Fara í efni

Umsögn um frumvarp til barnaverndarlaga

Málsnúmer 1005138

Vakta málsnúmer

Byggðarráð Svf. Skagafjarðar - 518. fundur - 03.06.2010

Lagt fram erindi frá nefndasviði Alþingis, þar sem óskað er umsagnar um frumvarp til barnaverndarlaga, 557. mál.

Byggðarráð Skagafjarðar hefur fjallað um málið og leitað álits félagsmálastjóra og fræðslustjóra sveitarfélagsins.

Almennt virðast þær breytingar sem lagðar eru til í frumvarpinu til bóta og til þess fallnar að skýra réttarstöðu barna og foreldra, og þar með að gera barnaverndarstarf skilvirkara. Sveitarfélagið vill engu að síður koma einni ábendingu og tveimur athugasemdum á framfæri.

Athygli er vakin á 2. mgr. 34. gr. frumvarpsins, sbr. b. lið, og samspili hennar við 1. mgr. 39. gr. um réttarstöðu foreldris sem ekki fer með forsjá barns. Hér er um mikilvæg nýmæli að ræða varðandi réttarstöðu barns og foreldris, þegar barnaverndarnefnd ráðstafar barni tímabundið til þess foreldris sem ekki fer með forsjá. Er þá gert ráð fyrir að um það gildi sömu reglur og eiga við um tímabundið fóstur. Í 39 gr. frumvarpsins eru skýrðar betur en nú er skyldur sveitarfélagsins við fósturforeldra, þ.m.t. fósturlaun.

Almennt er þessi grein mjög til bóta, en bent er á að ekki er sjálfgefið að foreldri, sem tekur tímabundið við umsjá barns síns, þótt á ábyrgð barnaverndarnefndar sé, þiggi fyrir það fósturlaun, eins og skilja má ákvæði umræddra greina. Þetta ætti að vera unnt að meta í hverju tilviki fyrir sig út frá hagsmunum barnsins og þörfum viðkomandi kynforeldris fyrir stuðning.

Athygli er vakin á 3. mgr. 39. gr. frumvarpsins en þar er gert ráð fyrir að lögheimilissveitarfélag fósturforeldra beri allan almennan skólakostnað fósturbarna. Fram til þessa hefur lögheimilissveitarfélag barnsins greitt hvort tveggja almennan skólakostnað, þmt. skólaakstur, og gjöld fyrir sérfræðiþjónustu. Sú breyting er lögð til að móttökusveitarfélag greiði allan almennan skólakostnað og akstur vegna fósturbarna, en að sérfræðiþjónustan verði áfram greidd af lögheimilissveitarfélagi.

Hér er í langflestum tilviku um að ræða tilfærslu á skólakostnaði frá fjölmennustu sveitarfélögunum, þaðan sem flest fósturbörn koma, til hinna fámennari dreifbýlissveitarfélaga með fámenna skóla og þar af leiðandi háan skólakostnað.

Hér getur verið um verulega íþyngjandi gjöld að ræða fyrir fámenna skóla sem móttökusveitarfélagið hefur enga möguleika að hafa áhrif á. Breytingin virðist því fela í sér augljóst ranglæti og því er mótmælt að breytingin sé nauðsynleg til að tryggja hagsmuni fósturbarns. Þeir yrðu eins vel eða betur tryggðir með því að lögin kvæðu skýrt á um skyldur þess sveitarfélags sem ber ábyrgð á fósturráðstöfuninni. Þessari breytingu er því harðlega mótmælt.

Athygli er vakin á 47. gr. og 48. gr. fumvarpsins um gjaldtöku af sveitarfélögum við ráðstöfun barna í vistúrræði, heimili eða stofnun, skv. 79. gr. bvl. Hér er um nýmæli að ræða sem ætla má að verði til verulegs útgjaldaauka fyrir sveitarfélögin

Minnt er á að ríkið tók að sér rekstur slíkra úrræða, án gjaldtöku, með samkomulagi við sveitarfélögin, sem þess í stað tóku að sér ábyrgð á rekstri akstursþjónustu fatlaðra.

Nauðsynlegt er að skoða þessi mál í þessu ljósi en að öðru leyti er tekið undir umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga varðandi þetta atriði.

Sveitarstjórn Sveitarfélagins Skagafjarðar - 264. fundur - 08.06.2010

Afgreiðsla 518. fundar byggðaráðs staðfest á 264. fundi sveitarstjórnar með níu atkvæðum.