Fara í efni

Boðaður niðurskurður í fjárlögum til stofnana og verkefna í Skagafirði

Málsnúmer 1310108

Vakta málsnúmer

Sveitarstjórn Sveitarfélagins Skagafjarðar - 306. fundur - 10.10.2013

Stefán Vagn Stefánsson kvaddi sér hljóðs og kynnti ályktun sveitarstjórnar.

Sveitarstjórn Sveitarfélagsins Skagafjarðar lýsir furðu sinni á að með framlagningu fjárlagafrumvarps fyrir árið 2014 skuli ríkisstjórn Íslands enn halda áfram þeirri aðför að sveitarfélaginu sem viðgengist hefur frá efnahagshruninu árið 2008.

Fram hefur komið við upplýsingaöflun Samtaka sveitarfélaga á Norðurlandi vestra, að frá árinu 2008 og til dagsins í dag hafa hátt í 50 stöðugildi á vegum ríkisins í Skagafirði verið lögð niður eða flutt til annarra landsvæða. Þessar tölur eru mjög í takt við nýja skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands sem unnin var fyrir Byggðastofnun en hún leiðir í ljós að enginn annar landshluti hefur orðið fyrir jafn miklum hlutfallslegum niðurskurði af hálfu ríkisins og Norðurland vestra. Á sama tíma hefur ríkisstörfum fjölgað á höfuðborgarsvæðinu og nálægum landshlutum.

Nái fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar fyrir árið 2014 fram að ganga óbreytt mun störfum á vegum ríkisins í Skagafirði fækka um a.m.k. 20 til viðbótar við þau störf sem þegar eru horfin úr héraðinu. Það er í hróplegu ósamræmi við allt sem eðlilegt getur talist í jafnræði við íbúa landsins og fögur fyrirheit í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnar um jafnrétti til búsetu, að íbúar landsins fái notið þeirrar grunnþjónustu sem gera á kröfu um í nútímasamfélagi og að stuðlað verði að fjölbreyttum atvinnutækifærum um allt land, m.a. með dreifingu opinberra starfa.

Sveitarstjórn Sveitarfélagsins Skagafjarðar leggur áherslu á að skagfirðingar eru reiðubúnir að axla byrðar þær sem lagðar hafa verið á landsmenn til jafns við aðra íbúa. Með öllu er hins vegar óverjandi að skagfirðingar þurfi að taka á sig mun meiri þjónustuskerðingar og niðurskurð en aðrir landsmenn. Hafa ber í huga að hagvöxtur á svæðinu var neikvæður á árunum fyrir efnahagshrunið og því ekki þensluvalda að finna þar.

Sveitarstjórn Sveitarfélagsins Skagafjarðar skorar á ríkisstjórn Íslands og Alþingi að draga nú þegar til baka boðaðan niðurskurð gagnvart starfsemi ríkisins á svæðinu og beita sér þvert á móti fyrir eðlilegri uppbyggingu og þjónustu til jafns við aðra landshluta.

Bjarki Tryggvason
Bjarni Jónsson
Jón Magnússon
Sigríður Svavarsdóttir
Sigurjón Þórðarson
Stefán Vagn Stefánsson
Viggó Jónsson
Þorsteinn Tómas Broddason
Þórdís Friðbjörnsdóttir

Sigurjón Þórðarson, Bjarni Jónsson með leyfi forseta, Viggó Jónsson tóku til máls.
Forseti bar upp framkomna ályktun sveitarstjórnar og var hún samþykkt með níu atkvæðum.