Fara í efni

Landbúnaðarnefnd Svf. Skagafjarðar

43. fundur 07. september 1999
Landbúnaðarnefnd Skagafjarðar
Fundur 43 – 07.09.1999

    Ár 1999, þriðjudaginn 7. september kl. 1030 kom landbúnaðarnefnd saman til fundar í Stjórnsýsluhúsinu á Sauðárkróki.
    Mættir voru: Bjarni Egilsson, Smári Borgarsson, Skapti Steinbjörnsson, Þórarinn Leifsson, Símon Traustason og Sigurður Haraldsson, starfsmaður.
DAGSKRÁ:
    1. Fundarsetning.
    2. Fjallskilanefnd Hóla- og Viðvíkurdeilda, og Haraldur í Enni mæta til fundar.
    3. Bréf er komið hafa.
    4. Önnur mál.
AFGREIÐSLUR:
  1. Bjarni formaður setti fund og kynnti dagskrá.
  2. Bjarni bauð velkomna til fundar fjallskilanefnd Hóla- og Viðvíkurdeildar þá Steinþór Tryggvason, Birgi Haraldsson og Sigurð Guðmundsson einnig Harald Þ. Jóhannsson Enni og Bjarna Maronsson fulltrúa landgræðslunnar. Bjarni gerði grein fyrir tilefni þess að ofantaldir voru boðaðir til fundar, en það var bréf dags. 23. júlí 1999, frá Haraldi í Enni er varðaði upprekstrarmál í Kolbeinsdal. Haraldur sættir sig ekki við þá úthlutun sem nú hefur tekið gildi og telur að honum beri úthlutun fyrir 2 jarðir þ.e.a.s. Enni og Læk. Bjarni ræddi innihald bréfsins og velti upp ýmsum möguleikum til lausnar, ræddi m.a. um ítölu og hvaða áhrif hún hefði. Fundarmenn ræddu málin frá ýmsum hliðum. Bjarni Maronsson fulltrúi landgræðslunnar tók til máls og ræddi málin. Landgræðslan hefur verið með rannsóknir í Kolbeinsdal og síðast var gerð úttekt 1997. Bjarni hafði óskað eftir við Rala að land yrði skoðað í Kolbeinsdal og las hann upp bréf frá Rala undirritað af Borgþóri Magnússyni. Þar kemur fram að dalurinn lítur ekki eins vel út og 1997, talið er óráðlegt að fjölga hrossum á landinu á næstu árum. Mælt er með að fjöldi hrossa verði þar óbreyttur áfram. Í slæmu árferði ber að seinka upprekstri hrossa á dalinn, eins og gert var í ár. Nauðsynlegt er að fylgjast áfram vel með ástandi lands í dalnum. Bjarni gerði grein fyrir áhrifum ítölu á afréttina og benti á að jarðirnar yrðu þá teknar til skoðunar í leiðinni. Miklar umræður fóru fram um upprekstrarmálin, sem snerust m.a. um það hvort Lækur ætti að fá upprekstrarrétt og úthlutun kvóta í hrossum. Fram kom að 150 hross eru í Ásgarðslandi. Bjarni Maronsson vék nú af fundi.
    Niðurstaða umræðnanna varð sú að landbúnaðarnefnd óski eftir lögfræðilegu áliti um rétt eyðibýla til upprekstrar. Þegar það álit liggur fyrir er hægt að svara bréfi Haraldar í Enni. Véku þeir nú af fundi fjallskilanefndarmenn og Haraldur.

  3. Bréf er borist hafa. Bjarni kynnti eftirfarandi bréf:
  1. Bréf dags. 30. júní 1999, undirritað af Jóhanni P. Jóhannssyni.
  2. Bréf dags. 6. september 1999, undirritað af sama. Þar er óskað eftir leigu á landi til slægju í landi Steinsstaða. Nefndin tekur jákvætt í erindið og felur Sigurði að ganga frá leigusamningi. Varðandi bréf dags. 30. júní 1999 er því vísað til Byggðarráðs. Bréfið var merkt sem trúnaðarmál. Sjá trúnaðarbók.
  3. Bjarni kynnti 3 leyfi til flutnings á heyi undirrituð af Sigurði Sigurðarsyni dýralækni Keldum. Um er að ræða flutning á 150 heyrúllum frá Lækjamóti í Miklaholtshreppi að Syðri- Hofdölum og flutning á 150 rúllum frá Stóru-Giljá, A-Hún. til Sveins Guðmundssonar Sauðárkróki, einnig flutning á 80 rúllum frá Vindheimum til Sveins Guðmundssonar Sauðárkróki. Landbúnaðarnefnd gerir ekki athugasemdir við leyfisveitinguna.
  4.      Önnur mál.
  1. Rætt um fyrirkomulag garnaveikibólusetningar og hundahreinsun.
  2. Rætt um málefni Skarðsár.
Fleira ekki gert, fundi slitið kl. 1430.
Bjarni Egilsson 
Smári Borgarsson
Skapti Steinbjörnsson
Þórarinn Leifsson
Símon E. Traustason
            Sigurður Haraldsson
../kb