Fara í efni

Landbúnaðarnefnd Svf. Skagafjarðar

8. fundur 27. ágúst 1998

Landbúnaðarnefnd

Sameinaðs sveitarfélags í Skagafirði

Fundur 8 b – 27.08.98

 

Minnispunktar úr skoðunarferð

   Ár 1998, fimmtudaginn 27. ágúst, fór landbúnaðarnefnd í skoðunarferð á Mælifellsdal og Kiðaskarð.

Tilgangur ferðarinnar var m.a. að skoða girðingarstæði merkjagirðingar milli Mælifellsár og Reykjasels, sjá með eigin augum meintar landskemmdir í svonefndum Skeiðhvammi, sbr. bréf Margeirs á Mælifellsá þ. 09.97.98, kynna sér vegamál á Mælifellsdal. Fleira kom reyndar inn í þessa ferð, sem nánar verður sagt frá hér á eftir.

Nefndarmenn höfðu mælt sér mót á Varmalæk kl. 1300, þaðan var farið að Mælifellsá og Margeir bóndi tekinn með og síðan haldið áleiðis á Mælifellsdal og síðan á Kiðaskarðsveg, að Skeiðhvammi, en þar hefur átt sér stað breyting á árfarvegi, sem orsakaði landskemmdir. Rætt var um að koma ánni í sinn gamla farveg. Rétt þykir að geta um að Margeir bóndi telur sig eiga að fá greitt fyrir girðingu, sem hann girti við Mælifellsárbrú. Rætt var um þann möguleika að breyta vegatengingu af Mælifellsdal á Kiðaskarðsveg ofan Skeiðhvamms, með ca 200 m nýbyggingu vegar, menn sammála um að sú framkvæmd væri hagkvæm.

Skoðað var girðingarstæði á landamerkjum Mælifellsár og Reykjasels og Margeir bóndi gerði nefndarmönnum grein fyrir því hvað hið nýja sveitarfélag ætti í raun mikið landflæmi með eign þess í Reykjaseli. Þar sem stutt var leið upp á Þrándarhlíðarfjall var ekið þangað upp og notið þar útsýnis. Nefndarmenn skoðuðu síðan ástand vegar á Mælifellsdal og kynntu sér landamerki Reykjasels á Mælifellsdal.

Að aflokinni skoðunarferð var stefnan tekin á Bakkaflöt og þar innbyrtar kaffiveitingar, sem var öllum kærkomið eftir langa ferð. Á Bakkaflöt var mættur Sigfús Pétursson, fjallskilastjóri framhl. Seyluhrepps og stjórnarmaður í Uppr.fél. Eyvindarst.­heiðar. Hann gerði nefndarmönnum grein fyrir umfangi og rekstri Uppr.fél. Eyvindarst.h. í grófum dráttum og tilhögun fjallskila á svæðinu.

Frá Bakkaflöt var haldið að Mælifellsrétt. Þar var mættur Indriði bóndi á Hvíteyrum. Rætt var við Indriða um ýmis mál er varðaði Mælifellsrétt, girðingarhólf o.fl. Þá var og rætt um vegaviðhald á Mælifellsdal en vegurinn um dalinn neðst er í landi Hvíteyra. Hvíteyrar eiga síðan í óskiptu landi á dalnum. Indriði var ekki sáttur við Rallakstur sem átt hefur sér stað á dalnum.

Er hér var komið var liðið mjög á dag og allir tilbúnir að halda hver til síns heima því kl. var langt gengin í níu að kvöldi.


Ferðin var í alla staði lærdómsrík.

 
Bjarni Egilsson                      Sigurður Haraldsson

Þórarinn Leifsson

Símon E. Traustason

Smári Borgarsson