Landbúnaðarnefnd Svf. Skagafjarðar
Landbúnaðarnefnd Skagafjarðar
Fundur 31 – 16.02.1999
Ár 1999, þriðjudaginn 16.02. kl. 13,00, kom landbúnaðarnefnd saman til fundar í fundarsal Stjórnsýsluhússins á Sauðárkróki.
Mættir voru Bjarni Egilsson, Símon Traustason, Skapti Steinbjörnsson, Þórarinn Leifsson og Smári Borgarsson.
Dagskrá:
- Fundarsetning.
- Hugleiðingar um átak í bleikjueldi í Skagafirði.
- Búfjáreftirlit, greinargerð.
- Bréf frá B.S.S. um kortagerð.
- Önnur mál.
Afgreiðslur:
1. Bjarni formaður setti fund og bauð gest fundarins, Ólaf Sigurgeirsson, líffræðing hjá Hólaskóla velkominn til fundar.
2. Bjarni gaf Ólafi Sigurgeirssyni orðið. Nefndarmenn höfðu áður fengið punkta um bleikjueldi í Skagafirði, sem Ólafur hafði unnið fyrir landbúnaðarnefnd.
Ólafur skýrði fyrir nefndarmönnum möguleika til bleikjueldis í Skagafirði og brá upp skyggnum máli sínu til stuðnings. Þar kom fram kostnaður við framleiðslu, áætluð vatnsþörf, fóðurkostnaður, vaxtarhraði miðað við hitastig og fleira. Fram kom í máli Ólafs að heimsframleiðsla á bleikju er um 2000 tonn, þar af framleiðsla Íslendinga um 1000 tonn.
Menn töldu nauðsynlegt að gera úttekt á bleikjueldi í Skagafirði til stuðnings við annan landbúnað í héraðinu.
3. Greinargerð um búfjáreftirlit barst frá B.S.S. Þar segir að hey virðast yfirleitt í betra lagi að gæðum en magn í minna lagi. Þó er tæpast ástæða til að óttast heyleysi í héraðinu en þurft gæti að miðla heyi milli bæja.
4. Borist hafði bréf frá B.S.S. varðandi styrkumsókn til gerðar jarðakorta af heimalöndum jarða í Skagafirði.
Sveitarfélögin höfðu lagt fram fjármagn til verkefnisins áður en til sameiningar kom og er því verkefnið komið vel á stað.
Kort þessi eru forsenda landgræðsluverkefna, beitarlýsingar og vistvænnar vottunar framleiðslu á jörðunum. Kortin nýtast einnig vegna deiliskipulags á jörðunum þar sem þau eru skráð í G.I.S. kerfi. Landbúnaðarnefnd samþykkir beiðni Búnaðarsambands Skagfirðinga um 1.500.000 kr. styrk til kortagerðar af heimalöndum jarða í Skagafirði 1999.
Símon Traustason og Bjarni Egilsson viku af fundi við afgreiðslu þessa liðar.
5. Önnur mál voru ekki.
Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 17,15.
Smári Borgarsson Skapti Steinbjörnsson
Bjarni Egilsson Símon E. Traustason
Þórarinn Leifsson.