Fara í efni

Tillaga - tímabundin niðurfelling gatnagerðargjalda

Málsnúmer 1203351

Vakta málsnúmer

Sveitarstjórn Sveitarfélagins Skagafjarðar - 288. fundur - 28.03.2012

Viggó Jónsson tók til máls og lagði fram eftirfarandi tillögu.

Tímabundin niðurfelling gatnagerðargjalda á tilbúnum íbúðalóðum

Sveitarstjórn Sveitarfélagsins Skagafjarðar samþykkir að fella niður tímabundið gatnagerðargjöld af byggingum íbúðarhúsnæðis af hálfu einstaklinga og verktaka á lóðum við þegar tilbúnar götur á Sauðárkróki, Hofsósi og Varmahlíð. Verði það gert á grundvelli sérstakrar lækkunarheimildar sem hægt er að veita skv. 6. gr. laga nr. 153/2006. Ákvæðið tekur gildi eftir samþykkt þess í sveitarstjórn og varir til 1. júlí 2013. Ákvæðið er ekki afturvirkt og miðað er við að framkvæmdir hefjist innan þessara tímamarka.

Greinargerð

Mikill skortur hefur verið á íbúðarhúsnæði í Sveitarfélaginu Skagafirði að undanförnu. Á það bæði við um húsnæði til sölu, en ekki síst framboð á leiguíbúðum. Markmið þessarar samþykktar er að greiða ennfrekar fyrir því að bæði einstaklingar og fyrirtæki sjái sér hag í að ráðast í byggingu íbúða, parhúsa eða einbýlishúsa í sveitarfélaginu.

Bjarni Jónsson

Stefán Vagn Stefánsson

Sigríður Magnúsdóttir

Viggó Jónsson

Bjarki Tryggvason

Þorsteinn Tómas Broddason, Viggó Jónsson, kvöddu sér hljóðs, þá Bjarni Jónsson með leyfi varaforseta.

Þorsteinn Tómas Broddason tók til máls og lagði fram eftirfarandi bókun: Á því ári sem samþykkt meirihluta Sveitarfélagsins Skagafjarðar um niðurfellingu á fasteignagjöldum hefur verið virk, hefur ekki verið hafist handa við byggingu á einni einustu lóð í þéttbýliskjörnunum okkar. Það má því segja að þessi aðferð meirihlutans við að laða að húsbyggjendur hafi ekki skilað neinum árangri. Tillagan sem hér liggur fyrir er óbreytt frá síðasta ári þrátt fyrir þetta og hvorki hefur verið kannað hvaða eftirspurn er á húsnæðismarkaði né hvaða hvatning gæti haft áhrif á vilja einstaklinga eða fyrirtækja til að hefja húsbyggingar.

Þó að enginn hafi nýtt sér þessa niðurfellingu á því ári sem liðið er frá því að hún tók gildi og segja megi að það sé engin skaði af tillögunni sem slíkri, þá er rétt að benda á að tillaga um að fella niður gatnagerðargjöld tímabundið getur skekkt verulega samkeppnisstöðu á húsnæðismarkaði, og rýrt eigið fé húseigenda sem nú þegar hafa byggt eða keypt húsnæði, sér í lagi á markaði þar sem eftirspurn er meiri en framboð einsog meirihluti Sveitarstjórnar Sveitarfélagsins Skagafjarðar kýs að lýsa fasteignamarkaðinum í Skagafirði. Leyfi til að fella niður gatnagerðargjöld er því verkfæri sem þarf að nota varlega og ígrundað en ekki gera algilt.

Ég greiði því atkvæði gegn tillögunni.

Sigurjón Þórðarson og Viggó Jónsson kvöddu sér hljóðs, þá Bjarni Jónsson með leyfi varaforseta, loks Þorsteinn Tómas Broddason.

Tillagan borin undir atkvæði og samþykkt með átta atkvæðum gegn einu.