Byggðarráð Svf. Skagafjarðar
Byggðarráð Skagafjarðar
Fundur 215 – 19.03. 2003
Fundur 215 – 19.03. 2003
Ár 2003, miðvikudaginn 19. mars, kom byggðarráð saman til fundar í Ráðhúsinu kl. 1000.
Mættir voru: Gísli Gunnarsson, Bjarni Jónsson, Gunnar Bragi Sveinsson auk sveitarstjóra Ársæls Guðmundssonar.
DAGSKRÁ:
1. Dagvistun aldraðra – fjölgun dagvistunarrýma
2. Menningarhús í Skagafirði
3. Styrkumsókn vegna íþróttasvæðisins á Hofsósi
4. Umsókn um styrk vegna reiðkennslu fatlaðra
5. Undirskriftarlisti vegna frágangs leiksvæðis
6. Mótframlag sveitarfélagsins vegna tækjakaupa Heilbrigðisstofnunarinnar á árinu 2002
7. Bréf frá Glaðheimum vegna viðhalds
8. Tillögur frá Gunnari Braga Sveinssyni
9. Málefni Kolkuóss
AFGREIÐSLUR:
1. Lagt fram bréf frá Gunnari M. Sandholt, sviðsstjóra fjölskyldu- og þjónustusviðs, þar sem óskað er eftir auknu framlagi til dagvistunar aldraðra umfram fjárhagsáætlun 2003, en heimild hefur fengist frá heilbrigðis-og tryggingamálaráðherra til að fjölga dagvistarrýmum um þrjú.
Byggðarráð samþykkir að heimila hækkun á fjárhagsramma félagsmála um kr. 300.000 vegna þessa. Þessi aukning verður tekin af liðnum óvænt útgjöld aðalsjóðs.
2. Rætt um menningarhús í Skagafirði.
Byggarráð samþykkir að senda menntamálaráðherra bréf um menningarhús í Skagafirði og afrit til þingmanna Norðvesturkjördæmis. Jafnframt verði fenginn fundur með menntamálaráðherra í næstu viku um málið.
3. Lagt fram bréf frá Ungmennafélaginu Neista á Hofsósi, dagsett 14. mars 2003, þar sem sótt er um styrk til að klára íþróttasvæðið á Hofsósi.
Byggðarráð sér sér ekki fært að hækka þá fjárhæð sem áætluð er til íþróttasvæðisins á fjárhagsáætlun 2003.
4. Lagt fram bréf frá Iðju-Hæfingu, dagsett 17. mars 2003, þar sem óskað er eftir aukningu á tímum sem sveitarfélagið hefur yfir að ráða í reiðhöllinni Svaðastöðum, til reiðþjálfunar fatlaðra.
Byggðarráð tekur jákvætt í erindið og samþykkir að vísa erindinu til félags- og tómstundanefndar.
5. Lagður fram undirskriftarlisti þar sem óskað er eftir að svæði á milli Skagfirðingabrautar og Hólavegs verði betur nýtt en nú er og að leiktæki á leikvellinum verði endurnýjuð.
Byggðarráð samþykkir að vísa erindinu til skipulagsnefndar.
6. Lagt fram bréf frá Heilbrigðisstofnuninni á Sauðárkróki, dagsett 14. mars 2003, þar sem tíundaðar eru fjárveitingar til tækjakaupa á árinu 2002. Hlutur sveitarfélagsins er kr. 2.695.000.
Byggðarráð samþykkir þátttöku í þessum útgjöldum og að þau verði færð á árið 2002.
7. Lagt fram bréf frá leikskólastjóra Glaðheima, dagsett 13. mars 2003, varðandi viðhaldsmál leikskólans.
Byggðarráð samþykkir að vísa erindinu til fjárhagsáætlunar næsta árs.
8. Gunnar Bragi Sveinsson leggur fram eftirfarandi tillögur:
“Sveitarstjórn samþykkir að óska eftir viðræðum við Hring hf., Rafmagnsveitur ríkisins og Fjárfestingarstofu iðnaðarráðuneytisins um að haldið verði áfram með vinnu þá sem Hringur hf. hafði forystu um, um leit að hentugum iðnaðar- og/eða iðjukostum fyrir Skagafjörð. Oddvitum allra flokka í sveitarstjórn verði falið að ganga til þessara viðræðna.”
