Fara í efni

Erindi frá Sigurjóni Þórðarsyni - atvinnumál

Málsnúmer 1101148

Vakta málsnúmer

Sveitarstjórn Sveitarfélagins Skagafjarðar - 274. fundur - 25.01.2011

Sigurjón Þórðarson tók til máls og lagði fram eftirfarandi tillögu.

"Sveitarstjórn Sveitarfélagsins Skagafjarðar samþykkir að óska eftir því við landbúnaðar og sjávarútvegsráðherra að hann fari vandlega yfir kosti þess að flytja Hafrannsóknarstofnun til Sauðárkróks "

Greinargerð

Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar kemur fram að velta eigi við hverjum steini í þeirri viðleitni að tryggja að sjávarútvegurinn sé hagkvæmur og skapi störf og verðmæti. Í því augnamiði hafa stjórnvöld lagt í vinnu við að fara yfir hvernig fyrirkomulag veiða skuli háttað til að tryggja þjóðinni arð og hagkvæma langtíma nýtingu fiskistofna og almenna sátt í atvinnugreininni. Mikilvægt er sömuleiðis að fara rækilega í gegnum og endurskoða fyrirkomulag hafrannsókna.

Ljóst er að árangur af umdeildri veiðiráðgjöf Hafró er einfaldlega hræðilegur en
kvótakerfið var sett á tímabundið á níunda áratug síðustu aldar til reynslu með því fororði að auka ætti þorskveiðar úr 300 þúsund tonnum í 500 þúsund tonn.

Í stað þess að útgefinn fiskveiðikvóti hafi aukist þá hefur hann minnkað og er einungis 160 þúsund tonn á yfirstandandi fiskveiðiári.

Sjávarútvegsráðherra, Jón Bjarnason hefur nú þegar brugðist við gagnrýni á fiskveiðiráðgjöfina með því að setja á fót nefnd til að fara ofan í saumana á umdeildri ráðgjöf Hafró. Skúli Skúlason rektor á Hólum var skipaður á haustmánuðum 2010 af ráðherra, til að fara fyrir stýrihópi sem ætlað var að fara með gagnrýnum og hlutlausum hætti í gegnum fiskveiðiráðgjöfina og aflareglu.
Svo undarlegt sem það er, þá kvað Hafrannsóknastofnun til þátttöku í nefndarstörfum um endurskoðunina á aflareglunni og veiðiráðgjöfinni, þá sérfræðinga stofnunarinnar sem koma beint að og eru ábyrgðarmenn á þeim verkum sem nefndinni er ætlað að endurskoða!

Þegar fyrirliggjandi er að verndunarstefna Hafrannsóknarstofnunar hefur
skilað minna en engum árangri í tæpa þrjá áratugi þá hlýtur að vera eðlileg
krafa samfélagsins að fyrirkomulag og skipan hafrannsókna verði endurskoðað frá grunni. Koma þarf áherslum stofnunarinnar frá því að vera í fiskatalningu og reiknisfiskifræðilegri ráðgjöf til þess að stunda grunnrannsóknir á vistfræðilegu sambandi lífvera hafsins.

Einn eðlilegur þáttur sem vert er að fara vandlega yfir eru þeir miklu kostir sem fylgja því að flytja Hafrannsóknarstofnun á Sauðárkrók. Gera má ráð fyrir að staðsetning stofnunarinnar á Sauðárkróki tengdi rannsóknir betur við grunnatvinnuveg þjóðarinnar. Staðsetning á Sauðárkróki gæfi kost á endurskipulagningu í í tengslum við þekkingarsetrið Verið og fiskifræðinga við Háskólann á Hólum. Mikilvægt er að undirbúa fyrirhugaðan flutning vandlega og í sem mestu samráði og sátt við starfsfólk þar sem horft verði til þess að starfsemin yrði flutt með markvissum hætti í nokkrum skrefum.

Stefán Vagn Stefánsson kvaddi sér hljóðs og lagði fram eftirfarandi breytingatillögu við tillögu Sigurjóns.

"Sveitarstjórn Sveitarfélagsins Skagafjarðar samþykkir að óska eftir því við landbúnaðar og sjávarútvegsráðherra að hann fari vandlega yfir kosti þess að flytja Hafrannsóknarstofnun, að hluta eða öllu leyti, til Sauðárkróks "

Jón Magnússon tók til máls, þá Stefán Vagn Stefánsson og loks Sigurjón Þórðarson sem lagði jafnframt fram tillögu um að sleppa greinagerðinni.

Forseti bar upp breytingartillögur Stefáns Vagns Stefánssonar og Sigurjóns Þórðarsonar í einu lagi og voru þær samþykktar samhljóða.