Fara í efni

Atvinnu- og ferðamálanefnd

29. mars 2006
 
Atvinnu- og ferðamálanefnd Skagafjarðar
Fundur  – 29.03. 2006

Atvinnu- og ferðamálanefnd Skagafjarðar, fundur í Ráðhúsinu á Sauðárkróki,
þriðjudaginn 29.03.2006, kl. 8:30.

DAGSKRÁ:
1)        Háhraðatengingar í dreifbýli Skagafjarðar
2)        Rýmkuð opnun sundlaugarinnar á Sauðárkróki í þágu ferðaþjónustu
3)        Jafnréttisáætlun
4)        Víkingahátíð á Sauðárkróki
5)        Svar SSNV við erindi
6)        Svar Landsmóts ehf. við erindi
7)        Alþýðulist
8)        Erindi frá Jónsmessuhátíð í Hofsósi
9)        Önnur mál
 
 
AFGREIÐSLUR:
1) Háhraðatengingar í dreifbýli Skagafjarðar
Atvinnu- og ferðamálanefnd fagnar því frumkvæði sem stjórn Skagafjarðarveitna sýnir með því að taka upp viðræður við eigendur Fjölnets hf. um stofnun Gagnaveitu Skagafjarðar sem hefði það að markmiði að bæta aðgengi íbúa í Skagafirði að háhraðatengingum og þeim möguleikum sem þeim fylgja. 
Gert er ráð fyrir því í hugmyndum um Gagnaveitu Skagafjarðar að fyrsti áfangi snúi að Sauðárkróki.
Atvinnu- og ferðamálanefnd samþykkir að leita nú þegar eftir samstarfi við væntanlega eigendur Gagnaveitu Skagafjarðar um uppbyggingu háhraðatenginga í dreifbýli í Skagafirði og að lagðar verði til verkefnisins allt að þremur milljónum króna á þessu ári af lið 13090, önnur framlög til atvinnumála.
Hugað verði sérstaklega að því að tengja verkefnið fyrirhuguðu átaksverkefni Samgönguráðaneytisins um eflingu háhraðatenginga í dreifbýli.
Sviðsstjóra falið að vinna að nánari útfærslu málsins.
                       
2) Rýmkuð opnun sundlaugarinnar á Sauðárkróki í þágu ferðaþjónustu
Lagt fram minnisblað frá sviðsstjórum Fjölskyldu- og þjónustusviðs og Markaðs- og þróunarsviðs þar sem farið er fram á að nefndin greiði kr. 50.000 til tímabundinnar rýmkunar á opnunartíma Sundlaugarinnar á Sauðárkróki vegna páskadagskrár á skíðasvæðinu í Tindastól.
Nefndin samþykkir að styrkja verkefnið en beinir því til Félags- og tómstundanefndar að heilstæð stefna verði mörkuð varðandi þjónustu sundlaugarinnar á Sauðárkróki, einkum varðandi þjónustu við ferðafólk sem sækir Skagafjörð heim t.d. á skíðasvæðið og vegna viðburða.
           
3) Jafnréttisáætlun
Rætt um drög að jafnréttisáætlun sveitarfélagsins sem vísað var til nefndarinnar frá Félags- og tómstundanefnd. 
Nefndin beinir því til Félags- og tómstundanefndar að við endurskoðun á Jafnréttisstefnu Sveitarfélagsins Skagafjarðar verði sérstök áhersla lögð á að eyða kynbundum launamun, sömu laun verði greidd fyrir sambærileg störf og að kynin hafi jafna möguleika varðandi framgang í starfi.  Ennfremur verði hugað sérstaklega að frumkvöðlastarfi kvenna og að því að jafna hlut kynjanna í einstökum starfsgreinum.  Nefndin bendir einnig á að með markvissum aðgerðum til að auka fjölbreytni atvinnulífs megi ennfremur stuðla að jöfnum tækifærum kynjanna. 
 
4) Víkingahátíð á Sauðárkróki
Jón Daníel Jónsson frá Kaffi Krók kom til fundar og kynnti Víkingahátíð sem hann mun halda á Sauðárkróki í júní n.k.
 
5) Svar SSNV við erindi
Lagt fram svar frá framkvæmdastjóra SSNV þar sem hann verður við erindi nefndarinnar um að Þorsteinn Broddason atvinnuráðgjafi fari á sýningu um trefjaiðnað í París.
 
6) Svar Landsmóts ehf. við erindi nefndarinnar
Lagt var fram svar Landsmóts ehf. við erindi Atvinnu- og ferðamálanefndar þar sem nefndin hvatti skipuleggjendur Landsmóts til að kanna vel möguleika og kosti þess að veitingaaðilar í Skagafirði sjái um veitingasölu á Landsmótinu.
Landsmót ehf. segist hafa tekið þá ákvörðun að semja við einn aðila um veitingasölu á mótinu og segir jafnframt að skv. þeirra ráðgjöfum séu aðeins 3-5 aðilar á landinu sem hafi bolmagn og reynslu til slíkra verka.
Nefndin þakkar fyrir skjót svör við erindinu en bendir jafnframt á að nýverið voru haldin tvö mjög fjölmenn landsmót UMFÍ hér í Skagafirði þar sem veitingaaðilar á svæðinu önnuðust alla veitingasölu.  Framkvæmd þeirrar veitingasölu þótti takast einstaklega vel.  Sú ráðgjöf sem Landsmót ehf. vísar til nær því skammt að þessu leiti. 
Því harmar nefndin að möguleikar og kostir þess að veitingaaðilar í Skagafirði sjái um veitingasölu á Landsmótinu hafi ekki verið skoðaðir og hvetur til þess að staðið verði með öðrum hætti að málum í aðdraganda næstu móta sem haldin verða hér í Skagafirði.
 
7) Alþýðulist
Tekið fyrir erindi frá Alþýðulist sem vísað var til nefndarinnar frá Fræðslu- og menningarnefnd.           
Samþykkt að styrkja handverksfólk í Alþýðulist um kr. 120.000 til að koma sér upp innréttingum og tækjum í varanlegum sýningabás sem þau munu nota til að kynna og selja skagfirskt handverk innan og utan Skagafjarðar.
 
 
8) Erindi frá Jónsmessuhátíð í Hofsós
Lagt fram erindi frá aðstandendum Jónsmessuhátíðar í Hofsósi.  Nefndin samþykkir að styrkja verkefnið um kr. 100.000 og hvetur forráðamenn jafnframt til þess að láta styrktaraðila getið í sínu kynningarefni.
Jón Garðarsson óskar bókað að hann taki ekki þátt í afgreiðslu málsins.
 
9) Önnur mál
Sviðsstjóri sagði frá væntanlegri kynningu á vegum Markaðsskrifstofu ferðamála á Norðurlandi í Danmörku í næstu viku.
 
 
Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 11:00
Fundinn sátu Gísli Sigurðsson, Jón Garðarson, Bjarni Jónsson og Áskell Heiðar Ásgeirsson sem ritaði fundargerð. 
 Fundargerð lesin upp og samþykkt.