Greinargerð:
Á undanförnum árum hefur mikil vinna verið unnin af Hring hf. fyrir sveitarfélagið, Rafmagnsveitur ríkisins og Fjárfestingarstofu iðanaðarráðuneytins í leit að iðnaðar- og/eða iðjukostum fyrir Skagafjörð. Vinna við þetta verkefni var langt komin og því afar áhugavert að halda henni áfram. Ljóst er að uppbygging iðnaðar getur skipt lítil og stór sveitarfélög miklu. Það má glöggt sjá af framkvæmdum í Fjarðabyggð og þeirri bjartsýni sem ríkir meðal íbúa þess sveitarfélags. Því er það mat undirritaðra að brýnt sé fyrir Skagfirðinga að halda áfram þeirri vinnu sem hér hefur verið tíunduð.
Byggðarráð samþykkir að fresta afgreiðslu þessarar tillögu þar til búið er að funda með nágrannasveitarfélögunum um atvinnumál.
“Undirritaður leggur til að aðalmenn í byggðaráði fundi með þeim starfsmönnum sveitarfélagsins sem sagt var upp fyrir skömmu. Fundinum verði komið á hið fyrsta.”
Greinargerð:
Í bréfi formanns Starfsmannafélags Skagafjarðar dags. 11. mars sl., til sveitarstjóra kemur fram að; “Talsverður uggur og óvissa ríki meðal starfsmanna varðandi stöðu sína í framtíðinni.” Framhjá þessu verður ekki horft því eitt það mikilvægast í starfsemi hvers sveitarfélags eru starfsmenn þess. Því er lagt til að aðalmenn í byggðaráði hitti starfsmennina og ræði þá óvissu sem skapast hefur meðal þeirra.
Bókun byggðarráðs: Engum starfsmanni í SFS hefur verið sagt upp störfum hjá sveitarfélaginu, hins vegar hefur þeim verið tilkynnt um endurskoðun á ráðningarsamningi og telur byggðarráð þá vinnu vera í eðlilegum farvegi.
Gunnar Bragi Sveinsson óskar bókað að hann sitji hjá við þessa afgreiðslu.
“Undirritaður leggur til að Samgöngunefnd verði falið að gera athugun á kostnaði við gerði sjósetningarbrautar fyrir smábáta við Sauðárkrókshöfn. Skilað verði minnisblaði um verkið til byggðaráðs hið fyrsta.”
Greinargerð:
Tillaga skýrir sig sjálf. Bæta þarf aðstöðu smábátaeigenda.
Byggðarráð samþykkir að vísa tillögunni til samgöngunefndar.
9. Erindi vegna Kolkuóss sem vísað var til byggðarráðs frá sveitarstjórn 18. mars sl. rædd.
Byggðarráð samþykkir tillögu sveitarstjóra frá sveitarstjórnarfundi 18. mars sl.
Gunnar Bragi Sveinsson leggur fram eftirfarandi bókun:
“Svæði það sem á skipulagstillögum er skipulagt sem sorpvinnslusvæði og lóðir fyrir iðnaða- og/eða iðjukosti er gríðalega dýrmætt framtíð Skagafjarðar. Því er afar mikilvægt að á þetta svæði og í nágrenni þess komi starfsemi sem ekki hamli notkun svæðisins sé horft til framtíðar. Því óskar undirritaður eftir því að eftirfarandi fyrirvarar verði settir í leigusamning Sveitarfélagsins Skagafjarðar og Kolkuós ses. vegna leigu á landi í og við Kolkuós.
- Landið sem um ræðir verði skilgreint nánar og staðsetning þess sýnd nákvæmlega á korti/loftmynd með númeruðum staðsetningarpunktum.
- Forsvarsmenn Kolkuós ses eða aðrir sem kunna að nýta umrætt svæði skrifi undir yfirlýsingu þess efnis að þeir geri sér grein fyrir því að á skipulagi er gert ráð fyrir sorpurðunarsvæði í nágrenni þess svæðis sem þeir hyggjast taka á leigu. Þeir gefi jafnframt yfirlýsingu þess efnis að þeir muni ekki undir nokkrum kringumstæðum gera athugasemdir við ákvörðun um að urða sorp á fyrirhuguðu svæði, verði um það tekin ákvörðun.
- Forsvarsmenn Kolkuós ses eða aðrir sem kunna að nýta umrætt svæði skrifi undir yfirlýsingu þess efnis að þeir geri sér grein fyrir því að á skipulagi er gert ráð fyrir iðnaðar- og iðjulóðum í nágrenni þess svæðis sem þeir hyggjast taka á leigu. Þeir gefi jafnframt yfirlýsingu þess efnis að þeir muni ekki undir nokkrum kringumstæðum gera athugasemdir við ákvörðun um uppbyggingu iðnaðar- eða iðjukosta í nágrenni þess svæðis sem þeir fá á leigu.
- Að notkun svæðisins verði nákvæmlega skilgreind í aðalskipulagi.
Fleira ekki gert, fundargerð upplesin og samþykkt, fundi slitið kl.1157