Könnun um söfnun dýrahræja í Skagafirði
Könnun um söfnun dýrahræja í Skagafirði
Landbúnaðar- og innviðanefnd Skagafjarðar samþykkti á 16. fundi sínum samhljóða að gerð verði rafræn notendakönnun meðal búfjáreigenda í Skagafirði um þá möguleika í hirðingu dýrahræja sem fram komu á íbúafundi í Ljósheimum sem haldinn var af nefndinni og Búnaðarsambandi Skagafjarðar.
Niðurstöður könnunarinnar verða ekki bindandi en verða hafðar til hliðsjónar við ákvarðarnatöku í málaflokknum.
Þær leiðir sem kosið er um: (smellið á leiðirnar til að sjá nánari lýsingu)
Leið 1 - Óbreytt kerfi fyrir söfnun, flutning og urðun. Gjaldtaka háð heildarskostnaði.
Hafa óbreytt kerfi fyrir söfnun, flutning og urðun þar sem þeir búfjáreigendur sem leggja til úrgang, óskyldan eðlilegum vanhöldum bústofns, borga ekki aukalega. Gjaldtaka af bústofni er háð heildarkostnaði söfnunar, flutnings og urðunar
Gert er ráð fyrir óbreyttu kerfi. Allir skráðir búfjáreigendur hafa sama rétt til að fá bílinn og láta hann taka allan úrgang (dýrahræ, sláturúrgang, gæsir eða annað lífrænt úr dýraríkinu sem fellur til á bújörðum). Allir greiða eins og verið hefur eftir ásetningi, breytilegt milli búfjártegunda samkvæmt gjaldskrá sveitarfélagsins. Skráningu yrði haldið áfram með það að markmiði að geta skipt úrganginum eins nákvæmlega milli búfjártegunda og kostur er.
Leið 2 - Óbreytt kerfi en vigta sláturúrgang og annað sem telst ekki vera dýrahræ frá eðlilegum vanhöldum.
Hafa óbreytt kerfi en vigta sláturúrgang, gæsir og annað sem telst ekki vera dýrahræ frá eðlilegum vanhöldum bústofns gjaldskrár og rukka sérstaklega fyrir það.
Þá er gert ráð fyrir sameiginlegu kerfi að hluta, þ.e.a.s að söfnun, akstur til urðunar og urðunin væru sameiginleg á því sem telst vera dýrahræ, kominn til af eðlilegum vanhöldum, (sjálfdauð, sjúk/slösuð dýr, sem þarf að fella), væru innifalin í verðinu en annar úrgangur sem væri í pokum yrði vigtaður og rukkað fyrir hann sérstaklega. Í þeim pokum gæti þá verið allt sem ekki flokkast beint sem dýrahræ eins og t.d. sláturúrgangur eða gæsir. Kostnaður við hvert kíló af því sem vigtað væri myndi dekka áætlaðan kostnað við söfnun, flutning frá Sauðárkróki til Stekkjarvíkur ásamt kostnaði við urðun. Áætla má að sá kostnaður gæti verið um 50 kr/kg plús vsk árið 2025.
Leið 3 - Einungis akstur innan fjarðar sameiginlegur kostnaður. Flutningur frá Sauðárkróki á urðunarstað borgaður eftir vigt.
Setja einungis akstur innan fjarðar í sameiginlegan kostnað sem skráðir búfjáreigendur greiða, þannig að allir búfjáreigendur hafa sama rétt til að fá bílinn. Hver og einn borgi svo eftir vigt kostnað við flutning frá Sauðárkróki og á urðunarstað áamt kostnaði við urðun.
Akstur innan fjarðar yrði einungis sameiginlegur og kostnaði við hann yrði deilt á búfjáreigendur eftir ásetningsskýrslum. Allur úrgangur sem yrði tekinn væri vigtaður og viðkomandi bóndi fær svo í framhaldinu reikning fyrir því. Sá reikningur myndi dekka kostnað við umsetningu á Sauðárkróki, flutning þaðan og til Stekkjarvíkur ásamt kostnaði við urðun. Þjónustugjald og flutningur frá Sauðárkróki til Stekkavíkur myndi fylgja útboðsverði sveitarfélagsins og urðunarkostnaðurinn gjaldskrá Norðurá bs. Áætla má að þessi kostnaður verði árið 2025 nálægt 30 kr/kg plús vsk.
Leið 4 - Hætta sameiginlegri þátttöku. Hver og einn sér um að semja við sorphirðuaðila um að sækja dýrahræ til sín.
Hætta sameiginlegri þátttöku allra í kostnað. Hver og einn sér þá um sig með því að hringja í Íslenska gámafélagið og semja um þjónustu samkvæmt þörf.
Sameiginlegri söfnun og þjónustu yrði hætt. Hver og einn búfjáreigandi sem þarf að losna við dýrhræ eða annað myndi hafa beint samband við Íslenska gámafélagið og semja þá um þjónustu eftir þörfum eða koma sjálfur með tilfallandi úrgang á móttökustöð og greiða samkvæmt gjaldskrá.
Könnunin fer fram á betraisland.is. Þátttökurétt hafa þeir búfjáreigendur sem eru skráðir greiðendur eða skráðir forsvarsaðilar þeirra félaga sem reka búin.
Taka þátt í könnun
Könnuninni stendur yfir frá 13. desember til og með 20. desember 2024
Til að tilkynna vandræði með að skrá sig inn á kosningarsíðu vinsamlegast fylgið þessari slóð