Fram hefur komið tillaga frá fulltrúum Frjálslynda flokksins, Samfylkingar og Sjáfstæðisflokka um að áheyrnarfulltrúar eigi sæti í fastanefndum sveitarfélagins.
Jón Magnússon tók til máls og lagði fram eftirfarandi tillögu;
"Sveitarstjórn samþykkir að þeir flokkar sem eiga sæti í sveitarstjórn komi jafnt að nefndarstörfum í fastanefndum sveitarfélagsins. Í því skyni er samþykkt skv. 53.grein samþykkta sveitarfélagsins að heimila þeim flokkum sem ekki hafa fengið kjörna fulltrúa í fastanefndum sveitarfélagsins, að skipa áheyrnarfulltrúa í viðkomandi nefnd. Áheyrnarfulltrúi hefur málfrelsi og tillögurétt í nefndarstörfum".
Greinargerð:
Tillaga þessi er samhljóma þeirri tillögu sem Bjarni Jónsson sveitarstjórnarfulltrúi Vg. flutti á sveitarstjórnarfundi 20. júní 2006. Ljóst er, að þriggja manna fastanefndir sveitarfélagsins gera ekki ráð fyrir aðkomu fulltrúa allra flokka sem sæti eiga í sveitarstjórn. Sökum mikilvægi þess, að í nefndarstörfum ríki samstarf og opið upplýsingaflæði, var samþykkt að mæta óskum Bjarna Jónssonar og veita áheyrnarfulltrúum aðgang að nefndarstörfum sveitarstjórnar.
Sama staða er nú uppi þar sem framboð fimm flokka fengu kjörna fulltrúa í sveitarstjórn, en sæti kjörinna fulltrúa í fastanefndum sveitarfélagsins eru aðeins þrjú. Til að tryggja samfellu í störfum sveitarstjórnar og auka veg lýðræðislegra vinnubragða, er því nauðsynlegt að veita fulltrúum allra flokka aðkomu að nefndarstörfum í fastanefndum sveitarfélagsins. Þetta verður best tryggt með því að veita þeim flokkum, sem ekki eiga kjörna fulltrúa í fastanefndum sveitarfélagsins, rétt til þess að skipa áheyrnarfulltrúa með málfrelsi og tillögurétt.
Það er ljóst, að núverandi sveitarstjórn þarf á komandi kjörtímabili að taka margar erfiðar ákvarðanir sem snerta hag íbúa sveitarfélagsins og starfsmanna þess. Slíkar ákvarðanir þarf að taka í skjóli öflugrar samstöðu allra sveitarstjórnarfulltrúa til þess að tryggja þá einingu, sem ávallt þarf að ríkja um ákvarðanir er snerta einstaklinga og hópa í okkar samfélagi.
Það er því gleðiefni, að í samkomulagi núverandi meirihluta er þess sérstaklega getið að "áhersla verði lögð á að eiga gott samstarf við fulltrúa annarra flokka í sveitarstjórninni". En í ljósi þessarar yfirlýsingar ætti samþykkt þessarar framlögðu tillögu okkar, að vera í takt við stefnumið allra þeirra fimm flokka sem eiga fulltrúa í núverandi sveitarstjórn.
Gréta Sjöfn Guðmundsdóttir, Jón Magnússon, Sigríður Svavarsdóttir og Sigurjón Þórðarson.
Stefán Vagn Stefánsson tók til máls og lagði fram eftirfarandi breytingartillögu.
"Lagt er til að áfram verði gert ráð fyrir einum áheyrnarfulltrúa, tilnefndum sameiginlega af þeim framboðum eða flokkum sem ekki fá kjörinn fulltrúa í eftirtaldar fastanefndir sveitarfélagsins; skipulags- og bygginganefnd, fræðslunefnd, Félags- og tómstundanefnd, atvinnu- og ferðamálanefnd, menningar- og kynningarnefnd og umhverfis- og samgöngunefnd. Fundi þeirra nefnda sitji því einn áheyrnarfulltrúi auk 3 fastafulltrúa líkt og seinni hluta síðasta kjörtímabils.
Ennfremur verði í fyrsta skipti gert ráð fyrir einum áheyrnarfulltrúa í landbúnaðarnefnd, tilnefndum með sama hætti, sameiginlega af þeim framboðum eða flokkum sem ekki fá kjörinn fulltrúa í nefndina."
Sveitarstjórnarfulltrúar Framsóknarflokks og VG.
Gréta Sjöfn Guðmundsdóttir og Sigurjón Þórðarson kvöddu sér hljóðs.
Jón Magnússon tók til máls og bar upp tillögu um að afgreiðslu málsins verði frestað til næsta sveitarstjórnarfundar.
Bjarni Jónsson tók til máls með leyfi varaforseta, þá Gréta Sjöfn Guðmundsdóttir, Sigriður Svavarsdóttir og Sigurjón Þórðarson.
Frestunartillaga Jóns Magnússonar var borin undir atkvæði og felld með fimm atkvæðum gegn fjórum. Jón Magnússon dró í framhaldi af þvi tillögu Frjálslynda flokks, Samfylkingar og Sjáfstæðisflokks tilbaka.
Breytingartillaga fulltrúa Framsóknar og Vinstri grænna kom því ekki til afgreiðslu.Gréta Sjöfn Guðmundsdóttir kvaddi sér hljóðs.
Fram hefur komið tillaga frá fulltrúum Frjálslynda flokksins, Samfylkingar og Sjáfstæðisflokka um að áheyrnarfulltrúar eigi sæti í fastanefndum sveitarfélagins.