Fara í efni

Tillaga um tímabundna niðurfellingu á gatnagerðargjöldum

Málsnúmer 1102103

Vakta málsnúmer

Sveitarstjórn Sveitarfélagins Skagafjarðar - 275. fundur - 22.02.2011

Stefán Vagn Stefánsson tók til máls og lagði fram eftirfarandi tillögu, um tímabundna niðurfellingu gatnagerðargjalda á tilbúnum íbúðalóðum.

Sveitarstjórn Sveitarfélagsins Skagafjarðar samþykkir að fella niður tímabundið gatnagerðargjöld af byggingum íbúðarhúsnæðis af hálfu einstaklinga og verktaka á lóðum við þegar tilbúnar götur á Sauðárkróki, Hofsósi og Varmahlíð. Verði það gert á grundvelli sérstakrar lækkunarheimildar sem hægt er að veita skv. 6. gr. laga nr. 153/2006. Ákvæðið tekur gildi eftir samþykkt þess í sveitarstjórn og varir til 1. júlí 2012. Ákvæðið er ekki afturvirkt og miðað er við að framkvæmdir hefjist innan þessara tímamarka.

Greinargerð

Mikill skortur hefur verið á íbúðarhúsnæði í Sveitarfélaginu Skagafirði að undanförnu. Á það bæði við um húsnæði til sölu, en ekki síst framboð á leiguíbúðum. Markmið þessarar samþykktar er að greiða ennfrekar fyrir því að bæði einstaklingar og fyrirtæki sjái sér hag í að ráðast í byggingu íbúða, parhúsa eða einbýlishúsa í sveitarfélaginu.

Bjarni Jónsson, Stefán Vagn Stefánsson, Sigríður Magnúsdóttir, Viggó Jónsson og Bjarki Tryggvason.

Til máls tóku: Gréta Sjöfn Guðmundsdóttir, Bjarni Jónsson með leyfi forseta, Stefán Vagn Stefánsson, þá Gréta Sjöfn Guðmundsdóttir og lagði fram eftirfarandi bókun.

Undirrituð greiðir atkvæði gegn tillögu meirihlutans, þar sem um er að ræða að fella alfarið niður tekjustofn sveitarfélagsins á móti kostnaði sem sveitarfélagið hefur nú þegar lagt til. Heimild er nú þegar til staðar til niðurfellingar hjá þeim aðilum sem sækja um slíkt. Varhugavert er að samþykkja tekjuskerðingu fyrir sveitarfélagið þar sem ekki eru komnar fram tillögur frá starfshópi sem fjallar um heildarendurskoðun á rekstri sveitarfélagsins. Skv. lögum skal Sveitarstjórn verja gatnagerðargjaldi til gatnagerðar í sveitarfélaginu og til viðhalds gatna og annarra gatnamannvirkja. Með þessari tillögu er lagt til að sveitarfélagið beri alfarið kostnað við gatagerð við tilteknar lóðir, við tilbúnar götur þar sem núverandi húseigendur hafa greitt umrædd gatnagerðargjöld, þar er ekki verið að gæta jafnræðis milli húsbyggjenda.

Gréta Sjöfn Guðmundsdóttir, Samfylkingunni.

Viggó Jónsson og Haraldur Þór Jóhannsson kvöddu sér hljóðs. Forseti, Bjarni Jónsson bar tillöguna undir atkvæði. Samþykkt með átta atkvæðum gegn einu.

Atvinnu- og ferðamálanefnd - 81. fundur - 15.03.2012

Nefndir leggur til við sveitarstjórn að tímabundin niðurfelling gatnagerðargjalda á tilbúnum íbúðalóðum, sem samþykkt var í sveitarstjórn á fundi hennar 22.febrúar 2011 verði framlengd um eitt ár, en að óbreyttu mun henni ljúka 1. júlí nk.

Sveitarstjórn Sveitarfélagins Skagafjarðar - 288. fundur - 28.03.2012

Forseti gerir tillögu um að vísa afgreiðslu þessa máls til 7. liðar á dagskrá, "Tillaga - timabundin niðurfelling gatnagerðargjalda". Samþykkt samhljóða.