Fara í efni

Félags- og tómstundanefnd Svf. Skagafjarðar

38. fundur 27. apríl 2004
Félags- og tómstundanefnd Skagafjarðar
Fundur 38 –  27.04.2004
 
Ár 2004, þriðjudag 27. apríl kl. 16.00, verður haldinn fundur í Félags- og tómstunda­nefnd í Ráðhúsi Skagafjarðar.
Mættir: Ásdís Guðmundsdóttir, Þórdís Friðbjörnsdóttir og Harpa Kristinsdóttir. Af hálfu starfsmanna:  Hrafnhildur Guðjónsdóttir, María Björk Ingvadóttir, Rúnar Vífilsson og Gunnar Sandholt, sem ritaði fundargerð.
 
dagskrá:
Tómstundamál
1.      Skipan starfshóps til að fjalla um “Hús frítímans”
 
Íþróttamál
2.      Umsjón íþróttaleikvangsins á Sauðárkróki
3.      Málefni íþróttavalla utan Sauðárkróks, Hofsós, Hólar, Varmahlíð og Steinsstaðir
4.      Sparkvellir, samstarfsverkefni sveitarfélaga og Knattspyrnusambands Íslands
5.      Erindi frá knattspyrnudeild Tindastóls vegna stúkubyggingar
6.      Bréf frá Neista – styrkumsókn vegna húsnæðis
7.      Áheyrnarfulltrúar á fundum nefndarinnar
8.      Reglur um úthlutun styrkja  til íþróttafélaga vegna íþróttaiðkunar barna og unglinga
 
Félagsmál
9.      Trúnaðarmál
10.  Endurmat samnings SFNV og félagsmálaráðuneytisins 2004
11.  Önnur mál
 
afgreiðslur:
1.      Félags- og tómstundanefnd ákveður að skipa starfshóp til að gera tillögur um starfsemi og rekstur “húss frítímans”, þ.e. menningar- og tómstundamiðstöðvar fyrir alla aldurshópa frá 13 ára og upp úr. Leitað skal eftir tilnefningu frá Félagi eldri borgara, Nemendafélagi Fjölbrautaskólans, samstarfsaðilum um forvarnarverkefnið “Geymslan”, Rauða Krossinum og Félagsmiðstöðinni. Félags- og tómstundanefnd skipar sjálf tvo fulltrúa úr sínum röðum auk æskulýðs- og tómstundafulltrúa, sem sér um að kalla hópinn saman og er ábyrgur fyrir að skila nefndinni áfangaskýrslu og endanlegum tillögum.
Æskulýðs- og tómstundafulltrúa og sviðsstjóra er jafnframt falið að leita að heppilegu húsnæði undir slíka starfsemi og eiga frumviðræður við eigendur um kaup eða leigu.

 
2.      Félags- og tómstundanefnd felur starfsmönnum að ganga til samninga við Viggó Jónsson um að annast vallarstjórn á íþróttaleikvanginum í sumar.
Nefndin óskar eftir tilnefningum í vallarráð samkvæmt fyrri bókun.
Félags- og tómstundanefnd samþykkir jafnframt að óska eftir viðræðum við íþróttahreyfinguna um framtíðarrekstur íþróttamannvirkjanna á Sauðárkróki og felur starfsmönnum að hefja þær hið fyrsta.

 
3.      Lögð fram drög að samningi við Neista um umsjón og umhirðu íþróttasvæðisins á Hofsósi. Drögin eru nokkuð samhljóða samningi frá s.l. ári.
Nefndin samþykkir samningsdrögin fyrir sitt leyti.
Starfsmönnum falið að gera tillögu að samningi við UMF Smára.
Lagt fram bréf frá UMF Hjalta dags. 23.04.04 varðandi styrk vegna vallarframkvæmda. Íþróttafulltrúa falið að ræða við forsvarsmenn Hjalta og gera tillögu til nefndarinnar.

 
4.      Lögð fram gögn frá KSÍ um sparkvelli og minnisblað frá fræðslu- og íþróttafulltrúa dags. 21.11.2003 um gervigrasvöll við Árskóla. Nefndinni hafa að auki borist tvö bréf um sama málefni. 
Nefndin samþykkir að sækja um til KSÍ að fá tvo sparkvelli í sveitarfélagið.

 
5.      Lagt fram bréf frá aðalstjórn UMF Tindastóls, þar sem fram kemur að félagið muni sjá um uppsetningu á áhorfendastúku við íþróttaleikvanginn  á Sauðárkróki.
Nefndin samþykkir að veita 415 þús. kr. af gjaldaliðnum 06-63 til að fjármagna sæti í stúkunni.

 
6.      Nefndin vísar erindinu til byggðarráðs sem gaf félaginu húsið.
 
7.      Félags- og tómstundanefnd samþykkir að óska eftir því við íþróttahreyfinguna að hún tilnefni áheyrnarfulltrúa á fundi nefndarinnar þegar fjallað er um íþróttamál. Þetta er gert í því skyni að bæta upplýsingaflæði milli hreyfingarinnar og nefndarinnar og gefa fulltrúum íþróttahreyfingarinnar kost á því að gera athugasemdir og gefa umsagnir um einstök mál. Ungmennafélagið Tindastóll skal tilnefna einn fulltrúa og UMSS einn.
 
8.      Félags- og tómstundanefnd samþykkir að endurskoða reglur um styrki til íþróttafélaga vegna íþróttaiðkunar barna og unglinga. Í því skyni og á grundvelli vinnureglna við úthlutun styrkja óskar nefndin eftir upplýsingum um barna- og unglingastarf síðasta árs, fjölda iðkenda, menntun þjálfara og fjölda æfinga. Endurskoðuninni skal lokið haustið 2004 og gert ráð fyrir því að unnið verði eftir nýjum reglum á næsta fjárhagsári og að styrkjum verði úthlutað samkvæmt því.
 
9.      Samþykkt 1 erindi í 2 málum og einu erindi synjað. Samþykkt erindi frá Starfsbraut FNV um félagslega liðveislu í skólaferðalagi, sjá trúnaðarbók.
 
10.  Lagt fram til kynningar.
 
11.  a) Lagðar fram til fróðleiks upplýsingar um fyrsta skíðamót landsins sem haldið var að Barði í Fljótum 1905 er keppt var í “brekkurennsli” af Barðshyrnu og niður á jafnsléttu. Keppendur voru 20 og stóðu 3 brekkuna. Trausti á Bjarnargili hefur varpað fram þeirri hugmynd að þessa atburðar verði minnst með viðeigandi hætti á aldarafmælinu.
b) Lögð fram umsókn frá Foreldrafélagi sykursjúkra barna og unglinga, dags. í apríl 2004. Samþykkt að veita 25.000 kr. styrk til sumarbúða vegna dvalar barns úr Skagafirði.
c) Lögð fram tilkynning um námskeið á vegum félagsmálaráðuneytisins um félagsþjónustu sveitarfélaga.


Fleira ekki gert, fundi slitið kl. 18.32