Landbúnaðarnefnd Svf. Skagafjarðar
Landbúnaðarnefnd
Sameinaðs sveitarfélags í Skagafirði
Fundur 14 – 05.10.98
Ár 1998, mánudaginn 5. okt. kl. 13,00, kom landbúnaðarnefnd saman til fundar í Hótel Varmahlíð. Mættir voru Bjarni Egilsson, Þórarinn Leifsson, Skapti Steinbjörnsson, Gunnar Valgarðsson, Smári Borgarsson og Sigurður Haraldsson, starfsmaður nefndarinnar.
Dagskrá:
- Fundarsetning.
- Veiðistjóri mætir til fundar.
- Samningur við dýralækna.
- Bjarni Bragason mætir til fundar.
- Önnur mál.
Afgreiðslur:
1. Bjarni Egilsson, formaður, setti fund og kynnti dagskrá.
2. Bjarni bauð velkominn til fundar Áka Ármann Jónsson, veiðistjóra og Bjarna Pálsson, starfsmann. Bjarni reifaði í stuttu máli ástæður þess að ofangreindir voru boðaðir til fundar hjá landbúnaðarnefnd, en það var hvernig standa bæri að eyðingu refa og minka, m.a. er varðaði vetrarveiðar og hvað skili bestum árangri. Veiðistjóri sagði frá starfsemi embættisins í stórum dráttum og þeim niðurskurði á fjármagni sem orðið hefur til stofnunarinnar, sem kemur fram í lægri endurgreiðslu til sveitarfélaga.
Allnokkrar umræður urðu varðandi veiðimálin almennt og menn skiptust á skoðunum um ýmis atriði. Fram kom hjá veiðistjóra að komnar eru á markað nýjar minkagildrur sem lofa góðu og ástæða til að kynna og taka í notkun.
Rætt var einnig allnokkuð um nýjar veiðiaðferðir varðandi refaveiðar og þá vernd, sem hið opinbera er að innleiða með friðun svæða. Þá varð mikil umræða um rannsóknir sem nú eru í gangi, vetrarveiðar og verðlagningu fyrir unnin dýr, fjölmörg atriði rædd er varðaði veiðar almennt bæði á ref og mink. Rætt var um að koma á fundi með grenjaskyttum og námskeiði fyrir minkaveiðimenn.
Umræður í alla staði mjög gagnlegar.
Bjarni þakkaði komumönnum fyrir komuna og góðar og gagnlegar umræður.
Viku þeir félagar nú af fundi.
3. Lagður fram samningur við dýralækna í Skagafirði um framkvæmd garnaveikibólusetningar og hundahreinsun í sveitarfélaginu.
Nefndarmenn samþykktu samninginn fyrir sitt leyti. (Vísast til samingsins.)
4. Bjarni bauð velkominn til fundar Bjarna Bragason, varaformann stjórnar Vindheimamela sf og greindi frá tilefni þess að Bjarni var boðaður á fund nefndarinnar, en það var að ræða um fyrirhugað Landsmót hestamanna 2002 og fyrirhugaðan fund með forsvarsmönnum hestamanna í Skagafirði, sem ákveðið er að halda 15. okt. n.k.
Allnokkur umræða varð um þessi atriði bæði og þá sérstaklega um fyrirhugað Landsmót og fjölmörg atriði rædd.
Vék nú Bjarni af fundi.
5. Önnur mál voru engin.
Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 17,45.
Skapti Steinbjörnsson Þórarinn Leifsson Sigurður Haraldsson
Smári Borgarsson Gunnar Valgarðsson
Bjarni Egilsson