Fara í efni

Ársreikningur 2007

Málsnúmer 0804089

Vakta málsnúmer

Byggðarráð Svf. Skagafjarðar - 431. fundur - 23.04.2008

Ársreikningur Sveitarfélagsins Skagafjarðar og stofnana þess fyrir árið 2007 lagður fram og kynntur. Nánari kynning fer síðan fram við fyrri umræðu í sveitarstjórn á næsta reglulegum fundi hennar en þá mun löggiltur endurskoðandi sveitarfélagsins, Kristján Jónasson fara yfir ársreikninginn, sundurliðanir og skýringar.
Samantekinn ársreikningur fyrir A og B hluta er með jákvæðri rekstrarniðurstöðu að upphæð 146,7 milljónir króna.
Byggðarráð samþykkir að vísa ársreikningnum til fyrri umræðu í sveitarstjórn.

Sveitarstjórn Sveitarfélagins Skagafjarðar - 227. fundur - 29.04.2008

Afgreiðsla 431. fundar byggðarráðs staðfest á 227. fundi sveitarstjórnar með níu atkvæðum.

Sveitarstjórn Sveitarfélagins Skagafjarðar - 227. fundur - 29.04.2008

Erindi vísað frá byggðaráði, 431. fundi dags. 23. apr. 2008.
Fyrri umræða um ársreikning Sveitarfélagsins Skagafjarðar og stofnana fyrir árið 2007. Kristján Jónasson endurskoðandi hjá KPMG Endurskoðun, Sauðárkróki, löggiltur endurskoðandi sveitarfélagsins, fór yfir og kynnti ársreikninginn á sérstökum fundi með sveitarstjórn, nefndaformönnum, sviðstjórum og forstöðumönnum rekstrareininga, sem haldinn var á undan sveitarstjórnarfundinum í dag.

Enginn kvaddi sér hljóðs.

Tillaga um að vísa ársreikningnum til síðari umræðu í sveitarstjórn samþykkt samhljóða.

Sveitarstjórn Sveitarfélagins Skagafjarðar - 228. fundur - 20.05.2008

Síðari umræða um ársreikning Sveitarfélagsins Skagafjarðar og stofnana fyrir árið 2007

Margeir Friðriksson, sviðsstjóri stjórnsýslu- og fjármálasviðs, staðgengill sveitarstjóra, flutti greinargerð sveitarstjóra, Guðmundar Guðlaugssonar, varðandi reikninginn.

Engar breytingar hafa orðið frá fyrri umræðu.

Niðurstöðutölur rekstrarreiknings ársins 2007 eru þessar;
Rekstrartekjur fyrir A- og B- hluta sveitarsjóðs 2.668,0 mkr, þar af námu rekstrartekjur A-hluta 2.348,1 mkr. Rekstrargjöld A-hluta sveitarsjóðs án fjármunatekna og fjármagnsgjalda voru 2.114,8 mkr., en 2.349,6 mkr. í A og B-hluta. Nettó fjármagnsliðir til gjalda hjá A-hluta sveitarsjóðs eru 71,3 mkr. og samantekið fyrir A og B hluta 171,6 mkr.
Rekstrarniðurstaða er jákvæð í A-hluta að upphæð 162,1 mkr. og jákvæð í samanteknum A og B hluta að upphæð 146,7 mkr. Eigið fé sveitarfélagsins í árslok 2007 nam 1.193,0 mkr. samkvæmt efnahagsreikningi en þar af nam eigið fé A-hluta 916,1 mkr. Langtímaskuldir A-hluta eru 1.007,9 mkr. og A og B-hluta í heild 2.206,0 mkr.
Lífeyrisskuldbindingar eru í heild 603,9 mkr. og skammtímaskuldir 653,2 mkr.

Leggur sveitarstjóri til að ársreikningur 2007 verði samþykktur.

Til máls tók Páll Dagbjartsson.

Þá Bjarni Jónsson og leggur fram bókun:
?Ársreikningur sveitarfélagsins ber það með sér að skatttekjur sveitarfélagsins urðu meiri en ráð var fyrir gert og háar fjárhæðir, sem sömuleiðis var ekki gert ráð fyrir, bárust úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga m.a vegna breyttra vinnureglna við úthlutun.
Útgjaldavandi sveitarfélagsins, sem taka þarf á, er hinsvegar enn til staðar og ekki er hægt að byggja rekstur sveitarfélagsins á væntingum um stórauknar tekjur.?

Gunnar Bragi Sveinsson kvaddi sér hljóðs og lagði fram bókun meirihlutans:

?Í fyrsta sinn í mörg ár er jákvæð niðurstaða á rekstri Sveitarfélagsins Skagafjarðar og stofnana þess. Rekstrarafgangur varð á rekstri samstæðunnar í heild. Rekstrarniðurstaða A hluta sveitarsjóðs var jákvæð um 162 millj. króna og rekstrarniðurstaða samstæðunnar í heild var jákvæð um tæpar 147 millj. króna. Jákvæður viðsnúningur í rekstri milli ára nemur 211 millj. króna. Framlag Jöfnunarsjóðs hækkar verulega en þar er m.a. um að ræða leiðréttingu á framlagi til fjölkjarnasveitarfélaga.
Annað er skýrir þennan viðsnúning er hækkun útsvarstekna, fasteignaskattstekna og hlutfallsleg lækkun útgjalda. Hækkun þessara tekna ber vott um áræðni og grósku í samfélaginu sem er í takt við markmið meirihlutans, þ.e. að auka tekjur sveitarfélagsins og ná þannig inn fjármunum til nauðsynlegra verkefna í stað þess að skerða þjónustu.
Aðrir þættir í rekstri sveitarfélagsins eru í meginatriðum mjög jákvæðir og sýna lykiltölur glögglega þá breytingu sem orðin er hvað rekstur og efnahag sveitarfélagsins og stofnana þess varðar. Veltufé frá rekstri var á síðasta ári 452 milljónir króna, skatttekjur hækka um 19% milli ára, launakostnaður í þús. kr. pr. íbúa hækkar um 8% á meðan annar rekstrarkostnaður hækkar um 11%. Eignir aukast umtalsvert eða um 22% á meðan skuldir í þús. kr. pr. íbúa hækka um 4%. Hækkun eigin fjár er 88% milli ára og eiginfjárhlutfall fer úr hættumörkum, úr 0,20 í 0,31 og er þar með náð eiginfjárhlutfalli því sem var árið 2003 en taprekstur undanfarin ár hefur gengið mjög á eigið fé samstæðunnar.

Það er því ljóst að styrk stefna í málefnum sveitarfélagsins og gott samstarf við starfsmenn skilar góðum árangri. Framundan eru ár framþróunar og framkvæmda og því mikilvægt að halda áfram á sömu braut.
Meirihluti Framsóknarflokks og Samfylkingar þakkar sveitarstjóra, fjármálastjóra og starfsmönnum öllum fyrir góðan árangur í rekstri sveitarfélagsins.?

Ársreikningur 2007 fyrir Sveitarfélagið Skagafjörð og stofnanir þess borinn undir atkvæði og samþykktur með níu atkvæðum.