Fara í efni

Tillaga - Leikskólinn Birkilundur Varmahlíð

Málsnúmer 1403207

Vakta málsnúmer

Sveitarstjórn Sveitarfélagins Skagafjarðar - 312. fundur - 20.03.2014

Gréta Sjöfn Guðmundsóttir fulltrúi Samfylkingar kynnti tillöguna.

Tillaga til að vinda ofan af biðlista um leikskólapláss í Varmahlíð.
Sveitarstjórn Sveitarfélagsins Skagafjarðar samþykkir að gera átak til að vinda ofan af þeim biðlista sem nú er staðreynd við leikskólann Birkilund í Varmahlíð. Hafin verði nú þegar vinna við að finna skammtímalausn á hvimleiðum húsnæðisvanda svo hægt verð að taka inn börn af biðlista strax næsta haust. Byggðaráði er falið að vinna að málinu í nánu samstarfi við fræðslunefnd og Samstarfsnefnd Sveitarfélagsins og Akrahrepp. Haustið 2014 verði sveitarfélagið komið með skammtímalausn og biðtími foreldra á enda.

Greinargerð:
Samstarfsnefnd Sveitarfélagsins og Akrahrepps hefur unnið að lausn á húsnæðisvanda leikskólans Birkilundar í Varmahlíð undanfarið ár í samvinnu við skólastjórnendur í Varmahlíð. Fram hefur komið að langur biðlisti hefur verið undanfarin ár og nú telur hann um 10 börn. Fyrir liggur tillaga nefndarinnar að starfsemi leikskólans verði færð á neðstu hæð grunnskólans í Varmahlíð og gert var ráð fyrir þeirri breytingu í fjárhagsáætlun. Tillagan var kynnt ásamt grunnteikningu að breytingum, af samstarfsnefndinni nýlega, fyrir starfsfólk leik ? og grunnskólans ásamt foreldrum barna á leikskólaaldri. Fram kom á þeim fundi að rétt væri að skoða betur möguleika og kostnað við stækkun á núverandi húsnæði leikskólans ásamt því að nánar yrði unnið með kostnaðarmat á breytingum á húsnæði grunnskólans og áhrif breytinganna á núverandi skólastarf. Samstarfsnefndin hefur nú fundað um málið og komist að þeirri niðurstöðu að vinna frekar að kostnaðarútreikningum á þeim kostum sem til greina koma. Nefndin telur ekki möguleika á að leysa úr biðlista við leikskólann nema dagforeldrar fáist til starfa á svæðinu. Sú vinna sem nefndin leggur til mun taka tíma og auglýsingar og hvatning af hálfu sveitarfélagsins um að þörf sé fyrir dagforeldra á svæðinu hafa hingað til ekki dugað. Það er því komið að því að fundin sé lausn til skamms tíma á biðlista eftir leikskólaplássi í Varmahlíð jafnhliða því að áfram verði unnið að framtíðarlausn.

Gréta Sjöfn Guðmundsdóttir, sveitarstjórnarfulltrúi Samfylkingarinnar og Sigurjón Þórðarson, sveitarstjórnarfulltrúi Frjálslyndra og óháðra.

Sigríður Svavarsdóttir lagði fram eftirfarandi bókun:

Samstarfsnefnd Sveitarfélagsins Skagafjarðar og Akrahrepps er að vinna heilshugar að lausn á húsnæðisvanda leikskólans Birkilundar í Varmahlíð. Í samstarfi við fulltrúa foreldrafélaga leik- og grunnskóla er vonast til að lausn finnist sem allra fyrst.

Sigríður Svavarsdóttir fulltrúi sjálfstæðismanna í Samstarfsnefnd Sveitarfélagsins og Akrahrepps.

Sigurjón Þórðarson kvaddi sér hljóðs, þá Jón Magnússon.

Viggó Jónsson tók til máls og gerði tillögu um að vísa tillögu Grétu Sjafnar Guðmundsdóttir og Sigurjóns Þórðarsonar til Samstarfsnefndar með Akrahreppi.

Jafnframt lagði Viggó Jónsson fram eftirfarandi bókun.

Samstarfsnefnd Sveitarfélagsins Skagafjarðar og Akrahrepps hefur unnið að úrræðum til að eyða biðlistum og leysa úr húsnæðisvanda leikskólans Birkilundar um fyrirsjáanlega framtíð. Fyrir skemmstu var haldinn ágætur fundur með foreldrum og starfsfólki grunn- og leikskóla í Varmahlíð um mögulegar lausnir og í kjölfarið hefur samstarfsnefnd í samráði við fulltrúa foreldrafélaga skólanna, samþykkt að vinna að frekari kostnaðarútreikningum á þeim kostum sem til greina koma. Samhliða hefur verið unnið að einstökum lausnum, m.a. með styrk til greiðslu aupair-starfsmanns, skoðun á svokölluðu ömmuleyfi o.fl. þar til varanlegri lausnir liggja fyrir. Gangi áætlanir eftir mun biðlisti eftir leikskólaplássi hafa minnkað um 2/3 næsta haust og jafnvel gott betur. Mikil áhersla er lögð á að þessari vinnu verði hraðað sem verða má og góðar lausnir fundnar sem allra fyrst. Bent er á að um er að ræða samstarfsverkefni tveggja sveitarfélaga og því eðlilegt að málið sé unnið og leitt af samstarfsnefnd þeirra.

Viggó Jónsson,
Þórdís Friðbjörnsdóttir,
Sigríður Magnúsdóttir,
Bjarki Tryggvason og
Bjarni Jónsson.

Gréta Sjöfn Guðmundsdóttir, Sigríður Svavarsdóttir, Sigurjón Þórðarson, Viggó Jónsson, Gréta Sjöfn Guðmundsdóttir, Bjarki Tryggvason, Þórdís Friðbjörnsdóttir, Jón Magnússon kvöddu sér hljóðs.

Tillaga Viggós Jónssonar um að vísa tillögu Grétu Sjafnar Guðmundsdóttur og Sigurjóns Þórðarsonar til Samstarfsnefndar með Akrahreppi, borin undir atkvæði, og samþykkt með sjö atkvæðum gegn tveimur.

Gréta Sjöfn Guðmundsdóttir og Sigurjón Þórðarson óska eftir að bókað verði: Hörmum að ekki sé hægt að sýna vandamálum foreldra með börn á biðlista skilning og koma á lausn haustið 2014.

Bjarki Tryggvason kvaddi sér hljóðs og ítrekar bókun Viggó Jónssonar.

Jón Magnússon kvaddi sér hljóðs og óskar bókað.
Flutningsmenn tillögunnar hafa ekki komið fram með neinar lausnir á biðlistavanda leikskólans Birkilundar í Varmahlíð.
Flutningsmenn hafa reynt með tillögunni að gera málið að pólitísku bitbeini inna sveitarstjórnar. Það er miður og ekki í þágu lausnar málsins.

Sigurjón Þórðarson tók til máls.