Landbúnaðarnefnd Svf. Skagafjarðar
Landbúnaðarnefnd
Sameinaðs sveitarfélags í Skagafirði
Fundur 16 – 15.10.98
Ár 1998, fimmtudaginn 15. okt. kl. 20,30, var fundur settur og haldinn í Tjarnarbæ. Til fundarins var boðað af Landbúnaðarnefnd Skagafjarðar.
Til fundarins voru boðaðir forsvarsmenn hestamanna í Skagafirði, 2 fulltrúar frá hverju félagi, eða samtökum hestamanna í Skagafirði.
Bjarni Egilsson, formaður landbúnaðarnefndar, setti fund og bauð fundarmenn velkomna til fundar. Hann gerði tillögu um að Símon Traustason tæki að sér fundarstjórn og Sigurður Haraldsson ritaði fundargjörð.
Bjarni kynnti síðan dagskrá, er var:
- Landsmót hestamanna ár 2002.
- Staða hestamennsku og hrossaræktar í Skagafirði.
Símon tók nú við fundarstjórn.
1. Bjarni gerði grein fyrir tilefni fundarins í stuttu máli, hann las síðan upp bréf, dags. 27.05.1997, til Héraðsráðs Skagfirðinga, undirritað af Jóni Geirmundssyni f.h. Léttfeta og Ingimari Jónssyni f.h. Stíganda, bréfið varðaði landsmót hestamanna á Vindheimamelum árið 2002.
Bjarni ræddi erindi bréfsins svo og samþykkt Héraðsnefndar, dags. 26.06.1997, við því og sagði að landbúnaðarnefnd vildi fá nánari skilgreiningu á ósk félaganna, er varðaði erindi þeirra til Héraðsnefndar og hvernig þeir hugsuðu að sveitarfélagið kæmi að þessu máli.
Fundarmenn ræddu alm. um fyrirhugað landsmót og margvíslegan undirbúning þess og allir sammála um að halda landsmót í Skagafirði 2002.
Þá varð mikil umræða um samþykkt Héraðsnefndar og hvað í henni fælist. Þá ræddu menn nauðsyn þess að fram færi úttekt á mótssvæðinu á Vindheimamelum, hvað þyrfti að gera fyrir svæðið og hvaða kostnað væri þar um að ræða. Ræða þyrfti við landeiganda um endurskoðun samnings hið fyrsta.
Menn veltu því upp hvernig nota mætti mótssvæðið milli móta og þá aðstöðu sem gera þyrfti til þess að hægt væri að halda landsmót. Inn í þessa umræðu komu Hólar sem landsmótsstaður.
Fram kom hjá formönnum og forsvarsmönnum hestamannafélaganna að ekkert fjármagn er til í sjóðum félaganna til framkvæmda og þeir lýstu því yfir að félögin væru ekki tilbúin að taka á sig fjárskuldbindingar gagnvart Vindheimamelum.
Fundarmenn tóku allir þátt í umræðunni og skiptust á skoðunum og veittu upplýsingar um fjölmörg atriði.
Umræðan var frjálsleg og á stundum almennt spjall.
Helstu niðurstöður og áhersluatriði urðu þessi:
1) Fundarmenn sammála að halda landsmót í Skagafirði árið 2002.
2) Vindheimamelastjórn falið að hraða endurskoðun samnings Vindheimamela sf við
landeiganda varðandi mótssvæðið og aðstöðuna.
3) Vindheimamelastjórn hvött til að hraða úttekt og áætlun um kostnað við að koma á
landsmóti 2002 og niðurstöður lægju fyrir um n.k. áramót.
4) Koma þarf á umræðu um það hvernig sveitarfélagið kemur til með að koma að fjármögnun
og baktryggingu er varðaði framkvæmdaaðila mótsins, sbr. samþ. Héraðsnefndar
26.06.1997, og skilgreina þarf nánar óskir félaganna gagnvart sveitarfélaginu.
5) Skipa þarf framkvæmdanefnd og ráða framkvæmdastjóra, sem tæki til starfa í vetur.
2. Bjarni Egilsson hafði framsögu fyrir þessum dagskrárlið og kom víða við á sviði hrossaræktarinnar, hann taldi m.a, að Skagfirðingar gætu verið ánægðir með útkomu á síðasta landsmóti.
Hann velti upp þeim möguleika að Skagfirðingar fengju meira út úr stórhátíðinni við Laufskálarétt á sviði markaðssetningar og sölu.
Hann taldi að of mörg hross væru í högum í Skagafirði, sem enginn arður væri af. Menn ræddu hrossaræktina almennt og hvernig best væri að standa að málum.
Fram kom að hrossafjöldi í Skagafirði er áhyggjuefni og vandamál víða, ræktunarstarfi of lítið sinnt og hrossin því verðlaus víða í högum hjá bændum.
Þá varð mikil umræða um nauðsyn þess að koma upp reiðskemmu eða fjölnota sýningar- og æfingahúsi, sem væri mikið framfaraskref í aðstöðu til tamninga og námskeiðahalds og sýninga á hrossum, auk þess sem íþróttafélög og fyrirtæki gætu nýtt slíka aðstöðu til æfinga og sýninga. Gróðurverndarmál komu að sjálfsögðu inn í þessa umræðu alla og víða þarf að bæta þar úr með fækkun í högum.
Fundarmenn létu í ljós þakklæti til fundarboðenda fyrir mjög gagnlegan fund og töldu að stefna bæri að fleiri slíkum fundum með hrossaeigendum og bændum almennt.
Bjarni Egilsson þakkaði mönnum gagnlegan og góðan fund og Símon sleit síðan fundi kl. 11,45.
Nöfn þeirra er sátu fundinn, auk landb.n.
Frá Léttfeta Sveinn Guðmundsson, Jón Geirmundsson
Frá Stíganda Anna Jóhannesdóttir, Ingimar Jónsson
Frá Svaða Þorvaldur Gestsson, Sigurbjörn Þorleifsson
Vindheimamelar sf Bjarni Bragason, Sigurður Steingrímsson
Hrossar.samb. Skagafj. Bjarni Maronsson, Ingimar Ingimarsson
Hestaíþr.d. Skagafj. Vignir Sigurðsson, Hinrik M. Jónsson
Símon E. Traustason
Sigurður Haraldsson
Bjarni Egilsson
Þórarinn Leifsson
Smári Borgarsson
Skapti Steinbjörnsson