltum.
Þau eru eftirfarandi:
unnin verði fullbúin viðskiptaáætlun fyrir Markaðsskrifstofu Norðurlands, þar sem verkefnið verði betur skilgreint, sett verði mælanleg markmið með starfi skrifstofunnar og nánar verði fjallað um hvernig henni verði stjórnað.
skýrt verði hvernig aðkoma einstakra ferðaþjónustuaðila verði hvað varðar kostnað og að fundað verði með þeim sem fyrst.
Nefndin mælir með því að Sveitarfélagið Skagafjörður bjóðist til þess að leggja til vinnuframlag starfsmanna Markaðs- og þróunarsviðs við gerð viðskiptaáætlunar sem metið verði sem hluti af framlagi sveitarfélagsins inn í Markaðsskrifstofuna.
Atvinnu- og ferðamálanefnd leggur því til við byggðaráð að Sveitarfélagið Skagafjörður verði þátttakandi í Markaðsskrifstofu Norðurlands að uppfylltum áðurnefndum skilyrðum.
2. Rekstur Upplýsingamiðstöðvarinnar í Varmahlíð
Áskell Heiðar, sviðsstjóri Markaðs- og þróunarsviðs sagði frá því að rekstur upplýsingamiðstöðvar í Varmahlíð sé í svipuðu horfi og á síðasta ári. Sviðstjóri kynnti hugmyndir sínar varðandi úttekt á framtíðarmöguleikum miðstöðvarinnar. Nefndin samþykkir að fela sviðstjóra að vinna áfram að málinu.
Sviðsstjóra falið að kanna möguleika á sölu á handverki frá óstofnuðum áhugahópi handverksfólks út að austan í upplýsingamiðstöðinni í Varmahlíð. Gengið verði til viðræðna við Alþýðulist um aðkomu þeirra að upplýsingamiðstöðinni.
3. Samstarf við Höfðahrepp og Blönduósbæ um gönguleiðir á Skaga.
Samþykkt að taka þátt í verkefninu og sviðsstjóri tilnefndur í vinnuhóp.
4. Málefni Höfða ehf.
Árni Egilsson fráfarandi framkvæmdastjóri og Þorsteinn Broddason atvinnuráðgjafi INVEST mættu á fundinn.
Árni kynnti stöðu Höfða ehf. en hann lætur nú af störfum sem framkvæmdastjóri fyrirtækisins. Reksturinn hefur verið í járnum síðustu ár en fyrirtækið vinnur m.a. úr byggðakvóta Skagafjarðar.
Sviðsstjóra Markaðs- og þróunarsviðs og atvinnuráðgjafa INVEST falið að vinna að málefnum fyrirtækisins með framtíðarrekstur í huga í samráði við hlutaðeigandi aðila og atvinnu- og ferðamálanefnd.
Árni vék af fundi.
5. Önnur mál:
Lenging ferðamannatímans.
Jón hvatti til þess að unnið verði sérstaklega að því að auka afþreyingarmöguleika á haustin og nefndi stóðréttir sérstaklega í því sambandi. Einnig nefndi hann opnunartíma sundlauga í tengslum við atburði.
Rætt var um leiðir til að lengja ferðamannatímabilið og hvernig sveitarfélagið gæti komið að því.
Jónsmessuhátíð í Hofsósi
Atvinnu- og ferðamálanefnd fagnar því frumkvæði sem Hofsósingar og nágrannar sýna með því að setja upp dagskrá um Jónsmessuhelgina. Nefndin samþykkir að veita aðstoð við undirbúning og kynningu.
Gistiaðstaða á Sauðárkróki
Þorsteinn ræddi áhyggjur sínar varðandi lítið framboð á gistirými á Sauðárkróki.
Fleira ekki gert.
Fundinn sátu Erna Baldursdóttir, Jón Garðarsson og Bjarni Jónsson, Áskell Heiðar Ásgeirsson, Þorsteinn Broddason og Árni Egilsson.
Áskell Heiðar Ásgeirsson, sviðsstjóri ritaði fundargerð
Fundargerð samþykkt.