Fara í efni

Atvinnu- og ferðamálanefnd

21. september 2004
ATVINNU- OG FERÐAMÁLANEFND SKAGAFJARÐAR
Fundur  – 21.09.2004
 
Fundur í Atvinnu- og ferðamálanefnd Skagafjarðar, haldinn í Ráðhúsinu á Sauðárkróki, þriðjudaginn 21.09.2004 kl. 15:30.
 
DAGSKRÁ:
1)      Samstarf við Orkuveitu Reykjavíkur um rannsóknir á nýtingu jarðhita til raforkuframleiðslu og fleiri nota í Skagafirði. Sigrún Alda formaður veitustjórnar og Páll veitustjóri koma á fundinn.
2)      Hugmyndir um uppbyggingu á leiðsögunámi í flúðasiglingum. Magnús Sigmundsson frá Ævintýraferðum kemur á fundinn.
3)      Kortlagning göngu og reiðleiða á Tröllaskaga og víðar – samstarf við önnur sveitarfélög á svæðinu.
4)      Heilsárs upplýsingamiðstöð fyrir Norðurland vestra í Skagafirði.
5)      Beiðni um styrk varðandi gerð viðskiptaáætlunar.
6)      Önnur mál.
 
AFGREIÐSLUR:
Formaður setti fund og bauð fundarmenn velkomna.
 
1)      Samstarf við Orkuveitu Reykjavíkur um rannsóknir á nýtingu jarðhita til raforkuframleiðslu og fleiri nota í Skagafirði. Sigrún Alda formaður veitustjórnar og Páll veitustjóri koma á fundinn.
Bjarni kynnti efni óformlegra viðræðna sem átt hafa sér stað við forsvarsmenn Orkuveitu Reykjavíkur varðandi mögulegt samstarf um rannsóknir og þróun varmaaflsvirkjana í Skagafirði.
Sigrún Alda kvaðst líta jákvæðum augum á viðræður við Orkuveituna og sagði það fagnaðarefni ef möguleikar væru á því að nýta jarðhita til atvinnusköpunar í auknum mæli.  Páll ræddi um þær rannsóknir sem farið hafa fram á svæðinu og þá möguleika sem liggja í jarðhita í Skagafirði.
 
Bjarni lagði fram eftirfarandi tillögu:
 
Tillaga:
Hafnar verði viðræður við Orkuveitu Reykjavíkur um samstarf varðandi rannsóknir á nýtingu jarðhita til raforkuframleiðslu og fleiri nota í Skagafirði. Bjarna Jónssyni formanni Atvinnu og ferðamálanefndar og Sigrúnu Öldu Sighvatsdóttur formanni Veitustjórnar Skagafjarðarveitna verði falið að vinna áfram að málinu.
 
Greinargerð
Miklir möguleikar eru fólgnir í frekari nýtingu jarðhita í Skagafirði þar með talið til raforkuframleiðslu. Víða í héraðinu má finna heitt vatn í jörðu og er það nú að mestu leyti notað til húshitunar, en einnig til ylræktar, ferðaþjónustu og fiskeldis. Á háhitasvæðum landsins er raforka framleidd með gufuafli en auka má verulega hagkvæmni varmaaflsvirkjana með því að nýta heita vatnið fyrst til rafmagnsframleiðslu áður en það er síðan tekið til annarra nota. Á lághitasvæðum, eins og í Skagafirði er hægt að beita aðferðum eins og  varmaskiptum þar sem heita vatnið er notað til að hita upp millivökva sem sýður við mun lægra hitastig en vatn. Rannsóknum og þróun á framleiðslu gufu og varmarafmagns hefur fleygt fram á síðustu árum og hefur Orkuveita Reykjavíkur verið þar í fararbroddi. Með þeim tækniframförum sem nú eiga sér stað verður orka framleidd með jarðhita æ samkeppnisfærari við vatnsaflsorku. Við það bætist að nýting jarðhita til raforkuframleiðslu er umhverfisvænni en vatnsaflsvirkjanir sem geta breytt ásýnd og umhverfi heilla héraða og takmarkað nýtingu náttúruauðlinda til annarrar atvinnustarfsemi auk óafturkræfra áhrifa á náttúru. Gríðarlegir möguleikar eru í því fólgnir fyrir Skagfirðinga að taka þátt í þróunarstarfi við margvíslega nýtingu jarðhita þar með talið til raforkuframleiðslu. Samstarf við Orkuveitu Reykjavíkur er leið að því markmiði.
 
Nefndin samþykkir að hefja viðræður á grundvelli fyrirliggjandi tillögu.
 
2)      Hugmyndir um uppbyggingu á leiðsögunámi í flúðasiglingum. Magnús Sigmundsson frá Ævintýraferðum kemur á fundinn.
Magnús fjallaði um löggilt nám og þjálfun á leiðsögumönnum í flúðasiglingum og nauðsyn þess að taka upp þess háttar þjálfun hérlendis.  Fyrirtækið hefur nú stundað flúðasiglingar í áratug og síðustu ár með erlendum leiðsögumönnum.  Ævintýraferðir fengu nýverið í samvinnu við Hólaskóla styrk til að hefja vinnu við þróun þessa náms.
Nefndin lýsir ánægju með verkefnið og telur að það geti orðið mikilvæg viðbót við það ferðamála- og útivistarnám sem þegar er í Skagafirði.
 
3)      Kortlagning göngu og reiðleiða á Tröllaskaga og víðar – samstarf við önnur sveitarfélög á svæðinu.
Rætt um útgáfu á göngu- og reiðleiðakortum af Tröllaskaga en fyrsta kortið mun vera í prentun.
Sviðsstjóra falið að senda erindi á nágrannasveitarfélög á Tröllaskagasvæðinu varðandi samvinnu um kortagerð þar.
 
4)      Heilsárs upplýsingamiðstöð fyrir Norðurland vestra í Skagafirði.
Rætt um starf næstu mánaða, skipulagning opnunarfunda er í vinnslu.
 
5)      Beiðni um styrk varðandi gerð viðskiptaáætlunar.
Samþykkt að styrkja gerð viðskipaáætlunar sem Frosti Eiðsson vinnur um kr. 125.000.  Efni áætlunarinnar er trúnaðarmál á þessu stigi.
 
6)      Önnur mál.
Voru engin.
Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 17:30.
Fundinn sátu Gísli Sigurðsson, Jón Garðarsson, Bjarni Jónsson og Áskell Heiðar Ásgeirsson sem ritaði fundargerð. 
Fundargerð lesin upp og samþykkt.