Fara í efni

Tillaga um ályktun til ríkisstjórnar Íslands

Málsnúmer 1403206

Vakta málsnúmer

Sveitarstjórn Sveitarfélagins Skagafjarðar - 312. fundur - 20.03.2014

Sigurjón Þórðarson kynnti tillöguna.

Sigurjón Þórðarson og Gréta Sjöfn Guðmundsóttir sveitarstjórnarfulltrúar, leggja fram eftirfarandi tillögu að ályktun:

Ályktun til ríkisstjórnar Íslands.

Sveitarstjórn Sveitarfélagsins Skagafjarðar skorar á ríkisstjórn Íslands að fara að óskum sjómanna og hætta við boðaða skerðingu veiðidaga á grásleppu sbr. reglugerð 72/2014, úr 32 dögum sem var í fyrra og í 20 daga.

Greinargerð:

Fækkun veiðidaga á grásleppu veldur mikilli óvissu um framtíðarrekstraröryggi smábáta. Útgerð smábáta hefur skipt umtalsverðu máli fyrir atvinnulíf Skagafjarðar og víst er að það gæti veri mun meira ef aukið frelsi væri innleitt í greinina. Hætt er við að fækkun veiðidaga valdi ekki einungis samdrætti á afla heldur hvetji til þess að sjómenn sæki frekar sjó við erfiðari aðstæður en ef tímabilið væri lengra. Ljóst er að viku ótíð á því 20 daga tímabili sem sjávarútvegsráðherra hefur skammtað, getur augljóslega haft alvarlegar afleiðingar á afkomu útgerða.

Sigurjón Þórðarson, sveitarstjórnarfulltrúi Frjálslyndra og óháðra og Gréta Sjöfn Guðmundsdóttir, sveitarstjórnarfulltrúi Samfylkingarinnar.

Viggó Jónsson kvaddi sér hljóðs og lagði fram eftirfarandi breytingartillögu.

Sveitarstjórn Sveitarfélagsins Skagafjarðar hvetur sjávarútvegsráðherra til að gæta að sjónarmiðum sjómanna og vistfræðilegum rökum hvað varðar skerðingu veiðidaga á grásleppu sbr. reglugerð 72/2014 og áhrifin sem það hefur á afkomu útgerða. Margt bendir til að allt of langt sé gengið með boðaðri skerðingu á veiðidaga grásleppu úr 32 dögum sem var í fyrra og í 20 daga. Einnig er mikilvægt að gæta að því að veiðitímabil sé ekki skert þannig að sjómenn nái að nýta útgefna veiðidaga, en veðurfar hefur oft valdið verulegum vandkvæðum og komið í veg fyrir að það náist.

Sigurjón Þórðarson tók til máls, þá Gréta Sjöfn Guðmundsdóttir, Jón Magnússon, Sigurjón Þórðarson, Jón Magnússon, Viggó Jónsson.

Tillagan frá Grétu Sjöfn Guðmundsdóttur og Sigurjóni Þórðarsyni borin undir atkvæði og felld með sex atkvæðum gegn tveimur, Bjarni Jónsson sat hjá og gerir grein fyrir atkvæði sínu, með leyfi forseta.

Breytingartillaga Viggós Jónssonar borin undir atkvæði og samþykkt með níu atkvæðum.