Fara í efni

Byggðarráð Svf. Skagafjarðar

897. fundur 20. janúar 2020 kl. 11:30 - 12:10 að Sæmundargötu 7a
Nefndarmenn
  • Stefán Vagn Stefánsson formaður
  • Gísli Sigurðsson varaform.
  • Bjarni Jónsson aðalm.
  • Ólafur Bjarni Haraldsson áheyrnarftr.
Starfsmenn
  • Friðrik Margeir Friðriksson sviðsstjóri stjórnsýslu- og fjármálasviðs
  • Sigfús Ingi Sigfússon sveitarstjóri
  • Laufey Kristín Skúladóttir
Fundargerð ritaði: Margeir Friðriksson sviðsstjóri stjórnsýslu- og fjármálasviðs
Dagskrá

1.Borgarey 146150

Málsnúmer 1411097Vakta málsnúmer

Jörðin Borgarey, F2140930, var auglýst til sölu í upphafi árs 2020 og tilboðsfrestur gefinn til 14. janúar 2020. Fasteignasala Sauðárkróks ehf. er umsjónaraðili með sölu jarðarinnar.
Sjö tilboð bárust í jörðina.
Byggðarráð samþykkir að taka tilboði hæstbjóðanda, Hestasport-ævintýraferðir ehf.

2.Samráð; Frumvarp til laga um Hálendisþjóðgarð

Málsnúmer 1911160Vakta málsnúmer

Lögð fram sameiginleg umsögn Húnavatnshrepps, Húnaþings vestra, Sveitarfélagsins Skagafjarðar og Akrahrepps við frumvarp til laga um Hálendisþjóðgarð, sbr. kynningu málsins á samráðsgátt stjórnvalda. Sveitarfélögin hafa fjallað um málið á fyrri stigum og eru fyrri bókanir og umsagnir fylgiskjöl með umsögn þessari.
Frumvarp til laga um Hálendisþjóðgarð er kynnt samhliða frumvarpi til laga um Þjóðgarðsstofnun og þjóðgarða. Í því frumvarpi koma fram meginreglur um þjóðgarða sem gilda myndu um hálendisþjóðgarð og nær umsögnin jafnframt til þess frumvarps. Sveitarfélögin eru landstór. Mörk þeirra liggja á Langjökul, Hofsjökul og Kjöl og ná yfir víðáttumikil landsvæði innan miðhálendisins. Tillögur nefndar um undirbúning Miðhálendisþjóðgarðs hafa gert ráð fyrir að stór landsvæði sveitarfélaganna falli innan þjóðgarðs. Málefnið varðar sveitarfélögin og íbúa þess miklu. Svæði sem lagt hefur verið til að falli innan þjóðgarðs hafa verið í umsjón sveitarfélaganna vegna nálægðar og stöðu afréttarmálefna síðustu árhundruð. Á síðustu áratugum hefur ábyrgð og umsjón sveitarfélaga verið formfest með auknu stjórnsýslulegu hlutverki, t.d. á sviði skipulagsmála.
Sveitarfélögin leggjast gegn framgangi frumvarpsins í núverandi mynd.

Umsögnin í heild sinni verður birt á heimasíðu sveitarfélagsins.
Byggðarráð samþykkir umsögnina með tveimur atkvæðum Stefáns Vagns Stefánssonar (B) og Gísla Sigurðssonar (D). Ólafur Bjarni Haraldsson (BL) óskar bókað að hann styðji framangreinda umsögn.

Bjarni Jónsson (Vg og óháð) óskar bókað að Vg og óháð standi ekki að umsögninni og bókar eftirfarandi:
Miðhálendisþjóðgarður sem er í stjórnarsáttmála núverandi ríkisstjórnar stuðlar að náttúrvernd á einstöku svæði sem geymir ósnortnar vistgerðir fágætan gróður og dýralíf og sérstæðar jarðmyndanir. Hann yrði sá stærsti í Evrópu með tilheyrandi aðdráttarafli. Rannsókn sem gerð hefur verið á 12 svæðum hérlendis sýnir að beinn efnahagslegur ávinningur er ótvíræður af friðlýstum svæðum. Fyrir hverja krónu sem ríkið leggur til friðlýstra svæða skila að meðaltali 23 krónur sér til baka. Þjóðgarðurinn skapar störf bæði í þjónustu og landvörslu sem mikilvægt er tryggja að verði í heimabyggð. Leggja þarf áherslu á að unnið verði náið með heimamönnum í öllu ferlinu sem stjórnarflokkarnir þrír og ríkisstjórn tók ákvörðun um og hagsmuna heimafólks og sérstaklega bænda verði gætt í hvívetna.
Eins og dæmi sanna getur þjóðgarður rennt stoðum undir hefðbundna landnýtingu sem heimil er rétthöfum landsins. Í gegnum stjórnunar- og verndaráætlun fyrir þjóðgarðinn fara svæðisráð hvers svæðis með afskipti og stjórnun um þetta. Svæðisráðin móta einnig skipulagáætlanir. Svæðisráðin eru að meirihluta fjölskipuð af heimafólki. Ástæða er þó til að leggja áherslu á að skipulagsvald sveitarfélaga og aðkoma þeirra að ákvarðanatöku verði styrkt enn frekar og tryggt í lögum og reglugerðum sem á þeim byggja, forræði heimamanna á svæðum sem um ræðir og að stjórn, stjórnsýsla og störf sem af starfsemi þjóðgarðs leiða, verði að mestu leiti staðsett í þeim héruðum sem land eiga að þjóðgarðinum.

Fundi slitið - kl. 12:10.