Landbúnaðarnefnd Svf. Skagafjarðar
Landbúnaðarnefnd Skagafjarðar
Fundur 71 – 19.03.2002
Dagskrá:
1. Fundarsetning
2. Refaveiði, sbr. bréf dags. 19.01.02
3. Bændur græða landið
4. Kláðaaðgerðir
5. Önnur mál
6. Staðarafréttur
AFGREIÐSLUR:
1. Þórarinn setti fund og kynnti dagskrá.
2. Þórarinn kynnti bréf, dags. 19.01.2002, undirritað af Birgi Haukssyni og Garðari Páli Jónssyni, þar eru gerðar athugasemdir við þær reglur er landb.nefnd samþ. og sendi út til veiðimanna þ. 19. des. sl.
Þórarinn kynnti svarbréf til þeirra félaga.
3. Bændur græða landið.
Þórarinn kynnti 2 bréf, dags. 28.01. og 21.02.2002, frá Landgræðslu ríkisins, þar sem farið er fram á að sveitarfélagið veiti styrk til samstarfsverkefnis um uppgræðslu heimalanda, sem landgræðslan hefur staðið fyrir.
Landbúnaðarnefnd lýsir ánægju sinni með verkefnið og telur að það hafi skilað árangri.
Ekki var gert ráð fyrir framlagi til þessa verkefnis í fjárhagsáætlun sveitarfélagsins 2002 og verður því ekki hægt að verða við þessari beiðni á þessu ári.
Bæði þessi bréf bárust til landbúnaðarnefndar frá skrifstofustjóra sveitarfélagsins (f.h. Byggðarráðs).
4. Kláðaaðgerðin.
Aðgerðin fór fram í sveitarfélaginu frá miðjum jan-febr. sl. Fjártala samkv. forðagæsluskýrslu haustið 2001. Sprautaðar voru 25.670 kindur á svæðinu. Aðgerðin tókst yfir heildina tekið vel. Tvísprautað var á 8 bæjum. Sótthreinsun fór fram jafnhliða sprautun og svo aftur 10 dögum síðar.
5. Önnur mál.
Kynnt yfirlit um girðingaúttekt í sveitarfélaginu haustið 2001. Úttekt var gerð á 139 jörðum er fengu greiddar kr. 3.207.451,-. Úttektarmenn voru frá Vegagerð Guðmundur Ragnarsson, rekstrarstjóri og Sigurður Haraldsson, þjónustufulltrúi sveitarfélagsins.
Þórarinn kynnti minnisblað frá fundi um beitarnýtingu í Hlíðarfjalli (Hofsafrétt)
6. Staðarafréttur.
Til fundarins voru nú mættar fjallskilastjórnir af eftirtöldum svæðum, sem upprekstur eiga á Staðarafrétti: Skarðshreppi, Sauðárkróki, Rípurhreppi, Staðarhreppi og úthl. Seyluhrepps. Þá var mættur til fundarins Bjarni Maronsson, fulltr. Landgræðslunnar.
Þórarinn bauð þessa fulltrúa velkomna til fundarins en tilefnið var að ræða ástand Staðarafréttar haustið 2001 sbr. úttekt sem fór fram 31. ágúst og 13. sept. svo og nýtingu afréttarins í framtíðinni. Þórarinn gaf síðan Bjarna Maronssyni orðið.
Bjarni tók nú til máls, hann gerði grein fyrir þeirri úttekt, sem fór fram á sl. hausti. Skýrslunni var dreift meðal fundarmanna.
Fram kom m.a. hjá Bjarna að beitarálag á Staðarafrétt er víða í efri mörkum og umráðamenn hennar þurfa að leggja áherslu á að viðhalda og efla þá auðlind, sem afréttur er. Leggja þarf m.a. áherslu á virka stýringu á upprekstrartíma og reyna að dreifa upprekstri á nokkurn tíma og koma fénaði vel inn á afréttinn, ekki skilja það eftir niður við girðingar. Þá hafði Bjarni áhyggjur af hrossabeitinni á svæðinu en þau eru samkv. skýrslunni um 600, benti á að fylgjast þurfi vel með ástandi afréttarins að hausti og benti á fjölmörg atriði, sem taka þyrfti til skoðunar. Vísast að öðru leyti til skýrslunnar.
Er Bjarni hafði lokið greinargóðu erindi um afréttarmálin var orðið gefið frjálst.
Til máls tóku: Stefán Reynisson, Jóhann Már Jóhannsson, Úlfar Sveinsson, Bjarni Jónsson, Jóhann Már Jóhannsson, Jónína Stefánsdóttir, Úlfar Sveinsson, Guðmundur Sveinsson, Andrés Helgason, Örn Þórarinsson, Úlfar Sveinsson, Jóhann Már Jóhannsson, Andrés Helgason, Jónína Stefánsdóttir.
Fram kom hjá þeim, sem tóku til máls, að nauðsyn væri að fylgjast vel með afréttinni og hafa stjórn á svæðinu. Ýmsar hugmyndir voru uppi og líflegar umræður. Allnokkrum spurningum var beint til Bjarna Maronssonar, sem hann svaraði greiðlega.
Hugmynd kom fram um að taka hross úr afrétti fyrr en verið hefur og finna beitiland fyrir þau í byggð, þar til þau væru tekin til réttar. Fylgjast þarf vel með því að fé standi ekki við afréttargirðingar á haustin. Fram kom að ástæða er til að vanda betur smölun bæði á sauðfé og hrossum.
Þórarinn þakkaði góðar umræður og hvatti fjallskilanefndir til að taka afréttarmálin til umfjöllunar og sleit síðan fundi kl. 16,00.
Sigurður Haraldsson ritar fundargerð